18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

168. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið talað alvarlega um það, hvort ekki væri hægt að laga ástandið í endurskoðuninni, svo að reikningarnir kæmu fyrr fyrir Alþ. Fyrir nokkrum árum hefur þetta sýnilega farið úr böndum og endurskoðunardeild stjórnarráðsins er orðin á eftir tímanum. Ég þarf ekki að lýsa því, að athugasemdir við reikningana 1949 sýna það. Þessu hefur enn ekki verið hægt að kippa í lag nema að litlu leyti. Það hefur verið lagt til að semja við endurskoðendur utan stjórnarráðsins að taka það að sér, sem hefur dregizt aftur úr, svo að endurskoðendur stjórnarráðsins geti svo haldið hinu í horfinu. Þetta er eina leiðin til að koma þessu í lag, að koma því fyrir, sem hefur dregizt aftur úr, en efla deildina svo, að hún geti haldið þessu í horfinu. Það þarf þá að bæta við 1–2 mönnum, og mega menn þá ekki umhverfast, ef þetta verður nauðsynlegt.

Það er annað atriði, sem hv. þm. drap á, og það er um óreiðuna hjá tóbakseinkasölunni. Hún er ein þeirra stofnana, sem firmu fengu til endurskoðunar, en það er ekki fyrir það, heldur hefur bókhaldið verið svo lélegt, að það var hægt að skjóta undan, án þess að það kæmist upp, en þegar bókhaldinu var breytt, kom það í ljós. Það var ekki fyrir það, að dráttur væri á endurskoðuninni, því að hún fór fram jafnóðum. Það er ekki nóg að hafa málið með höndum og líta á, hvort það sé halli, heldur verður að líta eftir, hvort kerfið sé nógu öruggt. Ég held, að það sé leið út úr þessu að fá viðbótarvinnu og efla endurskoðunardeildina til að ná jafnvægi og láta hana taka við nýjum reikningum, en kaupa endurskoðun á gömlu reikningunum. Þó að það þurfi að bæta fólki í endurskoðunardeildina, dugir það ekki, því að reikningarnir eru orðnir svo langt á eftir. Ég held, að ef deildinni tekst að fá vinnu við þessa gömlu reikninga, þá megi efla deildina svo, að hún geti haldið þessu jafnvægi. Það er eitt atriði, sem er rétt að taka fram, að ef við hugsum okkur, að hægt sé að loka reikningnum strax eftir áramót, getum við ekki búizt við því, að deildin sé búin að endurskoða hann fyrr en undir vor, en hann ætti að geta verið allur tilbúinn í júlíbyrjun. Ef hægt yrði að ná þessu, þá verða endurskoðendurnir reiðubúnir að vinna sitt starf yfir sumarið, svo að reikningurinn gæti komið fyrir næsta þing, en til þess að það sé hægt, þarf endurskoðunin að fara fram yfir sumarið eða snemma um haustið. Þeir, sem að þessu ynnu, gætu tekið vissa þætti fyrr á árinu, áður en búið er að ganga frá öllu, án þess að öryggið minnki. Það þarf að vera vel vakandi og gripa öl] tækifæri og vinna eins fljótt og hægt er. Ég held, að þetta ætti að vera hægt með því að kjósa t.d. sérstaka endurskoðendur úr þinginu við hinar ýmsu starfsgreinar. Ég held, að það sé ekki hægt að gera sér vonir, að það yrði betra með því að kaupa endurskoðendur og efla deildina. — Ég skal svo ekki eyða meiri tíma í þetta.

Viðvíkjandi athugasemd um að koma í veg fyrir þessi ábyrgðarlán vil ég segja það, að það er heimtað af okkur, að við tökum ábyrgð á þessum lánum. Hv. þm. segja, að ef við ábyrgjumst ekki þessi lán, þá stöðvum við framkvæmdir, því að það sé ekki hægt að fá lán, nema við ábyrgjumst þau. Áður voru þessi lán til 2–3 ára, en nú eru þau ekki styttri en til 10 ára og flest 15–20 ára. Það er erfitt við þetta að eiga, og hv. þm. gera til okkar stórar kröfur um að láta þetta ekki standa í vegi fyrir framkvæmdum.

Ég skal ekki leggja meira til þessara mála nú, en mér þætti líklegt, ef ég yrði áfram við þetta, að mér þætti ástæða til að minnast á það síðar.