15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Hér er ekki um nein svör að ræða af hendi hæstv. ríkisstj. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram margar till. á þessu þingi til þess að bæta úr ástandinu, en þær hafa ekki fengið meirihlutafylgi hér, og hæstv. ríkisstj. hefur snúizt móti þeim öllum. Hæstv. forsrh. talaði um það, að þessar till. hefðu ekki verið raunhæfar, en þá hefði hæstv. ríkisstj. haft nægan tíma til þess að leggja fram raunhæfar till., en það hefur hún ekki gert, og mín fyrirspurn var um það, hvort hæstv. ríkisstj. hygðist ekki leggja slíkar till. fram, áður en Alþ. hætti störfum.

Ég heyrði það af svörum forsrh., að hæstv. ríkisstj. hyggst ekkert fyrir í þessum efnum, eða svo skildist mér. Ég tel fullkomið ábyrgðarleysi, að Alþ. hætti störfum, meðan slíkt neyðarástand ríkir í landinu og ekkert er gert til þess að bæta úr því, til þess þarf þingið ekki að sitja allt árið, heldur bara nokkra daga. Út frá þessu sjónarmiði og þar sem engin svör hafa komið frá hæstv. ríkisstj., þá mun Sósfl. snúast öndverður gegn þessu frv.