19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að taka fram, að ég er fylgjandi þeim brtt., sem eru fluttar hér á þskj. 683 af minni hl. fjhn. og miða sérstaklega að því að stíga nokkurt skref til að bæta úr því atvinnuástandi, sem ríkir hér og líkur eru til að fari vaxandi, ef ekkert er gert til úrbóta. Ég ætla samt ekki að ræða sérstaklega þær till., og hvað sem kaun að verða um undirtektir dm., vona ég, að sú litla brtt., sem ég ætla að flytja hér, fái góðar undirtektir, því að hvað sem einn eða annar vill deila um fjárhagsgetu ríkissjóðs, held ég, að því verði ekki mótmælt, að hægt er að verða við þessari till., ef vilji er fyrir hendi.

Í frv. stj. eru tveir liðir, 6. og 7. liður, sem fjalla um greiðslur upp í vangoldinn hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði fyrirtækja. 6. liður er um að greiða upp í hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði skóla 5 milljónir, og 7. liður er um að greiða 2 milljónir upp í hluta ríkissjóðs við hafnargerðir. Þetta virðist mjög eðlilegur og sjálfsagður hlutur, þegar ráðstafað er tekjuafgangi, að honum verði varið fyrst og fremst til að inna af hendi þær greiðslur, sem ríkissjóður hefur tekið að sér að greiða, en hefur ekki getað staðið að fullu við vegna fjárskorts; þegar svo afgangur verður á fjárhagsáætlun, verði honum fyrst og fremst varið til að greiða þessi vangoldnu framlög. Þetta er viðurkennt að nokkru leyti í þessu frv. með ákvæðunum um þessi framlög. Þó er furða, að það er sérstaklega ein grein framkvæmda, sem ríkið stendur að ásamt bæjar- og sveitarfélögum, og það er bygging sjúkrahúsa, sem er sleppt í þessu sambandi. Nú er ekki svo, að ekki standi svipað á og með hin atriðin; ríkið á líka vangreidd framlög til sjúkrahúsa. Ég veit ekki að vísu, hve mikið eða til hve margra sjúkrahúsa ríkið á ógreidd framlög, en mér er kunnugt um, að með fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hagar svo til. Nú fyrir síðustu áramót tjáði gjaldkeri sjúkrahússins mér, að ríkið ætti þá vangreitt, miðað við það fé, sem þá var komið í bygginguna, 11/2 milljón. Nú er þessi bygging langt komin, þó að hún gangi seint, og á fjárl. þessa árs er framlag ríkisins 500 þús. Ef gera mætti ráð fyrir, að byggingunni væri lokið á þessu ári, sem er nauðsyn og af hálfu Akureyrar lagt kapp á, þá er byggingin búin að standa yfir í 6 ár. Gert er ráð fyrir, að byggingin kosti fullgerð 9 millj., en þó er hætt við, að hún fari fram úr áætlun, en þó að miðað sé við þá áætlun, á ríkið að leggja fram þar af ca. 51/2 milljón. Nú er ekki búið að greiða af hálfu ríkisins, þó að taldar séu með þessar 500 þús., nema 3 milljónir, og eru þá eftir 21/2 milljón af því, sem ríkið á að leggja fram til þessa sjúkrahúss. Mér finnst furðu gegna, að gengi skuli vera fram hjá slíku atriði sem þessu, þegar verið er að ráðstafa greiðsluafganginum, og vil að svo komnu máli álita, að aðeins sé um misgáning að ræða. Ég held, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafi viðurkennt það sem sjálfsagðan hlut, að þegar tekjuafgangi er ráðstafað, þá sé greitt verulega upp í það, sem ríkið á vangoldið til slíkra framkvæmda sem talað er um í 6. og 7. lið. Þess vegna vil ég leyfa mér að leggja fram brtt. í þessum efnum, að tekinn sé inn nýr tölul. á eftir 7. tölul., sem yrði orðaður á þá leið, að greiða skuli upp í hluta ríkissjóðs af stofnkostnaði fjórðungssjúkrahúss á Akureyri 1 millj. kr. og að heildarupphæðin, sem talað er um, yrði hækkuð úr 38 millj. í 39 millj. Hér er ekki um það mikla fjárhæð að ræða, að það skipti verulegu máli í þessu sambandi, og eins og ég sagði áðan, hvað sem menn vilja deila um getu ríkissjóðs til fjárframlaga, þá held ég, að það sé ómögulegt að bera því við í þessu sambandi, þegar viðurkennt er af hæstv. fjmrh., að greiðsluafgangurinn muni verða í kringum 50 millj., að það sé ekki hægt að verða við þessari till., þ.e.a.s. að greiða upp í skuld ríkissjóðs við fjórðungssjúkrahúsið þennan hluta upphæðarinnar, ef bara er vilji til þess að gera það. Það er það eina, sem skiptir máli raunverulega í þessu sambandi, og vil ég vænta þess, að sá vilji sé fyrir hendi og þessi till. verði þess vegna samþ. Og af því að hæstv. fjmrh. er kominn aftur í d., vil ég leyfa mér að beina því til hans sérstaklega, hvort hann sjái sér ekki fært að taka þetta mál til athugunar og hvort hann hefur ekki komizt að þeirri niðurstöðu í fyrsta lagi, að það sé mjög sanngjarnt og í öðru lagi fyllilega réttmætt að verða við þessum tilmælum.