07.01.1952
Neðri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki til neins að karpa um þetta við hæstv. ráðh., því að hann snýr út úr því, sem ég segi.

Hann talaði um, að það yrði að gæta þess, að rekin væri skynsamleg bankapólitík í landinn. En í hverju liggur það, þegar óskynsamleg bankapólitík er rekin? Hún getur legið í tvennu. Í fyrsta lagi, ef banki veitir of mikla peninga inn í þjóðfélagið, þannig að peningum sé beinlínis ýtt að mönnum. Á hinn bóginn skapast vandræðaástand, ef svo lítið fé er lagt fram til útlána, að atvinnuvegir stöðvist að meira eða minna leyti og atvinnuleysi skapast af þeim sökum. Þá er í báðum þessum tilfellum stefnt í þjóðhagslega hættu. Þetta er því hvort tveggja óskynsamleg stefna. Meðalhófið liggur hér á milli öfganna. Hjá okkar fámennu þjóð er vinnuaflið það dýrmætt, að einskis skyldi ófreistað að hagnýta það til aukinna framkvæmda og framleiðslu. Það verður að tryggja atvinnuvegunum rekstrarfé og landsmönnum atvinnu. Atvinnuleysið í landinu er nú orðið svo alvarlegt, að hafast verður eitthvað að. Útflutningsframleiðslan má ekki stranda. Það eru raunsæ vinnubrögð, sem við þurfum í bankapólitík okkar.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta nú, enda virðist það vera til lítils að deila við hæstv. ráðherra.