04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

19. mál, áfengislög

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður tók reyndar af mér ómakið að svara, þar sem hann tók fram flest þau atriði, sem ég ætlaði að minnast lítillega á. Annars ætla ég að benda á það ósamræmi, sem fram kom í ræðum þeirra manna, sem málinu eru fylgjandi. Annað var það, að dómsmrh. tók fram í sinni framsöguræðu fyrir málinu, að heimildin hefði enn ekki komið til framkvæmda, og jafnframt talaði hann um, að hún mundi aldrei koma til framkvæmda, nema uppfyllt væru viss skilyrði, — þau, að greiddar yrðu af framleiðslunni tolltekjur þær, sem ríkissjóður á að hafa. Jafnframt þessu talaði frsm. n. um, að framleiðsla hefði strax verið hafin, en hins vegar vildi hann ekki heyra, að framleiðslunni hefði verið hellt niður, og gaf í skyn, að samkomulag hefði náðst og þá tollar sennilega greiddir í ríkissjóð. Þetta kemur illa saman og bendir ekki til mikillar alvöru í þessu máli, og virðist skorta haldgóð rök fyrir því, að þessi heimild verði gefin fyrir framleiðslu ölsins.

Meiri hluti n. hefur fært þau rök fyrir málinu, að full trygging sé fyrir því, að greiddur verði framleiðslutollur af þessari framleiðslu, án þess að nokkuð hafi komið fram, í hverju sú trygging er fólgin, öðru en því, að ráðh. lýsti yfir áðan, að hann mundi ekki — eins og hann orðaði það — nota þessa heimild, nema þessi tollgreiðsla fengist. Ég tel þetta samt sem áður ekki næga tryggingu og það því síður sem enn þá stendur í lagafrv. ákvæði, sem beinlínis er við það miðað, að hafður sé annar háttur á um tollgreiðslu af þessu en því öli, sem ætlazt er til að verði framleitt fyrir Íslendinga. Það stendur hér, að ákveðið skuli með reglugerð, hvaða tollur skuli greiddur af þessu öll. Ég vænti þess, að meiri hl. n. og þeir alþm., sem vilja samþykkja þetta frv. með þeirri forsendu, að greiddur skuli af þessu öli tollur eins og öðru öli, sem hér er framleitt, muni á það fallast að fella þetta ákvæði niður úr gr., og leyfi ég mér því að flytja skriflega brtt. við 1. gr., um að orðin „tollgreiðslu af ölinu“ falli niður. Það stendur hér í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, tollgreiðslu af ölinu, sölumeðferð .... má setja með reglugerð.“ Ef það á að vera forsenda fyrir framkvæmd l. og notkun heimildarinnar, að greiddur sé af þessu fullur tollur, þá er engin ástæða til að hafa þessi orð: „tollgreiðslu af ölinu“, — að það sé ákveðið með reglugerð. Ég vildi því leggja til, að þessi orð verði felld niður, og vænti þess, að þeir, sem vilja fylgja málinu með þeirri forsendu, að fullur tollur skuli af þessu greiddur, geti á það fallizt, þannig að ekki sé um að villast, að ekki sé lengur í l. nokkur heimild til þess að falla frá tollgreiðslu af þessu.