04.12.1951
Efri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

35. mál, forgangsréttur til embætta

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan spyrja hv. frsm., hvaða skilning n. leggur í þessi orð hér í 2. gr.: „með hliðstæðum hætti“, þar sem um er að ræða, að þeir, sem lokið hafi B. A.-prófi við heimspekideild háskólans, skuli með hliðstæðum hætti njóta forgangsréttar til kennslu o.s.frv. (HV: Með sömu skilyrðum og í 1. gr. frv. getur.) En þessi grein hér er stíluð við 1. gr. í l. nr. 36 frá 1911, og þar eru þessar hliðstæður ekki fyrir hendi. Þetta vil ég benda á. Ég hafði skilið það svo, að hér væri átt við 1. gr. frv., og það mun vera rétt skilið hjá mér, að þessu muni vera ætlað að eiga við orðin í 1. gr. frv.: „skulu að öðru jöfnu hafa forgangsrétt til kennslu,“ o.s.frv. En þegar athugað er, að þessi brtt. í nál. er stíluð við lög nr. 36 frá 1911, þá er það orðalag ekki þar í lögunum. Með orðunum ,.að öðru jöfnu“ í 1. gr. frv. skil ég, að það sé t.d. ekki talið í þessu tilliti að jöfnu, ef annar maðurinn, sem um er að ræða, er reglumaður, en hinn óreglumaður. Ég get fellt mig við, að sú gr. verði samþ., en ekki að það standi í sambandi við 2. gr. það orðalag, sem hér er, vegna þess sem ég áður sagði. Ég vænti, að hv. n. taki þetta til athugunar fyrir 3. umr., og mun þá ekki bera fram neinar brtt. við þá umr.