07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm. sagðist hafa búizt við, að meiru yrði varið til verkamannabústaða af þessum greiðsluafgangi, sem orðið hefur á síðasta ári. Það verða nú auðvitað alltaf skiptar skoðanir um það, hvernig eigi að skipta á milli hinna einstöku bygginga, sem styrks eiga að njóta frá ríkinu, og þetta er það samkomulag, sem varð innan ríkisstj. um fjárveitingar í þessu skyni. Það varð að samkomulagi innan hennar, að 1/3 hluti þess fjár, sem veitt yrði til bygginga, skyldi fara til byggingarsjóðs verkamanna, 1/3 skyldi fara til að lána sveitarfélögum til útrýmingar heilsuspillandi íbúða skv. Hl. kafla laga nr. 44/1946 og 1/3 skyldi ganga til smáíbúða. Um þessa skiptingu má auðvitað alltaf deila, en þetta er það, sem varð að samkomulagi, og það er vitað, að brýn þörf er á þeirri fjárveitingu, sem um getur í 3. lið og á að fara til að greiða kostnað við útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis.

En annars kvaddi ég mér hljóðs út af því, sem þessi hv. þm. sagði um vaxtakjör þessara lána. Ég vil í fyrsta lagi benda honum á, að þó að nú standi þannig sakir, að ríkissjóður þurfi ekki að greiða háa vexti af yfirdráttarskuldum sínum í Landsbankanum, þá er svo um mótvirðissjóðinn, að ekki er annað fyrirsjáanlegt en að þær þrjár miklu framkvæmdir, sem ákveðið hefur verið, að hann skuli ganga til, éti hann upp að fullu.

Það er svo, að þó að nú sé lítill afgangur af vöxtum, sem ríkið þarf að greiða, þá verður það ekki til frambúðar, að mótvirðissjóður standi á móti vaxtagreiðslum ríkissjóðs, og það er sannast að segja, að af lánum, sem tekin eru í Landsbankanum, eru vextir ekki undir 6–7% og oft hærri. Og yfirleitt eru vextir hjá félögum, sem þurfa að taka lán, miklu hærri, og ég fullyrði, að þau tvö ár, sem ég hef komið nálægt þessum málum, hefur aldrei verið tekin ábyrgð á láni, þar sem vextir voru lægri en 6%, og eru það þeir vextir, sem hafa verið greiddir af þeim lánum, sem hafa verið veitt til ýmissa framkvæmda, svo sem hafnargerða, hraðfrystihúsa og beinamjölsverksmiðja. Þannig eru þessir vextir allmiklu hærri en þeir vextir, sem hér er lagt til að gangi til alveg hliðstæðra framkvæmda, svo að það eru veruleg hlunnindi að fá lán með þessum vöxtum, sem eru 51/2%.

Svo er annað atriði í þessu máli, sem er alveg prinsipatriði. Hér á landi er einn aðalörðugleikinn lánsfjárskorturinn, sem kemur til af því, að það safnast svo lítið fyrir af innstæðufé, þannig að það eru hinar alvarlegustu horfur í þessum málum. Hér eru engar stofnanir, sem eru svo vel fjárhagslega stæðar, að þær geti lánað nokkuð verulega út til framkvæmda; hér eru engar stofnanir, sem eigi nokkuð verulega sjóði, nema vera skyldu tryggingarnar.

Það, sem við verðum að hugsa um, er það, hvernig við ætlum að hafa þetta á næsta ári. Við verðum að gæta þess að láta þetta fé ganga hringrás, þannig að við lánum það og fáum lánin endurgreidd, svo að við getum aftur lánað það fé öðrum aðilum. Við verðum að leggja aðaláherzluna á það að fá lánin endurgreidd, til þess að láta féð ganga. Ef við fleygjum þessu fé út úr höndum okkar, þannig að við fáum ekkert af því endurgreitt fyrr en eftir langan tíma, þá þýðir það það, að við verðum seinna meir á eftir með ýmsar framkvæmdir, vegna þess að féð kemur ekki aftur á hæfilegum tíma. Það er því sannfæring mín, að það, sem okkur ber að gera til þess að nota þetta fé sem mest til styrktar í efnahagslífi þjóðarinnar, það sé að lána fé þetta með hæfilega háum vöxtum til hæfilega langs tíma, svo að við getum styrkt með því aðrar framkvæmdir og haft það alltaf tilbúið. Við eigum að stefna að því marki að láta okkur verða sem mest úr þessu fé og hafa það alltaf til taks til styrktar þeim framkvæmdum, sem sífellt hljóta að verða hjá okkur og nauðsynlegar eru. Það er þessi skoðun, sem ég legg til grundvallar og kemur fram í frv. Ég leyfi mér og að vænta þess, að hv. Alþ. geti fallizt á þetta sjónarmið. Þetta er mikilvægt atriði, og það er mikið undir því komið, að þjóðin geri sér þetta ljóst, ekki sízt er hún á við efnahagslega erfiðleika að stríða. Það þarf því að íhuga vandlega um stofnun deildar, sem mundi geta gert það að verkum, að okkur yrði sem mest úr því fé, er við höfum yfir að ráða, og gæti lánað með hæfilegum (51/2%) vöxtum fé til hæfilegs tíma, sem væri þá hægt að veita inn í efnahagskerfi þjóðarinnar.