07.01.1952
Efri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þá fyrst út af því, sem hv. þm. Barð. sagði í upphafi, taka fram, að vitanlega ber ekki að líta á þetta frv. sem viðurkenningu ríkisstj. á því, að henni beri að bæta tjón í sambandi við skuldaskilin. Því er ekki til að dreifa, og ég veit, að allir hv. þm., sem fylgdu skuldaskilunum á sínum tíma, gerðu sér grein fyrir, að það yrðu skuldaafskriftir í sambandi við þau. Ég dreg ekki í efa, að ef þm. hefðu ætlazt til, að allir slyppu skaðlaust, hefðu þeir sett ákvæði í lögin til að tryggja það. Það er ekki hægt að setja löggjöf eins og skuldaskilalöggjöfina og túlka hana svo þannig, að ríkið sé ábyrgt fyrir þeim skaða, sem menn verða fyrir af henni.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði, vil ég upplýsa það sem mína skoðun, að ég hygg, að sú leið sé óframkvæmanleg að reikna upp á nýtt skatta aftur í tímann, vegna þess að það er oft óhugsandi að finna út, frá hvaða tíma skuldin stafar, sem afskrifuð er, vegna þess að venjulega er um að ræða viðskipti í áframhaldandi reikningi og því ómögulegt að segja um, upp í hvað innborganirnar eru gerðar. Hitt er svo annað mál með stóreignaskattinn, því að hann er lagður á á sama ári. Ég held því að vel athuguðu máli, að það sé eina leiðin að viðhafa þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Það hefur verið rætt við aðila um þetta, og eru allir vel ánægðir með það, svo langt sem það nær, og hefur verið tekið tillit til þeirra óska. — Varðandi hitt, hvort stofnað verði til víðtækari ráðstafana en frv. gerir ráð fyrir, hef ég ekki rétt til að gefa svör endanlega fyrir hönd ríkisstj. hér, en hitt get ég upplýst, að þetta hefur oft verið rætt í ríkisstj. og íhugaðar þær óskir, sem fram hafa komið frá hlutaðeigendum, en ekki verið tekin ákvörðun um flutning annars frv. en þessa um þetta mál.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa afskipti af því, við hverja n. ræðir, en mundi telja rétt, að hún hefði samvinnu um málið við ríkisstj. eða þá ráðh.. sem þetta snertir sérstaklega, eða atvmrh. og iðnmrh., og að nokkru leyti snertir þetta einnig mitt verksvið að því er viðkemur skattgreiðslunni eða hag ríkisins. Vil ég sérstaklega heina því til n., að hún eigi tal við ráðherrana um þetta mál.