14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil segja fáein orð út af brtt. — Vil ég þá fyrst minnast á brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. landsl., Í þessum till. er stungið upp á að ráðstafa 136 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs áríð 1951. Þessar till. ná vitanlega alls engri átt vegna þess. að greiðsluafgangur ríkissjóðs 1951 nálgast ekkert þessa fjárhæð, sem þm. vilja ráðstafa. Hann verður ekki einu sinni helmingur af þeirri upphæð, þannig að ef þessi till. yrði samþ., yrði a.m.k. að taka mjög mikið af fé mótvirðissjóðs, enda hefur það komið fram hjá hv. flm., en þá hefði þurft að breyta fyrirsögn frv. En varðandi mótvirðissjóð er það að segja, að núverandi stjórnarflokkar hafa gert samkomulag um að beita sér fyrir því, að úr honum væri varið fé til þess að lána í virkjanir, þ.e. Sogsvirkjunina og Laxárvirkjunina, og áburðarverksmiðju og koma þessum fyrirtækjum upp. Og enn fremur hefur stj., með samþykki stjórnarflokkanna, lagt til, að úr mótvirðissjóði verði varið 50 millj. kr. til þess að greiða lausaskuldir ríkissjóðs í Landsbankanum, en að vísu er ekki enn þá búið að ganga frá þessari 50 millj. kr. greiðslu og nokkuð vafasamt, hvernig um það fer. Er auðséð af þessu, að ekki er til þess að hugsa, að mótvirðissjóður geti á þessu ári náð til annars en þessara atriða, þar sem hlýtur að verða að ætla það, sem hægt er að losa úr sjóðnum á þessu ári, til virkjananna og áburðarverksmiðju, og sést glöggt af því, að það mun þurfa til þessara fyrirtækja á þessu ári mun meira fé en kemur inn í sjóðinn á því sama ári. Sést því, að ekki er á þetta bætandi, og kemur þó enn betur í ljós á næstunni, því að stj. á enn eftir að leggja fyrir Alþ. frv. um heimild til að lána þessum fyrirtækjum úr mótvirðissjóði umfram það, sem þegar er í l. — Vil ég því mæla gegn því, að þessi till. verði samþ.

Varðandi till. hv. 8. landsk. vil ég segja örfá orð. — Talsmenn Alþfl. hafa sýnilega að minnsta kosti lært frá því fyrir jól. Þá gerðu þeir till. um að ráðstafa greiðsluafgangi ríkissjóðs upp á — ég held — 90–100 millj. kr., en nú telja þeir það ekki meira en 44 millj., þannig að óneitanlega hefur þetta mál skýrzt mikið fyrir þeim mönnum frá því, sem þá var. Þó hafa engar nýjar upplýsingar komið fram, því að ég var þá búinn að upplýsa það sama og hægt hefur veríð að upplýsa fram að þessu um afkomuhorfur ríkisins. En þeir sýnast nú hafa tekið meira til greina þær upplýsingar, og er ekki nema gott um það að segja, og sízt mundi sitja á mér að finna að því. Er þá spurningin, hvort skynsamlegt sé að ráðstafa meiru af greiðsluafganginum en stjórnin stingur upp á, t.d., eins og hv. 8. landsk. stingur upp á, að ráðstafa 44 millj. í stað 38 millj. Um þetta er það að segja, að við höfum reynt að gera okkur grein fyrir því, hver þessi tekjuafgangur yrði. Komumst við að þeirri niðurstöðu, að hann mundi verða um 50 millj. kr., og síðustu upplýsingar gefa til kynna, að þessi afgangur muni verða nærri þessu, og er þessi áætlun sízt of lág, þannig að ekki er ástæða til að ætla, að hann verði yfir 50 millj. Hefur stj. ekki séð sér fært að ráðstafa meiru en frv. gerir ráð fyrir og leggur því á móti öllum brtt., sem ganga í þá átt að ráðstafa meiru. Af þessu leiðir, að ekki þarf að ræða um nauðsynina á því að leggja fram fé til verkamannabústaða. Ég veit, að það væri mjög heppilegt, hefði það verið hægt, og sama má segja um margt annað, sem stj. hefur orðið að leggja á hilluna í þessu tilliti. En það er að sumu leyti dálítið skemmtilegt fyrir mig, sem hef tekið á móti miklum ávítum frá stjórnarandstæðingunum fyrir að hafa hagað þessum málum þannig, að það hefur orðið svolitill afgangur, — það er skemmtilegt fyrir mig að heyra og sjá þær till., sem stjórnarandstæðingar hafa svo að gera um ráðstöfun á þessu fé, og lýsingar þeirra á því, hversu þetta fé hrökkvi skammt til þess að verða við þeirra brýnustu nauðsynjum. Þá verður lítið úr ákúrum stjórnarandstæðinga, að þannig skuli hafa verið stillt til, að nokkur afgangur varð af tekjum ríkisins 1951, og fer þá öll framkoma þeirra í þessu sambandi að verða nokkuð brosleg.

Að lokum vil ég leggja eindregið á móti því, að e-liður brtt. á þskj. 583 verði samþ., og nægir að mestu að vísa til þeirra raka, sem ég flutti við 1. umr. þessa máls, þar sem því var hreyft við þá umr. af talsmönnum sósíalista og Alþfl., að rétt væri að lækka vextina frá því, sem lagt er til í frv. ríkisstj. Þessi till. um vextina er sett inn með tilliti til þess, að stj. beiti sér fyrir því að lána úr mótvirðissjóði með 51/2% vöxtum, og vill þá stj., að það verði hliðstætt við vexti af þeim lánum, sem ríkissjóður lánar beint. Þetta er gert vegna þess, að það fé, sem við lánum úr mótvirðissjóði, og annað fé verðum við að reyna að innheimta aftur með eðlilegum vöxtum til þess að lána það aftur. Ég get ekki á það fallizt, að þau fyrirtæki, sem fá þetta fé úr fyrstu umferð, njóti forréttinda með því að fá þetta fé með óeðlilega lágum vöxtum, heldur er svo ráð fyrir gert, að þau greiði af því nokkurn veginn eðlilega vexti og síðan sé hægt að lána það út aftur til annarra fyrirtækja, sem hafa ekki orðið þess aðnjótandi að fá fé úr mótvirðissjóði frá fyrstu umferð. Þetta er sama og ég sagði við 1. umr., og mun ég ekki endurtaka það, en vil vona, að meiri hl. d. standi fast saman um það að hafa vaxtafótinn eins og stj. hefur lagt til. Sannleikurinn er sá, að fremur mætti segja, að hann væri óeðlilega lágur, en að íhuguðu máli þótti stj. ekki sanngjarnt að fara hærra en í 51/2%.

Þetta vildi ég segja út af þeim brtt., sem komið hafa hér fram.