29.10.1951
Neðri deild: 19. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

30. mál, innflutningur á hvalveiðiskipum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Eins og kunnugt er, þá hefur hlutafélagið Hvalur rekið hvalveiðar í Hvalfirði um nokkurt árabil og hefur haft á leigu hvalveiðibáta frá Noregi þangað til í byrjun þessa árs, að félaginu tókst að festa kaup á 4 bátum til þessara veiða. En sá hængur var á, að aldur þessara skipa var hærri en löglegt er að flytja til landsins, en lögum samkvæmt má ekki flytja til landsins eldri skip en 12 ára. Hins vegar var það svo með þessi skip, að þau uppfylla fullkomlega þær kröfur, sem gerðar eru um styrkleika og sjóhæfni slíkra skipa, og þess vegna varð ríkisstj. við tilmælum félagsins um það að gefa út brbl., þar sem veitt var undanþága frá þessu ákvæði.

Sjútvn., sem athugað hefur þetta mál, samþykkir fyrir sitt leyti þessa ráðstöfun ríkisstj. og hefur ekkert við hana að athuga eftir að hafa kynnt sér þetta mál nokkru nánar, og leggur til við hv. d., að frv. verði samþ.