18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

168. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. deildarinnar hefur skilað áliti um þetta frv. á þskj. 635 og mælir með því, að frv. verði samþ. N. hefur borið saman tölur frv. á þskj. 595 við tölur ríkisreikningsins, og virðast þær vera samhljóða.

Fjárlög 1949 gerðu ráð fyrir því, að tekjuafgangur ársins yrði rúmlega 28 millj. kr., en í framkvæmdinni varð þetta öðruvísi eða rekstrarhalli um 800 þús. kr. og þá að sjálfsögðu mikill greiðsluhalli.

Athugasemdir yfirskoðunarmanna eru prentaðar með ríkisreikningnum eins og venjulega, og eru þær alls 29. Svör ráðherra eru þar einnig birt og till. yfirskoðunarmanna viðkomandi athugasemdunum. Yfirskoðunarmenn vísa alls 11 till. til aðgerða Alþingis.

Ég vil nú fara um þessar athugasemdir nokkrum orðum.

Hin svo nefnda umboðslega endurskoðun á reikningum ríkisfyrirtækja er mjög langt á eftir. Samkvæmt skýrslu um þetta eru óendurskoðaðir reikningar mjög margra stofnana fyrir árin 1948 og 1949 og þá vitanlega líka fyrir þau ár, sem siðan eru liðin. Það er skýrt frá því í svörum ráðherra, að verið sé að reyna að koma þessari endurskoðun í betra lag, sem vonandi tekst.

Önnur athugasemdin er viðkomandi óinnheimtum eftirstöðvum af ríkistekjum, sem eru um 191/2 millj. kr. í árslokin, og er það nærri 7 millj. kr. hærri upphæð en um næstu áramót á undan.

Í þriðja lagi er rætt um miklar útistandandi skuldir tóbakseinkasölunnar um áramótin, eða alls um 5.4 millj. kr.

Í fjórða lagi er athugasemd um lánveitingar tóbakseinkasölunnar, sem upplýst er að farið hafa fram samkvæmt fyrirlagi þáverandi fjmrh., samtals yfir Í millj. og 100 þús. kr.

Úr sjóði einkasölunnar hefur verið lánað sem hér segir:

Til Ísafjarðarkaupstaðar vegna vatnsveitu . .... 200 þús. kr.

Vestmannaeyjakaupstaðar vegna rafveitu .. ……… 350 – –

tunnuverksmiðju .......................... …………… 300 - -

póst- og símamálastjórnarinnar ................................ 250 - -

byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur ..................... 10

Í fimmta lagi er vísað til aðgerða Alþ. athugasemd um vörukaup tóbakseinkasölunnar hjá einhverjum á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir í athugasemd og svari, hafa þessi viðskipti verið rekin með nokkuð óvenjulegum og einkennilegum hætti, þar sem vörur þessar voru ekki færðar inn á vörureikning verzlunarinnar, heldur voru greiðslur fyrir þær skuldaðar á viðskiptamannareikningi, og þá einnig innborganir fyrir þær, er þær voru seldar. Ekki sést nein skýring á því, hvers vegna bókhaldi um þessi viðskipti var svo einkennilega hagað.

Þá er ein athugasemdin um umframgreiðslur hjá Ríkisútvarpinu. Þær eru að vísu miklar, nema um 37%. Víst er ástæða til að finna að slíku, ef verða mætti til þess, að betur væri fylgt áætlunum fjárlaganna eftirleiðís. En fleiri dæmi hefði mátt nefna um miklar og jafnvel meiri umframgreiðslur. Þannig hefur kostnaður við ríkisstjórnina samkv. 10. gr. fjárlaganna farið 40% fram úr áætlun, og kostnaður við utanríkismál samkv. 10. gr. fjárl. hefur farið 45% fram úr áætlun fjárlaganna. Hér þyrfti hæstv. ríkisstj. vissulega að gæta sín betur en verið hefur.

7.–9. athugasemd eru um óinnheimtar sektir til ríkissjóðs. Í sumum lögsagnarumdæmum hafa sektir innheimzt, en mjög mikið vantar á, að sektir séu innheimtar í nokkrum umdæmum.

Tíunda athugasemd er um kostnað við fjárhagsráð og deildir þess, sem yfirskoðunarmenn benda á að sé nokkuð mikill og meiri en áætlað var í fjárlögum.

Þá er athugasemd um framlag til lýsisherzluverksmiðju, 519 þús. kr., og spurt, hvað liði stofnun verksmiðjunnar, en ekkert svar hefur borizt um það frá ráðuneytinu.

Eru þá taldar þær athugasemdir, sem yfirskoðunarmenn vísa til aðgerða Alþingis.

Úr því sem komið er, verður tæpast séð, að Alþ. geti annað gert málum þessum viðkomandi en að leggja áherzlu á, að aðfinnsluverðar framkvæmdir, sem hér eru nefndar, verði ekki endurteknar, en betur verði á haldið framvegis. Ég vil þó enn fremur nefna hér nokkur atriði, sem reikningurinn hefur að geyma.

Greiðslur vegna ríkisábyrgða nema rúmlega 4.6 millj. kr., og eru útistandandi alls í árslok 1949 15113034.17 kr., sem ríkið hefur orðið að leggja út vegna ábyrgða, sem það hefur veitt. Ég vil nefna nokkra stærstu liðina þarna: Síldarverksmiðjur ríkisins 9618391.41 kr. Siglufjarðarkaupstaður vegna Skeiðsfossvirkjunar 2084150.49 kr. og vegna síldarverksm. Rauðku 413820.00 kr. Andakilsárvirkjunin í Borgarfirði 881054.50 kr. Skagastrandarhöfn 701198.37 kr. Búðanes h/f, Stykkishólini, 471250.00 kr. Húsavíkurhreppur (höfnin) 331094.11 kr. Samvinnufélag Ólafsvíkur 98869.90 kr. Dalvíkurhreppur, Eyjafirði, 90123.09 kr. Stykkishólmshreppur 77420.28 kr. — Samkvæmt ríkisreikningnum 1950, sem við fengum einnig óendurskoðaðan, þá munu á því ári bætast við þetta um 4 millj. kr. vegna ábyrgða, og kemur þar í ljós, að margir sömu aðilar koma þar við sögu. Nú hefur hæstv. fjmrh. upplýst, að enn muni bætast þarna við um 5 millj. kr. fyrir árið 1951. Er þetta alvarlegt mál, og er nokkuð að því vikið í athugasemdum endurskoðenda.

Ég vil enn nefna eitt, en það er, að á árinu 1949 hefur ríkissjóður tekið við verðbréfum til greiðslu á sköttum og öðrum ríkistekjum, alls um 365 þús. kr. Yfirskoðunarmenn hafa ekki gert sérstakar athugasemdir um þetta. En víst gæti verið ástæða til að spyrja, hvernig á þessu standi. Var ekki hægt að innheimta þessa skatta á venjulegan hátt, fá þá greidda í peningum? Ófært er að ganga inn á þá braut að leyfa einstökum skattgreiðendum að borga gjaldfallna skatta með skuldabréfum, ef unnt er að innheimta þá með venjulegum hætti. Það er venjulegt að taka lögtak hjá skattgreiðendum, og víst er hægt að taka slík bréf og selja þau í stað þess að veita skattgreiðendum lán. Ekki veit ég heldur um neina heimild til þess að veita einstökum mönnum lán á þennan hátt.

Reikningarnir eru nú eins og áður allt of seint á ferðinni. Reikningurinn fyrir 1950 ætti að vera kominn endurskoðaður til úrskurðar á Alþ., til þess að telja mætti, að sæmilegt lag væri á þessum málum. Það stendur á endurskoðuninni, sem fram fer í stjórnarráðinu. Það er þörf á því, að þessu verði komið í betra lag.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en fjhn. gerir engar till. út af þessum athugasemdum, en leggur til, að frv. verði samþ.