07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. því hefur áður verið lýst yfir, að ríkisstj. mundi leita heimildar til þess að ráðstafa fjárhæð af greiðsluafgangi fyrra árs, og hefur verið greint frá því, í hvaða skyni ríkisstj. legði til, að honum væri varið. Nú hefur verið samið frv. um þetta, sem að efni til er það, að ríkisstj. skuli heimilað að verja 38 millj. af greiðsluafgangi ársins 1951, og er greint frá því, hvernig stj. leggur til, að því fé verði varið, og er ástæðulaust að vera að lesa þann lista hér.

Ég skal taka það fram, að horfur eru á, að á þessu ári, sem var að líða, verði um 50 millj. kr. greiðsluafgangur, og síðustu athuganir, sem fram hafa farið, leiða í ljós, að hann muni verða nálægt því. Við höfum lagt þetta til hliðar nokkuð jafnóðum, og yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Landsbankanum er 7 millj. kr. lægri nú á sama tíma en hún var um áramót í fyrra, og svo er um aðrar lausaskuldir ríkisins, þannig að þessi áætlun um 50 millj. staðfestist líka af því, að þær greiðslur, sem komnar eru út, eru álíka og þær voru í fyrra.

Nú er það sannast, að ríkissjóður hefði þurft að laga enn betur fyrir sér, með því bæði að höggva enn betur í lausaskuldirnar og eiga meira fé handbært til þess að hlaupa upp á. En með tilliti til þess, hvað þörfin fyrir þessar framkvæmdir er brýn, þá hefur ríkisstj. gert það að till. sinni að ráðstafa þessu fé svo sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þó að þar sé teflt á tæpasta vaðið.

Ég vil svo að endingu æskja þess, að þessu frv. verði vísað til fjhn.