18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 654 flutt brtt. við þetta frv., sem ég vil mæla fyrir með örfáum orðum.

Það er kunnugt frá því að þetta kom í þingið fyrir nokkrum árum, að austur á Hornafirði er mjög mikil þörf að byggja fiskiðjuver, ekki sízt vegna þess, að þar er útgerðarstarfsemi einhver hin mesta á Austurlandi á vetrarvertíðinni, sem Austurlandsflotinn hefur stundum orðið að treysta að öllu leyti á. — Fyrir nokkrum árum síðan, eða 1945, var fyrst flutt á Alþ. frv. um landshöfn og fiskiðjuver á Hornafirði, sem náði ekki fram að ganga. Það var flutt aftur 1946, en náði þá ekki heldur samþykki. Síðan hefur þetta mál legið þannig, að ekki hefur orðið af framkvæmdum fyrr en á siðasta ári, en þá var þörfin orðin svo aðkallandi, að kauptúnið tók það ráð að stofna sérstakt hlutafélag til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Ástæðan til þess, að upphaflega var fram á það farið á Alþ., að hið opinbera leysti þetta mál að verulegu leyti, var sú, að alls ekki var eingöngu um að ræða hagsmuni þessa eina staðar, þ.e. Hornafjarðar, heldur hagsmunamál heils landsfjórðungs, sem ekki var hægt að ætlast til, að þetta litla byggðarlag leysti. En sem sagt, þegar þessi þáltill. fann ekki náð fyrir augum Alþ., var þegar hafizt handa um að hrinda þessu máli í framkvæmd af hreppsbúum sjálfum og stofnað hlutafélag í því skyni, sem hét Fiskiðjan h/f. Var búið, áður en félagið var stofnað, að safna loforðum um hlutafé, yfir 600 þús. kr., og munu menn þar í sjálfu héraðinu hafa gefið loforð um 300–400 þús. kr., og má telja, að það sé gott framlag frá ekki stærri hóp manna, ekki sízt þegar þess er gætt, að ekki var eingöngu um hagsmuni þessa fólks að ræða. Það gekk fljótlega að koma stofnun hlutafélagsins á laggirnar, eftir að byrjað var á því, og jafnframt var hafizt handa um að reisa fiskimjölsverksmiðju, sem á að geta bætt úr atvinnu á þessum stað og tryggt mun meiri gjaldeyrisöflun frá þessum stað en áður hefur verið. Fiskimjölsverksmiðjan, sem byrjað var að byggja á s.l. sumri, er nú fullgerð og getur tekið til starfa með vetrarvertíðinni. Má segja, að vel hafi verið að því unnið að koma því áfram, en næsti áfangi er bráðnauðsynlegur, ef á að tryggja, að það, sem þegar hefur verið gert, komi að fullu gagni, og það er bygging nægilega stórs hraðfrystihúss með ísgeymslu, sem aðilar eru ákveðnir í að hrinda í framkvæmd, og loks að koma á fullkominni saltfisksverkun. Þetta hefur gengið mjög fljótt, vegna þess að fólkið á staðnum hefur lagt sig mjög fram um það að leysa það mál fljótt og vel. En hitt er aftur á móti staðreynd, að næsti áfangi verður erfiður vegna þess, hve erfitt er að fá lánsfé í landinu til allra hluta, því að meiri hluti af umr. hefur fjallað um það að útvega lán til hinna og annarra hluta, sem nauðsynlegir þykja í framkvæmdum þjóðfélagsins. Mér var það ljóst strax, þegar þingið kom saman, að mjög yrði undir aðgerðum þess komið, þ.e. hve vel yrði leyst úr þessu vandamáli almennt, hve miklar líkur væru til þess, að Hornafirði tækist að koma þessum næsta nauðsynlega áfanga áfram á þessu árí, sem þarf að gera, og í því sambandi vil ég minna á frv., sem ég flutti hér á öndverðu þessu þingi ásamt hv. 2. landsk. (LJós), þar sem gert er ráð fyrir, að verja megi úr mótvirðissjóði allt að 50 millj. kr. til bæjar- og sveitarfélaga til að bæta atvinnuskilyrði þar. Hefði það náð fram að ganga, hefði þar verið skapaður möguleiki fyrir Hornafjörð til þess að fá mál sitt leyst ásamt öðrum, sem líkt stendur á um. Ég get ekki betur séð af þeim umr., sem fóru hér fram í gær út af öðru máli, sem flutt er af hæstv. ráðh., en að full ástæða hefði verið til þess að fá samþ. þetta frv. til þess að leysa þessi mál almennt. Hver þm. hefur staðið upp á fætur öðrum og sagt sorgarsögu úr sínu kjördæmi, mjög svipaða og hér er um að ræða. En þetta frv. fékk aldrei afgreiðslu frá þeirri n., sem fékk það til meðferðar. Minni hl., fulltrúi Sósfl., skilaði áliti, en meiri hl, skilaði aldrei áliti. Það átti sýnilega að svæfa málið.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að sú stofnun, sem átt hefur samkv. lögum að veita lán til þessara framkvæmda, þ.e. stofnlánadeild sjávarútvegsins, hefur verið skert svo verulega og fé hennar minnkað svo að tugum milljóna skiptír við það, að ekki er framkvæmt það ákvæði l. um hana að láta vexti og afborganir af því fé, sem hún fékk aftur til útlána, renna inn í hana aftur. Og þetta er viðurkennt með ákvæði, sem stendur í 20. gr. fjárl. á hverju ári, þar sem svo er ákveðið, að ríkissjóði skuli heimilt að ábyrgjast ákveðna upphæð sem lán til hraðfrystihúsa, sem hafa ekki getað fengið lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, einmitt vegna þess að hún hefur verið skert með öðrum 4. en hún starfar eftir. — Mér var ljóst, þegar fjárl. voru afgr., að litil von var orðin um það, að þetta frv. á þskj. 101 fengi samþykki og þar með leyst úr þessu máli, sem hér um ræðir. Gerði ég þá aðra tilraun í sambandi við þennan umrædda lið á 22. gr. fjárl., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður megi ábyrgjast ákveðna upphæð vegna hraðfrystihúsa, sem ekki geta fengið lán úr stofnlánadeildinni, og gerði tilraun til að fá þann lið hækkaðan og setta inn þá klausu, að ríkisstj. væri samkv. liðnum heimilað að ábyrgjast lán vegna þessa hraðfrystihúss. Þetta var einnig fellt hér í þinginu, og sýnist þó, eftir þessar umr., að ekki hefði verið vanþörf að samþ. það, því að hefði það verið gert, hefði ríkisstj. þarna heimild, sem hæstv. ráðh. hafa leitað eftir nú til þess að lána til fiskiðjuvers í Siglufjarðarkaupstað.

Síðan gerðum við hv. 2. þm. Reykv. enn tilraun til að koma þessu í gegn við 2. umr. þessa frv., um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs, og tókum við það ráð að taka upp aðaltill. úr frv. á þskj. 101 og flytja það sem brtt. við frv. um greiðsluafgang ríkissjóðs, og var það ekki samþ. heldur. Ég hef í lengstu lög ætlað að komast hjá því að flytja till. um, að þessi eini staður, Hornafjörður, yrði tekinn út úr og honum liðsinnt með alveg sérstakri ályktun frá Alþ. En þegar þær tilraunir, sem ég hef nefnt hér áður í sambandi við þetta mál, hafa algerlega brugðizt, hef ég séð mig neyddan til að flytja hér þessa till., sem er hér á þskj. 654, — till., sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Við 1. gr. Á eftir 8. tölulið komi nýr liður, svo hljóðandi:

Að lána 1.5 millj. kr. til byggingar fiskiðjuvers þess, er Fiskiðjan h/f á Hornafirði hefur nú í smiðum.

2. Við 2. gr. Í stað orðanna „8. tölulið“ komi: 8. og 9. tölulið.“

Ég mun ekki hafa öllu fleiri orð um þetta. Hv. 2. þm. Reykv. er búinn einmitt við þessa umr. að færa rök að því, að það er til fé til þess að leysa þessi mál. Þess vegna fæ ég ekki annað séð en sanngjarnt sé að verða við þeirri ósk, sem felst í þessari till., og ég vil í síðustu lög trúa því, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. neiti um þessa aðstoð, sem er bráðnauðsynleg fyrir þennan stað og reyndar fyrir öll þorpin og kauptúnin á Austurlandi.