14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég saknaði þess í ræðu hæstv. fjmrh., að hann skyldi ekki gefa neinar upplýsingar um þá ráðstöfun, sem þegar hefur farið fram á mótvirðissjóði. Þó kom vel fram hjá honum, að því er snertir hinar 50 millj. kr., sem samþ. var fyrir alllöngu að heimila ríkisstj. að greiða úr mótvirðissjóði upp í lausaskuldir í Landsbankanum, að ekki hefur enn verið gengið frá því og vafasamt, hvernig um það fer. Mér sýnist þess vegna, að hæstv. ríkisstj. viðurkenni með þessu, að raunverulega sé þessum 50 millj. kr., sem gengið hefur verið út frá að skyldi verja til að greiða upp í skuldir við Landsbanka Íslands, óráðstafað enn þá. Og þar sem viðhorfið í þjóðfélaginu er gerbreytt síðan heimilað var að ráðstafa þessum 50 millj. á þennan hátt, þá er raunverulega ekki nema eðlilegt, að Alþ. endurskoði þessa ákvörðun sína og geri þá breyt., að í stað þess að verja þeim 50 millj. til að greiða skuldir við Landsbankann sé þeim varið til framleiðsluaukningar. Eins og við munum, mun líklega vera um 11/2 ár síðan við samþ. þetta frv. ríkisstj. um 50 millj. kr. greiðslu á skuldum við Landsbankann, og fyrst ekki hefur verið gengið frá því máli nú og vafasamt, hvernig um það fer, eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh., álít ég, að þessi till. okkar hér, þar sem farið er fram á, að ráðstafað verði 86 millj. úr mótvirðissjóði, verði eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh. raunsæ, þegar miðað er við að breyta hér ákvörðun um þessar 50 millj., og þær fara þess vegna meira að segja upp í nokkuð af þeim 86 millj., sem við gerum till. um að ráðstafa úr mótvirðissjóði. Það nær vitanlega engri átt, eins og komið er efnahagsástandinu í þjóðfélaginu, að ætla að fara að greiða 50 millj. kr. upp í lausaskuldir við Landshankann. Og ég held, að af þeim litlu yfirlýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf um þetta, megi ráða, að till. okkar hafi við mjög mikil rök að styðjast að því er sjálfa ráðstöfunina snertir, fyrir utan þörfina á að ráðstafa fénu þannig. — Ég veit, að ríkisstj. hefur í undirbúningi að leggja frv. fyrir þingið um aukna fjárveitingu vegna Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar, en það mundi þó allt saman ekki hindra þessa ráðstöfun, ef gengið væri út frá því að breyta þessari till. um 50 millj., og held ég væri mjög æskilegt, að fjmrh. gæfi ótviræða yfirlýsingu um, hvernig þetta er, hvort efnahagssamvinnustofnunin í Washington hefur beinlínis lagt á móti þessari samþykkt ríkisstj. að borga 50 millj. til Landsbankans.

Eitt var rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, en það var þegar hann benti á, að réttara væri af okkur að gera brtt. við fyrirsögn frv. Væri sjálfsagt formlega réttara, að fyrirsögn þess hljóðaði svo: Frv. til l. um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1951 og ráðstöfun á fé úr mótvirðissjóði. — Munum við bera fram till. um það við 8. umr., ef till. okkar verða samþ.

Þá kom hæstv. ráðh. með þá aths., að það væri skemmtilegt að sjá till. stjórnarandstæðinga um það, hvernig skyldi verja því fé, sem hann hefði verið svo duglegur að ná í frá almenningi. Ég vil út frá þessu segja ráðh. það, að þótt það sé ekki nema eðlilegt, að deilt sé um það, hvernig fénu sé ráðstafað, er a.m.k. spurning, hvort hefði ekki verið betra að koma því fé í umferð hjá almenningi en ráðstafa því á þennan hátt, sem hér er gert. Þess er að gæta, að þetta fé er tekið úr umferð á síðasta ári og þar með minnkað það fé, sem almenningur hefur í umferð, og sett í þjónustu ríkisins, þ.e. ríkissjóðs, þannig að þessi upphæð, sem tekin er þannig af almenningi, hefur þegar komið mjög illa við fólk almennt í landinu. Það er ekki aðeins, að kaupgeta verkamanna og annarra launþega hafi verið minnkuð um þessar 50 millj., heldur hefur líka það, sem atvinnureksturinn og verzlunin hafa haft til veltu, verið tekið í ríkissjóð, og það hefur áreiðanlega síðar skaðlegar afleiðingar, þegar svona harkalega er dregið úr öllu rekstrarfé. Þannig að það er síður en svo til að stæra sig af að hafa gengið svo nærri almenningi um innheimtu ríkisfjár.

Þess er líka að gæta í þessu sambandi, að með því að taka 50 millj. kr. eða meira frá neyzlu almennings, og þar sem allir okrarar fara fram á að fá að nota þetta fé til fjárfestingar, hefur verið lækkuð lífsafkoma þjóðarinnar á síðasta ári, minnkað það fé, sem hún hefur haft handa á milli til þess að kaupa fyrir sínar nauðþurftir, um 50 millj. kr. Það hefur með öðrum orðum verið pínt út úr almenningi 50 millj. kr. til þess að gera það siðan að kapítali á fjárl., sem síðan er lánað út með vöxtum og vaxtavöxtum, og þetta er mjög hörð aðferð gegn almenningi á þeim tíma, sem hann á jafnerfitt og nú.

Þá talaði ráðh. um eðlilega vexti og sagði, að vextirnir væru ekki nógu háir. Hvað heldur hæstv. ráðh., að séu eðlilegir vextir í þjóðfélaginu nú, og hvað meinar hann, þegar hann talar um eðlilega vexti? Á hann við, að það séu eðlilegir vextir, sem skapast með framboði og eftirspurn á núverandi lánsfjármarkaði? Ég veit ekki, hvort hann þekkir þá vexti, sem skapast með framboði og eftirspurn. Ég býst við, að ef menn ætluðu að selja nú t.d. ríkisskuldabréf með 25% afföllum, mundi það vera nokkurn veginn ókleift. Ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. hefur fylgzt með afleiðingum þeirrar lánsfjárpólitíkur, sem ríkisstj. rekur. En hann má vita, að það eru til vextir í Reykjavík nú, sem eru þannig, að víxill til t.d. þriggja mánaða er seldur með 20% afföllum; það er m.ö.o. lánað fé með 80% vöxtum. Það er vafalaust til líka, að lánað sé fé með miklu skikkanlegra móti á þeim markaði, sem rekinn er utan bankanna, en hitt er vitanlegt, að aldrei hefur svartur markaður blómgazt eins á Íslandi og í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., — svartur markaður á peningum. Hæstv. ríkisstj. hefur stært sig af því að hafa útrýmt svörtum markaði á vörum. Það er rétt, að það hefur skapazt það mikil fátækt hjá almenningi, að hann getur ekki lengur keypt sér nauðsynlegustu vörur til þess að lifa af. Þeim svartamarkaði, sem var á vörum, hefur ríkisstj. útrýmt með því að útrýma kaupgetunni, en hefur skapað annan svartamarkað um leið, þ.e. svartamarkað á peningum, — skapað þeim mönnum, sem eiga peninga eða geta fengið lánaða peninga með góðum kjörum, möguleika til þess að taka 10–20 og upp í 80% vexti. Og hvað kallar hæstv. ráðh. svo eðlilega vexti í þessu sambandi? Þetta er ávöxturinn af vaxta- og lánsfjárpólitík hæstv. ríkisstj., — ávöxturinn af þeim bréfum, sem ríkisstj. hefur skrifað bönkunum um að draga úr lánsfjárstarfsemi. Það er eins og það séu samantekin ráð milli hæstv. ríkisstj. og okraranna í Reykjavík að féfletta almenning með þessari aðferð. Kemur þetta líka vel fram í því, að nú fer fram hvert nauðungaruppboðið á fætur öðru, þar sem fólki, sem á undanförnum árum hefur verið að reyna að eignast húsnæði undir pólitík Framsfl., er steypt í örbirgð einmitt með þeirri fjármálapólitík og svartamarkaðspólitík, sem hæstv. ríkisstj. rekur. Ef hæstv. ráðh. ætlar þess vegna í sambandi við vexti af því fé, sem ríkið hefur til ráðstöfunar, að fara út í það að keppa við okrarana, má hann fara langt upp fyrir 5%. Ef ráðh. hins vegar ætlar sér að reyna að stuðla að því, að þessum svartamarkaði verði útrýmt og sköpuð í landinu eðlileg lánsfjárpólitík, m.a. eðlileg fjárfestingarpólitík, sem geri mögulegt að þau fyrirtæki, sem lagt er í, geti borið sig, er ekki rétt að hækka þessa vexti. Það mundi nú líka satt að segja vera allundarleg aðferð — svo að maður taki dæmi í sambandi við landbúnaðinn — að lána úr ræktunarsjóði og byggingarsjóði, það er nú mismunandi vaxtafótur, en ætli það sé ekki frá 21/2 til 31/2%, þegar lánað er til bænda, en mér skilst, að með núverandi till. hæstv. ríkisstj. sé gengið út frá, að til Búnaðarbankans skuli lánað með 51/2% vöxtum. Og ef ríkissjóði finnst eðlileg ráðstöfun á sínu fé að reikna 51/2% vexti til Búnaðarbankans t.d., skyldi þá ekki Búnaðarbankanum, sem er þó bankastofnun, bráðum fara að þykja eðlileg ráðstöfun á sínu fé að taka ekki aðeins 51/2% vexti af bændum, heldur nokkru hærri vexti? En það liggja ekki fyrir hér till. um slíka hækkun, enda held ég, að það væri óréttlátt að hreyta þeirri stefnu að veita þeim lán með lágum vöxtum, sem eru að byggja landið upp og rækta það og skapa arðbæra eign fyrir framtíðina. Það er undarleg aðferð af ríkisstj. að skapa fyrst að óþörfu lánsfjárkreppu í þjóðfélaginu með ráðstöfunum sínum, setja þar með vextina á svartan markað upp úr öllu valdi og koma siðan til Alþ. og segja: Það verður að hækka vextina, þannig að þeir geti talizt eðlilega háir, því að vextir eru að hækka í þjóðfélaginu.

Það var líka einu sinni hægt að fá fé með ákaflega lágum vöxtum hér á Íslandi, og þótt margt væri við það að athuga, var það áreiðanlega hollara ástand en það, sem nú hefur skapazt. Meðan það ástand var og fjmrh. sérstaklega talaði hvað mest um dýrtíðina, sem hann er nú hættur að tala um nú, eins og líka eðlilegt er, þá var a.m.k. allt gert sem hægt var til þess að byggja þjóðfélagið upp. En með þessari pólitík er verið að brjóta þetta niður; vinnuaflið er hindrað í því að vinna og fjármagnið hins vegar gert að okrarafjármagni, sem er það dýrt fyrir almenning, að heita má, að ókleift sé að ráðast í nýjar framkvæmdir, og ríkisstj. leggur hins vegar fyrir bankana að draga úr lánveitingum eins og þeir frekast geta.

Ég ætla hins vegar ekki að fara út í neinar almennar umr., en vildi hins vegar svara því, sem hæstv. ráðh. var að deila á okkur hv. 5. landsk. út af því, sem felst í till. okkar. — Mér þætti sem sagt gott að fá nánari upplýsingar varðandi mótvirðissjóð og enn fremur í sambandi við þessar 50 millj. kr., sem ætlunin hefur verið að greiða upp í lausaskuldir við Landsbankann, því að ef svo er sem gefið var í skyn af hæstv. ráðh., að meinað hafi verið að nota þær í því skyni, væri því frekari ástæða til að koma í veg fyrir slíkt með því að samþ. þá till., sem við hv. 5. landsk. þm. höfum lagt fram.