17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið nokkrar umr. um þetta mál og einkum um formshlið þess.

Hv. 1. þm. Eyf. virtist slá því föstu, að óhjákvæmilegt væri að fresta þinginn, ef það kæmi saman 15. febr. En hví er ekki hægt að hefja það 15. febr. og semja ný fjárlög?

Ég skal ekki blanda mér inn í þær umr. um stjórnarskrána, sem hér hafa farið fram. En stjórnarskráratriði, sem hægt er að breyta með lögum, hefur ekki mikið gildi og aukaatriði, hvort því er breytt ár frá ári.

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að nægur tími hafi verið til þess að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt er að gera til þess að leysa atvinnumál landsmanna á viðunandi hátt. Ég sé ekki, að það, sem hv. 4. þm. Reykv. heldur fram, sé næg ástæða til að vera með þessu frv. og gera ráð fyrir, að þingið verði sent heim næstu daga, eins og gert er ráð fyrir í grg. þessa frv. Það er þess vegna, að ég og sósialistar mótmælum, og þess vegna, að við greiðum frv. ekki atkv. Vitanlega þarf að samþ. slíkt frv., þó að þingið ætti að sitja til og eftir 15. febr., en það er ekki formsatriði hér á ferð, heldur á að senda þingið heim. Ég tel það óviðkunnanlegt, að þing verði sent heim, meðan þetta ástand ríkir í atvinnumálunum, án þess að ríkisstj. geri grein fyrir stefnu sinni og leiðum í þeim málum. Þess hefur áður verið getið, að það ástand, sem nú ríkir í atvinnumálunum, væri háð árstíðunum. Atvinnuleysi getur bæði stafað af tíðarfari og árstíðum, en það atvinnuleysi, sem hér ríkir, er ekki þess eðlis, og hæstv. forsrh. veit það.

Það eru fleiri en við stjórnarandstæðingar hér á Alþ., sem ræða þessi mál og eru sammála um skilning á orsökum atvinnuleysisins. Tveir stuðningsmenn ríkisstj., þeir hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., hafa verið þungorðir um, að stefna ríkisstj. valdi samdrætti í iðnaðinum, og að mínum dómi er hún orsök atvinnuleysis í iðnaðinum í Reykjavík. Í umr. í Sþ. í gær komu fram raddir um það, að það þyrfti að gera fleiri ráðstafanir en þá einu, sem ríkisstj. lagði þá fram.

Eins og ég sagði áðan, er þetta ástæðan fyrir því, að ég og þm. Sósfl. greiðum því ekki atkv., að þingið verði sent heim, án þess að leitazt verði við að finna leið til úrlausnar þessa máls.