18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði gefizt nægur tími fyrir stjórnarandstöðuna til þess að bera fram till. til úrbóta á því vandræðaástandi, sem nú ríkir í landinu, og það er alveg rétt hjá honum, og það hefur stjórnarandstaðan líka gert. Frá upphafi þings hefur hún borið fram fjöldamargar till., eins og ég gat um í ræðu minni áðan, til þess að leysa úr atvinnuleysisvandamálinu og til þess að reyna að tryggja, að samningar gætu tekizt í togaradeilunni. Það er ekki það, sem hefur vantað, að stjórnarandstaðan hafi borið fram hagnýtar till. í þessum efnum, en það, sem hefur vantað, er, að hæstv. ríkisstj. átti sig á því ástandi, sem er í þjóðfélaginu.

Af því að hæstv. forsrh. var ekki inni, þegar ég hóf mál mitt, þá vil ég segja honum, að ég minntist m.a. á, að það hefði komið fram yfirlýsing frá hæstv. viðskmrh. hér snemma á þinginu um það, að ekkert atvinnuleysi væri á Íslandi, og það hefði ekki verið ríkjandi í stjórnarherbúðunum skilningur á því, hvers konar ástand nú væri orðið í atvinnumálum. Erfiðleikarnir eru þeir, að það er ríkisstj., sem hefur verið svo sein að átta sig á því, hvað ástandið væri alvarlegt, þannig að hún hefur ekki verið reiðubúin til þess að taka eins alvarlega till. stjórnarandstöðunnar og þær till. áttu skilið, og ég veit, að hæstv. forsrh. hefur einmitt persónulega sýnt það, að hann hefur verið að átta sig á því, hve alvarlegt ástandið væri, með því að koma sjálfur fram ásamt öðrum ráðh. með till. um að veita fé úr ríkissjóði nú í þessari viku, rétt eftir að búið er að afgr. fjárl., þannig að það er auðséð, að hjá þeim hluta ríkisstj., sem hugsar ofur lítið meira um þessi mál, er vaknandi skilningur á því, hvers konar ástand sé að verða í landinu, og þökk sé honum fyrir það að hafa gengið á undan um að sýna þennan skilning í verki, að það yrði að taka eitthvað alvarlegri tökum á þessu neyðarástandi, sem nú væri að myndast. Hins vegar hefur hæstv. forsrh. orðið var við það, að strax og þessir tveir ráðh. hafa komið með góðar till. um að bæta úr þessu neyðarástandi á ákveðnum stöðum, þá hefur verið kvakað til hans af fjölda þm., sem hafa lýst því átakanlega hér í ræðum, hvernig ástandið sé á þeim stöðum, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Og einmitt það, að í ljós kemur, að hæstv. ríkisstj. er smám saman að átta sig á því, hve alvarlegt ástandið er, gefur von um, að ef Alþ. stæði þótt ekki væri nema eina viku til viðbótar, þá mundi vera hægt að fá samkomulag við þingmeirihluta hæstv. ríkisstj. um afgreiðslu ýmissa mála, sem jafnvel kannske í dag finna ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj., en mundu máske finna það í næstu viku.

Ég minntist líka á það áðan, að stjórnarandstaðan hefði lagt fram sínar till. viðvíkjandi því að reyna að ná samningum í þeirri togaradeilu, sem nú er fram undan, með togaravökul., sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til að taka afstöðu til. Hún hefði þó átt að gera það með hliðsjón af þeirri hörmulegu reynslu, sem fékkst fyrir tveim árum, þegar Alþ. afgr. ekki samsvarandi tili., með þeim afleiðingum, að það varð 4 mánaða verkfall, sem hefði verið afstýrt, ef togaravökul. hefðu verið samþ. á Alþ., en í því langa verkfalli fengu togarasjómenn aukna hvíld á saltfisksveiðum. Það virðist þess vegna hafa verið óhætt, þótt reynt hefði verið og farið rólega í það að ná einhverju samkomulagi um þessi mál með því að láta þingið standa næstu viku.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að tíðarfarið mundi valda einhverju um þetta atvinnuleysi. Hins vegar er það svo, að meginið af því atvinnuleysi, sem nú er, t.d. hér í Reykjavík, stafar af öðrum ástæðum. Tilfinnanlegasta atvinnuleysið stafar af því, að innlendur iðnaður hefur nálægt því að hálfu leyti lagzt niður, helmingurinn af því iðnverkafólki, sem starfaði fyrir ári, hefur hætt störfum. Þannig eru 500–600 manns, sem áður höfðu þar vinnu, atvinnulausir. Við þetta bætist svo tilfinnanlegt atvinnuleysi hjá byggingarverkamönnum, sem hefðu getað unnið inni í vetur. Ég vil í því sambandi minna á, að ríkisstj. og fjárhagsráð á sinn hluta af þeirri sök. Það er af fjárhagsráði gengið svo hart fram núna fyrir nýárið í því að hindra byggingar, að menn, sem áttu sement og timbur, hafa ekki getað fengið að byggja eina hæð úr því sementi, heldur hafa þeir orðið að láta það eyðileggjast. Það er ákaflega hart, að það skuli ekki fást rýmkað um slík höft, þegar svona neyðarástand er eins og núna er í þjóðfélaginu, — að það skuli vera haldið svona harðvítuglega á höftunum viðvíkjandi byggingu íbúðarhúsa, meðan atvinnuleysið er eins og það er hjá byggingarverkamönnum. Það er engum efa bundið, að ef þetta hefði ekki verið gert, þá mundi nú starfa mikið af mönnum við innréttingu á húsum, eins og vant er að vetrinum til. Það var ekki fyrr en fjárhagsráð tók til starfa, að hús voru fyrst og fremst steypt að vetrinum, vegna þess að leyfin komu ekki fyrr en í ágúst, í staðinn fyrir það normala að steypa skrokkana á vorin, svo að menn gætu unnið að innréttingu á veturna. Þess vegna er það, að þrátt fyrir þá sök, sem má gefa tíðarfarinu, þá liggur meginsökin annars staðar, og ég vil, af því að ég veit, að hæstv. forsrh. hefur svo miklu að sinna, að hann fylgist ekki með því, hvernig ástandið er raunverulega orðið hér í Reykjavík, benda honum á, að Reykjavík er orðin það stór borg, að það er allt annað þegar atvinnuleysi skellur hér yfir heldur en úti á landi. Ég veit vel, að það hefur sorfið víða að úti á landi, en víða er það svo í minni þorpum og kauptúnum, að menn bjargast á allt annan hátt en hér, menn eru ekki bornir út almennt í sjávarþorpum á Íslandi. Það er lítið um það, — það gerir kunningsskapurinn, — að menn svelti þar a.m.k. heilu hungri. Ofur lítið fá menn í soðið í slíkum sjávarþorpum, svo fremi að hægt sé að komast á sjó, og þá háttar þannig til, að menn hjálpa hver öðrum. En hér í Reykjavík búum við aftur á móti við stórborgarlíf að öllu leyti, og hér er ástandið þannig, að þegar menn hafa ekki peninga til að kaupa mat eða kol, þá skortir menn það, og það er sá hugsunarháttur ríkjandi enn, að menn leita ekki til sveitar fyrr en í síðustu forvöð og jafnvel ekki einn sinni það. Hér í Reykjavík er ástandið þannig núna, að það er beinlínis hungur hjá fjöldamörgum fjölskyldum, en menn komast ekki að þessu fyrr en menn, sem á einhvern hátt þekkja til, reka sig persónulega á þetta. Það er búið að vera það sæmilegt ástand í langan tíma, ekki sízt hér í Reykjavík, að menn gera sér ekki ljóst, hve fljótt kemur til þess, að slíkt neyðarástand skapist, og þess vegna er það vitanlegt, að það er ekki aðeins um það að ræða, að verkalýðsfélögin séu að gera kröfur um vinnu út af atvinnuleysinu, — það er um það að ræða beinlínis, að það er slíkt neyðarástand, að konur og börn svelta. Meira að segja lögreglan í Reykjavík hefur fengið að vita af þessu fyrir jólin og eftir jólin, vegna þess að heilar fjölskyldur hafa leitað á hennar náðir til þess að biðja um að koma sér á spítala, þegar fólkið hefur verið illa farið af sulti, eða sjá um mat handa fólki. — Ég vil minna á, að svo framarlega sem það hefur vofað yfir, að skepnur svelti hér á Íslandi, þá hefur verið brugðið fljótt og vel við, eins og rétt er, og þá er ekki sparað fé úr ríkissjóði til þess að bjarga skepnum frá hungurdauða, og hæstv. ríkisstj. sjálf hefur haft lofsvert og gott framtak í þeim efnum. Nú eru það hins vegar konur og börn, sem svelta — og það um hávetur, meðan frostið er tilfinnanlegast fyrir þá, sem búa í verstu íbúðunum hér í Reykjavík. Ég þykist viss um, að hæstv. ríkisstj. sé ekki kunnugt um þetta neyðarástand, en ég vil láta hana vita í fullri vinsemd, að það sé til, og ég vil mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. gefi þm., jafnt stjórnarandstöðunni sem meiri hl. sínum, tækifæri til þess að reyna að ná samkomulagi hér á Alþ. um úrlausn í þessum málum, atvinnuleysismálunum og neyðarástandinu almennt. Ég get vel trúað því fyrir mitt leyti, ef hægt er að fá hæstv. ríkisstj. til að trúa því, sem ég hef sagt í þessum efnum, eða hún rannsakar það sjálf til þess að ganga úr skugga um, að það sé rétt, að þá mundi vera hægt og það í næstu viku að fá samkomulag um aðgerðir í þessum efnum. Það er ekki nein stórkostleg aðgerð, sem farið væri fram á, að ríkisstj. væri hún ofviða með þau fjárráð, sem hún hefur. Ég sé á þeim till., sem fyrir liggja, að hæstv. forsrh. hefur, þegar til hans hefur verið komið frá bæjarfélagi, sem í neyð er statt úti á landi, sannfærzt um, að eitthvað þyrfti að gera, og flutt sjálfur till., eftir að fjárl. voru afgr., til þess að bæta úr neyðarástandinu. Þykist ég vita, ef hægt væri að fá samstarf um þetta hér á Alþ., að þá mundi vera hægt að fá svipaðar ráðstafanir gerðar bara í næstu viku. Þess vegna vil ég mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessum tilmælum vel.

Ég mun auðvitað fylgja þessu frv. til 2. umr. og n. og mun því aðeins leggja á móti því úr n., að ég sjái, að það sé ekki hægt að fá neitt samstarf um að lina eitthvað á því neyðarástandi, sem nú hefur skapazt.