10.10.1951
Neðri deild: 8. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

30. mál, innflutningur á hvalveiðiskipum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 23. maí s.l. Eins og öllum þm. er kunnugt um, þá hefur hlutafélag, sem nefnist Hvalur, starfrækt hér hvalveiðar undanfarin fá ár, en það er nýr atvinnurekstur í sögu íslenzku þjóðarinnar, og hann hefur verið starfræktur hér áður af öðrum fyrir alllöngu síðan. Ég hygg, að það megi segja, að þessi atvinnurekstur hafi gengið sæmilega og gefið bæði góða atvinnu þeim mönnum, sem þar vinna, og ríkinu einnig tekjur, beint og óbeint. Það ber þess vegna út af fyrir sig að sjálfsögðu að hlynna að slíkri starfsemi. Nú hefur þetta félag stundað hvalveiðar að undanförnu með skipum, sem það hefur a.m.k. ekki verið formlega eigandi að. Það hefur leigt til þess útlend skip, sjálfsagt tryggt sér forkaupsrétt að skipunum og komið sínum leigumálum þannig fyrir, að það gæti, ef æskilegt þætti, keypt þau og flutt inn til landsins, enda þótt skipin séu eldri en 12 ára, en það voru þau, og ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, er einmitt sú, að skipin eru eldri en 12 ára, en samkv. gildandi l. má ekki flytja inn eldri skip en 12 ára gömul. Að ríkisstj. þótti skynsamlegt og nauðsynlegt að gefa út um þetta brbl., var vegna þess, að þetta hlutafélag tjáði henni, að það gæti keypt þessi skip við æskilegu verði, og jafnframt, að ekki væri kostur á að kaupa ný skip, nema þá við mjög miklu hærra og óhagstæðara verði, enda þótt tekið væri tillit til þess, að þessi skip eru gömul. Ég taldi þess vegna fyrir mitt leyti æskilegt að verða við þessari ósk og vænti þess, að hv. d. og hæstv. Alþ. geti orðið mér sammála um það. — Ég leyfi mér að vænta þess, að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.