15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. ríkisstj. eða forsrh., sem hér kemur fram fyrir hennar hönd, um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að gera á þessu þingi til þess að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir í atvinnumálum landsmanna. Ég geri ráð fyrir, að ég þurfi ekki að lýsa því ástandi, að minnsta kosti ekki nú, eftir að gefin hefur verið út skýrsla um það mál af verkalýðsfélögunum. Þessi skýrsla ber það með sér, að í Reykjavík einni, í 13 verkalýðsfélögum, eru 1470 menn atvinnulausir, og er það ekki nema nokkur hluti þeirra manna, sem eru atvinnulausir í Reykjavík nú um þessar mundir. Ég ætla, að þeir muni vera nokkuð á þriðja þúsund, eða um 2500, sem atvinnulausir eru hér í Reykjavík, og ástandið mun ekki betra annars staðar og sums staðar verra. Hér er um það að ræða, að neyðarástand er að skapast.

Sósfl. telur það fullkomið ábyrgðarleysi, að þetta Alþingi ætli sér að hætta störfum fyrr en ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að bæta úr þessu neyðarástandi. Afstaða Sósfl. til þessa frv. fer eftir því, hvaða svör hæstv. ríkisstj. gefur í þessu efni. Ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið nein fullnægjandi svör í þessu efni, áður en frv. kemur til n., þá mun Sósfl. snúast gegn því í n. og við 2. umr. og greiða atkv. gegn því. Ef þetta Alþ. gerir ekki skyldu sína í þessu efni, þá ætti Alþ. að koma saman aftur hinn 15. febr. n.k.