19.01.1952
Efri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að ríkisstj. hefur vandlega íhugað, hvort henni þykir fært að úthluta meiru en ráð er fyrir gert í frv., og hún telur það ekki fært. Og þó að menn vildu gjarnan leggja fram fé til ýmislegs annars, meira en gert er ráð fyrir í frv., þá takmarkast það af því, sem mögulegt er að gera. Það hefði verið ánægjulegt að geta lagt fram meira fé til sjúkrahúsa en ráðgert er, en þegar þess er gætt, að það er enn þá vafamál, hvort greiðsluafgangurinn verður 5 millj., og tekið er til greina, að ríkissjóður hefur orðið að greiða hreinar vanskilaskuldir, þá kemur það fram, að ekki er hægt að ganga lengra en stj. gerir ráð fyrir.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði, þá hef ég einmitt tekið fram, að það leikur nokkur vafi á því, hvort greiðsluafgangurinn nær 50 millj., því að tekjurnar eru rýrari en gert var ráð fyrir. Ég hygg, að það sé þó óhætt að treysta því, að hægt verði að úthluta 38 millj., en það þýðir ekki að úthluta meiru en greiðsluafgangurinn endanlega verður.