18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

168. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. þm. A-Húnv., sem er einn af endurskoðendum ríkisreikninganna, hélt ræðu um málið áðan og sagði það m.a., að fjhn. þessarar d. gerði engar till. til þingsins í sambandi við þær aths., sem yfirskoðunarmenn hefðu vísað til aðgerða Alþ., og skildist mér hv. þm. furða sig nokkuð á þessu. Það, sem fjhn. hefur fengið til meðferðar, þegar ríkisreikningurinn er á ferðinni, það er frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum, og ég fæ ekki séð, þó að þingið vildi afgr. einhverjar till. í sambandi við ríkisreikninginn, að þær ættu heima í þessu frv. Mér finnst ekki eðlilegt að hafa þann hátt á. þó að eitthvað væri aðfinnsluvert við ríkisreikningana, að fara að setja slíkar till. inn eða samþ. um þau efni brtt. við þetta frv. um samþykkt á reikningnum, heldur yrðu þær að koma fram í öðru formi, sennilega þál.-formi. Þetta finnst mér að væri eðlilegt. En ekki skal því neitað, að vitanlega gætu fjhn.- menn borið fram slíkar till., en ég vil benda á, að tveir yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna, sem sæti eiga á þingi og hafa verið endurskoðendur í fjölda ára og eru þar af leiðandi kunnugir þessum málum, hafa engu síður en aðrir þm. aðstöðu til þess að koma með slíkar till. Ég geri ráð fyrir, að þeir hafi öðrum fremur um þessi mál hugsað, og ef þeir kæmu auga á, að líklegt væri til árangurs að gera till. um það, þá stæði engum nær að benda þinginu á, hvað hér ætti að gera, heldur en þeim, og þegar sessunautur minn, hv. þm. AHúnv., talar um það, að fjhn. bendi ekki á nein ráð, þá mætti spyrja hann, sem svo mjög hefur við þessi mál fengizt, hver séu hans ráð.

Ég sagði áðan, að úr því sem komið væri, þá teldi n. ekki annað en sjálfsagt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, en í tilefni af aths. yfirskoðunarmanna vildi n., eins og fram kemur í nál., benda á nauðsyn þess, að þau dæmi, sem þar eru nefnd um aðfinnsluverða hluti, verði höfð til viðvörunar framvegis. Það getur verið leið til árangurs, ef þingið gerði ályktun út af þessum vissu hlutum, sem þarna er um að ræða, en þá ætti það að koma sem sérstakt þingmál.

Hv. þm. A-Húnv. sagði, að það væri ekki ásökunarefni á yfirskoðunarmenn, þó að reikningurinn væri seint lagður fyrir þingið. Það kann að vera, en út af því, sem hann sagði um það, að ástæðan sé sú, að endurskoðunin í stjórnarráðinu, hin umboðslega endurskoðun, sé svo langt á eftir, og mér skildist hann líta svo á, að yfirskoðunarmennirnir, sem Alþ. velur, geti ekki gengið frá endurskoðun fyrr en hinni umboðslegu endurskoðun er að fullu lokið, þá er ég ekki frá því, að þarna gæti nokkurs misskilnings. Að vísu fer það eftir því, hvernig þeir lita á sitt verkefni, yfirskoðunarmenn þingsins, en ég held, að eins og nú er komið, þá eigi þeirra starf að vera fyrst og fremst krítisk endurskoðun, þeir eigi að bera ríkisreikningana saman við fjárl. og athuga, hvort tekjur, sem ríkið á að fá, innheimtast með eðlilegum hætti, athuga greiðslur úr ríkissjóði og bera það saman við upphæðir á fjárl., eins og þeir hafa gert, og athuga, hvort eitthvað er greitt úr ríkissjóði, sem engin heimild er til að greiða, eins og t.d. er bent á nú, þar sem fyrrverandi fjmrh. hefur látið ríkisverzlun lána í heimildarleysi allstóra fjárhæð úr sínum sjóði, sem engin skýring er á hvers vegna hefur verið gert. Mér skilst, að þetta eigi þeir fyrst og fremst að gera, en það er ekki hægt að ætlast til þess, eins og ríkisreksturinn er nú, að þeir framkvæmi tölulega endurskoðun, en mér skilst, að þeir geri það að einhverju leyti. Mér hefur skilizt, að þeir séu að fást við tölulega endurskoðun, en ég held, að ef þeir ætluðu að framkvæma tölulega endurskoðun eins og yfirskoðunarmenn, sem Alþ. hefur kosið, höfðu gert fyrr á tímum, meðan þetta var allt miklu umfangsminna en nú, þá mundi þessum þrem mönnum ekki endast árið til að framkvæma vandlega slíka tölulega endurskoðun hjá ríkinu. Þess vegna held ég, að þeir ættu ekki að fást við slíkt, ég held, að það sé hin krítíska endurskoðun, sem þeir ættu að framkvæma. Ég vil benda á, að jafnvel þótt ekki sé búið að framkvæma þessa tölulegu endurskoðun í stjórnarráðinu, þá geta þeir yfirskoðunarmenn, sem þingið kýs, athugað fylgiskjöl við ríkisreikninginn og athugað, hvort greiðslur eru í samræmi við fjárl., o.s.frv. Þetta geta þeir gert, þó að einhver töluskekkja kynni að finnast við endurskoðun stjórnarráðsins, svo að ég er ekki á sama máli og hv. þm. A-Húnv. um það, að þeir geti ekki lokið sínu verki, þó að hin tölulega endurskoðun sé eitthvað á eftir. Fylgiskjöl öll liggja fyrir strax um það leyti, sem reikningurinn er gerður, þó að hin umboðslega endurskoðun sé eftir. Það eru þessi fylgiskjöl, sem ég hygg að hinir þingkjörnu menn eigi að athuga, og allar greiðslur, sem hafa átt sér stað inn í ríkissjóð og úr honum. — Þetta er sú aths., sem ég vildi gera út af því, sem fram hefur komið.