07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var að ræða um vexti og sparnað. Ég ætlaði mér ekki að fara að ræða þetta nú, en ég ætla aðeins að drepa hér á nokkur atriði, sem ég er honum ósammála um. Mér er það fullljóst, að skoðanamunur okkar er djúptækur og nær ekki aðeins til ágreinings okkar um vextina af þessu fé.

Ég vil vekja eftirtekt hæstv. ráðh. á því, að ef hann ætlar að halda áfram á sömu braut og ætlar okkur slíkt hið sama, þá megum við vara okkur. Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. ætla að verja hluta af greiðsluafgangi ríkissjóðs til lána til byggingar smáíbúða og byggingarsjóðs verkamanna, og skuli lánin vera með 51/2% vöxtum. Svo er hæstv. ráðh. að tala um sparnað. Það verður ekki aðeins farið upp í 51/2% gjald, heldur og líka 10%. Hæstv. ráðh. veit ósköp vel, að margar af þessum stofnunum, sem hér er um að ræða, lána til félagsmanna sinna með allt niður í 2% vexti. Ég kann því illa, að ríkið reki slíka okurstarfsemi sem rekin er í skjóli lánsfjárstofnana, sem lána út með 10% vöxtum. Ég er viss um, að þótt ríkisstj. haldi fast við þessa stefnu sína, þá gengur henni ekki vei að innheimta vextina af þessum lánum. Sannleikurinn er sá, að íslenzkir atvinnuvegir eru enn þá á lágu tæknilegu stigi. Ef við ætlum að reka þá á normalan hátt og þannig, að þeir dafni, þá verðum við að skapa þeim möguleika til þess að fá hagstæð lán, — fá lán til hæfilegs tíma með eðlilegum vöxtum. Og bankarnir verða að fá heimild til þess að auka lánsfé. Með þessum háu sköttum og vöxtum af lánsfé virðist stefnan vera sú að kyrkja allt efnahagslíf í þjóðfélaginu.

Ég vildi svo spyrja hæstv. ríkisstj., hvers vegna erlent lánsfé er ekki gefið frjálst. (Fjmrh.: Það er leyft.) Ef svo er, hvers vegna hefur hæstv. ríkisstj. þá ekki gefið yfirlýsingu um, að svo sé? Heldur á þessi mikli lánsfjárskortur í landinu að kyrkja allt efnahagslíf og alla möguleika til að efla atvinnuvegi landsmanna. Hugsum okkur það, að allur flotinn kæmist ekki út í dag, nema hann fengi aukið lánsfé. Þá mundi það verða að stranda á því, að féð fæst alls ekki og flotinn, sem aðallega aflar þjóðinni gjaldeyrístekna, yrði að sitja í höfn. Það eru ekki peningarnir, sem okkur ber aðallega að hugsa um, heldur þau tæki, sem við eigum. Þeir eru ekki aðalundirstaða efnahagslífs þjóðarinnar, heldur þau tæki, sem við eigum og miða að því að skapa atvinnu og efla atvinnuvegina. Það eru bátarnir, sem skapa vinnu hér á landi og afla gjaldeyris með því, að við getum selt síld, hraðfrystan fisk og saltfisk. Við eigum ekki alltaf að hugsa um það að spara og spara, því að hvaða gagn er að því að eiga peningana í bönkum, þegar atvinnutækin geta ekki gengið vegna lánsfjárskorts? Við eigum tækin, og við verðum að hugsa um að halda þeim gangandi. Það eru þau, sem skapa atvinnu og efla efnahagslífið. Peningarnir ern aðeins ávísanir. Við eigum gífurlegt fjármagn, því að það eru ekki peningarnir, sem eru fjármagn, heldur atvinnutækin. Ég veit það vel, að ég prédika fyrir daufum eyrum um þetta, því að skoðanamunur okkar hæstv. ráðh. og ríkisstj. er svo djúptækur.

Fólkið getur ekki sparað, þegar það hefur enga atvinnu, en ef það fær nóga vinnu, þá mundi það frekar geta sparað og skapað sparifé. Ég álít stefnu hæstv. ríkisstj. vera litla fjármálapólitík, þegar ríkisstj. borgar svo 7% yfirdráttarvexti af lánum. Ef ríkissjóður borgar 7% yfirdráttarvexti, hvaða pólitík er þá í því, að ríkisstj. fyrirskipi honum að lána með lægri vöxtum? Fyrir þessu er engin afsökun. Svo drepumst við úr lánsfjárskorti.