07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég átti sæti í bæjarstjórn 1933. Þá var mikið atvinnuleysi, og var reynt að bæta úr því með atvinnubótavinnu. Þá var það á bæjarstjórnarfundi, er rætt var um þessi mál, að fulltrúi Alþfl. — kommúnistar voru þá ekki komnir segir, að það sé enginn vandi að ráða fram úr þessu, því að peningarnir séu til í Landsbankanum og það sé ekkert annað en að sækja þá þangað og lána út, þeir komi inn aftur, og þannig megi halda áfram allan veturinn. Þetta er svipað hjá þessum hv. fulltrúa og 2. þm. Reykv. hér áðan. Peningarnir eru til, það er ekkert annað en að sækja þá og lána út, þeir koma inn aftur, og þá á að lána þá á nýjan leik. M.ö.o., rekstrarféð er nóg til, það er bara að sækja það, og það er tóm vitleysa að vera að þrátta um þetta, því að það er nóg fé til. Hans sjónarmið í þessu efni eru ólík því, sem aðrir hafa. Hann segir, að lánsféð sé nóg til, en lánsfjárskorturinn sé mikill, og er það af því, að allir geta ekki fengið allt, sem þeir vilja. Það land, sem efnahagslega er sjálfstæðast nú í dag, er sennilega Kanada, og er það eingöngu að þakka skynsamlegri útlánastarfsemi. Hins vegar hafa ýmis félög viljað fá lán með vissum skilyrðum, og hefur verið reynt að greiða fyrir því. Aftur á móti hefur Landsbankinn verið mjög óviljugur að taka að sér þessar skuldbindingar. Ég skil nú ekki hv. þm., þegar hann er að tala um lánsfjárskort ríkisstj. ríkisstj. hefur ekki skapað neinn lánsfjárskort, og það er fyrirbrigði, sem reynist erfitt að definera. Það er Landsbankinn, sem ber hitana og þungann í þessum efnum, og vitaskuld verður bankinn að hafa hér einhvern hemil á, að ekki sé lánað út í öfgar. Í þessum efnum verður að gæta hófs og takmarkana, svo að ekki leiði til tjóns og dýrtíðar. — Annars er ég hissa á því, hvernig þessi hv. þm. getur talað, jafngreindur maður og hann er. Það er erfitt að átta sig á, hvað hann er að fara í öllum sínum mælskuflaumi. Það ætti að vera ljósara en svo, að fara þurfi um það orðum, að það þarf að reka skynsamlega bankastarfsemi í landinu.

Hv. þm. talaði um það, að 51/2% vextir af lánum skv. 1., 2., 3., 4. og 8. tölul. 1. gr. frv. sé of há renta. Ég get nú ekki fallizt á það. Þegar yfirleitt taka þarf lán til einhvers framtaks og framkvæmda, má segja, að rentufóturinn sé hærri, og getur þetta ekki talizt annað en sanngjarn rentufótur og vart hægt að lána fé með lægri vaxtakjörum.