12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

61. mál, gjaldaviðauki

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta mál, og er hún sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég skal þó taka fram, að einn nm., hv. 1. landsk. þm., var ekki viðstaddur þegar málið var afgr., og er n. því ókunnugt um afstöðu hans til málsins, og mun hann þá gera grein fyrir afstöðu sinni, ef honum þykir ástæða til. Það, sem farið er fram á hér, er að framlengja ýmsa skatta og tolla með ákveðnu álagi eins og sést á 1. gr. Skal ég fara nokkrum orðum um hin einstöku atriði.

Það fyrsta er að innheimta með 50% viðauka eignarskatt samkvæmt 14. gr. laga nr. 6 1935, álagðan á árinu 1952. Það hefur þótt heppilegra að hafa þann hátt á að innkalla skattinn með 50% álagi heldur en að breyta fasteignamatinu, en vitað er, að skatturinn er á lagður samkvæmt fasteignamati á ýmsum eignum; hins vegar eru smærri eignir, svo sem verðbréf og peningar, einnig hækkaðar hér um 50%. Það er vafasamt, hvort ekki ætti að undirbúa þetta fyrir næsta Alþ. og láta þetta falla niður og endurnýja ekki eins og hér er gert ráð fyrir, heldur breyta fasteignamatinu eða hækka eignarskattinn, ef það þætti tiltækilegt. Það er þó ekki mín till. nú, að það verði gert, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að nema þessi l. úr gildi, en meðan ekki er vitað, hvaða afgreiðslu það mál fær, þykir mér rétt að hefta ekki framgang þessa máls. Ég hef því verið samþykkur því, að þetta yrði samþ. að þessu sinni.

Næsta breyt. er að innheimta með 100% viðauka vitagjald samkvæmt lögum nr. 17 11. júli 1911 og síðari lögum um breyting á þeim lögum, en þau hafa staðið óbreytt, þrátt fyrir það þó að verðgildi peninganna hafi lækkað, og þótti því nauðsynlegt að innheimta það með þessari hækkun.

C-liður er um að innheimta með 140% viðauka aukatekjur ríkissjóðs, sem taldar eru í l. nr. 27 27. júní 1921, en þar er um að ræða alls konar sektir o.fl., að undanteknum gjöldum samkvæmt VII. kafla laganna, sem innheimtist með 75% álagi, en þar er um að ræða gjöld fyrir skírteini alls konar, og hefur grunngjaldið á þessu held ég ekki verið hækkað siðan fyrir stríð. Þykir því eðlilegt að leyfa að innkalla það með því álagi, sem hér er um að ræða, með tilvísun til þeirra breyt., sem orðið hafa á gjaldmiðli þjóðarinnar.

D-liður er um að innheimta með 140% viðauka stimpilgjald, leyfisbréfagjald og lestagjald. Skýrir liðurinn sig sjálfur.

E-liður er um að innheimta með 200% viðauka gjöld samkvæmt IX. kafla laga nr. 68 5. júní 1947, um eftirlit með skipum, að undanskildum gjöldum samkvæmt 58. gr. laganna. Þessi gjöld hafa einnig verið sniðin eftir því verðlagi, sem var á peningum fyrir stríð, og er því eðlilegt, að þetta sé einnig hækkað, þar sem kostnaður við eftirlit hefur stórkostlega hækkað við hækkandi laun.

Síðasti liðurinn er raunverulega ekki annað en nýjar tollaálögur, og þótti rétt með tilliti til þarfa ríkissjóðs að leyfa einnig að innkalla með því álagi, sem þar greinir.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá ríkisstj., hvað þetta muni nema miklu, ef frv. nær ekki fram að ganga, og hef ég fengið upplýst, að hér sé um að ræða 11 millj. kr. fjárframlag eins og liggur nú fyrir þinginu, að þessar tekjur fáist inn, og það er ekki sýnilegt, að hægt sé að draga svo úr gjöldum á fjárlfrv., að það væri óhætt að fella þetta niður, því að allt bendir í þá átt, að það þurfi að bæta við gjaldabálkinn frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., og mun það reynast svo áður en gengið er frá fjárl. Nefndin leggur því til, eins og ég hef tekið fram, að þetta frv. nái fram að ganga að þessu sinni, en telur að sjálfsögðu eðlilegast, að þetta væri ekki samþ. frá ári til árs, heldur væri gjöldunum breytt þannig, að þau gætu staðið óbreytt og þyrfti ekki að vera að framlengja þau á hverju ári. Einnig hefur verið minnzt á það í sambandi við aðrar framlengingar, að þess væri að vænta, að ríkisstj. taki til athugunar, hvort ekki væri hægt að koma þessum málum öllum í eðlilegra horf.