18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lét svo um mælt, að á þeim langa þingtíma, sem liðinn væri, hefði stjórnarandstöðunni gefizt kostur á því að leggja fram sín úrræði til úrbóta í sambandi við atvinnu yfirleift, og þetta er rétt, svo langt sem það nær. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti, bæði í sambandi við afgreiðslu fjárl. og eins með sérstökum frv. og þáltill. og nú seinast í gær og fyrradag með brtt. við fram komna þáltill. frá tveimur hæstv. ráðh., lagt fram sínar till. til úrbóta vegna atvinnuástandsins, sem skapazt hefur og versnar með hverjum deginum, sem liður. Ég álít því, ef góður vilji er fyrir hendi og skilningur hjá hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, að það mætti afgr. eitthvað á þessu þingi til úrbóta á þessu vandræðamáli, og skiptir þar engu, þó að samþ. væri það lagafrv., sem hér liggur fyrir um frestun á samkomudegi reglulegs Alþ. til 1. okt. n.k., ef forseti Íslands hefur ekki kallað þing saman fyrr, svo að af þeim ástæðum sé ég ekki ástæðu til þess að snúast gegn frv. hæstv. ríkisstj. En hitt vildi ég taka fram, að tímarnir eru að verða svo örðugir, að ástæða væri til þess fyrir hæstv. ríkisstj. og Alþ. að hlaupa ekki frá verkefnum hér á Alþ. fyrr en búið væri að gera þeim nokkru betri skil, og það væri vel hægt á tiltölulega skömmum tíma, t.d. á þessum mánuði, sem nú er að líða, ef vilji og skilningur væri fyrir hendi. Sem sagt, Alþfl. hefur lagt fram till. til úrlausnar af sinni hálfu, en því miður virðist ekki vera skilningur hjá meiri hl. Alþ. fyrir því að taka til greina og samþ. þær till., en enn þá er það hægt á Alþ., ef upp kynni að renna nýtt ljós fyrir valdhöfum þessa lands vegna ástandsins í atvinnumálum.

Ég sé ekki ástæðu til að leggjast gegn frv. hæstv. ríkisstj. um ákvörðun á samkomudegi Alþ., en ég vil um leið taka það fram, að Alþfl. ber ekki það traust til hæstv. ríkisstj., að hann sé viss um, að hún muni kalla saman Alþ., þó að skilið verði við málin í næsta slæmu ástandi og ástandið versni enn meir. Vera kann þó, að þær öldur kynnu að rísa upp meðal þjóðarinnar sjálfrar, sem gerðu það að verkum, að hæstv. ríkisstj. sæi sér ekki annað fært en að kalla saman Alþ. fyrir 1. okt. Skal ég um leið undirstrika þau ummæli hæstv. forsrh. og viðurkenna, að þar var mælt af nokkrum skilningi, að vel gæti komið til mála frá hans sjónarhóli, að Alþ. þyrfti að kveðja saman til fundar fyrir 1. okt. n.k. vegna ástandsins í landinu.

Ég vil, um leið og ég skal endurtaka þá yfirlýsingu, að Alþfl. sér ekki ástæðu til að hindra framgang frv., sem fyrir liggur, ítreka það, að enn er hægt að gera ráðstafanir til úrbóta, áður en þessu þingi lýkur, og ég vil einnig vænta þess, að hæstv. ríkisstj. athugi, að vel kynni svo að fara, að allt að því lífsnauðsyn væri, að Alþ. kæmi saman fyrir 1. okt., vegna ástandsins í landinu. Allt hnígur í þá átt, að ástandið versni og það verði að reyna að gera eitthvað, sem bæti úr sárustu neyðinni, sem nú ber að dyrum fjölda alþýðufólks um allt land.