07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

19. mál, áfengislög

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir, að hann hefði efnislega samþ. skrifl. brtt., sem ég lagði fram fyrir hönd n., en segir hins vegar, að ekki sé ástæða til að setja þetta inn, eftir að hann hefur gefið sína yfirlýsingu á síðasta fundi. En hann óskar eftir nokkurri orðalagsbreyt. á till., sem ekki breytir efni hennar. Vil ég lýsa yfir því, út af orðum hæstv. ráðh., sem kom einnig greinilega fram í n., að ekki sé bein ástæða til að gera þetta, eftir að hæstv. ráðh. hefur gefið sína yfirlýsingu, og þessi brtt. er engan veginn borin fram sem neitt vantraust á hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál. En það þótti hins vegar réttara að kveða á um þetta í l., úr því að það kom fram hreinn vilji í d., að þetta skyldi vera þannig, því að ekki er vitað, hvenær skiptir um ráðherra á voru landi, Íslandi. Ég hef nú haft tækifæri til að bera mig saman við ráðh. um breyt., og það er samkomulag við hann og n. um, að svofelld brtt. verði borin fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 1. gr. Meginmálsgreinin orðist svo:

Þó skal ríkisstj. heimilt að leyfa tilbúning öls, sem hefur inni að halda meira en 21/4% af vínanda að rúmmáli, til að selja hinn erlenda varnarliði hér á landi, enda verði tollar og skattar greiddir af því öli eftir sömu reglum og gilda um annað öl, sem framleitt er í landinu. Nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, sölumeðferð, refsingar fyrir brot á þeim fyrirmælum og annað, má setja með reglugerð.“

Efnislega er þessi brtt. nákvæmlega eins, en orðalagið nokkuð annað. Leyfi ég mér að bera þessa brtt. fram, en tek aftur þá brtt., sem ég lagði fram áðan.