17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

156. mál, skattfrádráttur vegna skuldaskila bátaútvegsins

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 542 var flutt frv. til l. um sérstakan frádrátt á sköttum tapaðra skulda vegna skuldaskila bátaútvegsins. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa ýmsir orðið fyrir tjóni í sambandi við skuldaskil bátaútvegsins. Koma þar sérstaklega til greina ýmis iðnfyrirtæki, sem átt hafa skuldir hjá þeim mönnum, sem neyddust til að fara í skuldaskil. Frv. gerir ráð fyrir því, að leyft verði að draga skuldatöp atvinnufyrirtækja frá skattskyldum tekjum við allt að fimm næstu áramót, eftir að skuldaskilum lauk, og þá jafnstóran hluta tapanna í hvert skipti. — Þá er og í 2. gr. gert ráð fyrir því, að eignatap vegna skuldaskilanna, sem heimilt er að afskrifa samkvæmt 1. gr. þessara laga, skuli og koma til frádráttar skattskyldri eign, sbr. lög nr. 22 1950.

Fjhn. þessarar deildar hefur samþykkt að mæla með frv. eins og það kom frá hv. Ed.