18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

168. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði síðast, vil ég taka það fram, að mér skildist ekki betur en hann væri að lýsa yfir, að hann ætlaði ekki að greiða atkv. með því að samþ. reikninginn.

En þá kemur sú spurning: Hvernig stendur á því, að þessi hv. þm., sem er endurskoðandi landsreikninganna, hefur samþ. a.m.k. tvo landsreikninga, sem alveg stendur eins á um, að ekki var búið að endurskoða alla undirreikninga? Ég held, að þessi hv. þm., ef hann ætlar að setja þetta mál í einhverja klemmu, hefði þá átt að gera það fyrr. Ég held, að hann hefði átt að hafa manndóm í sér til þess í fyrsta skipti, sem það kom fyrir, að hann, sem endurskoðandi, sá, að ekki var búið að endurskoða alla undirreikninga, með því þá strax að stoppa þetta, því að þá var auðveldara að segja stopp heldur en nú fyrst, þegar búið er að endurskoða tvo reikninga, en svo þegar þriðji reikningurinn kemur, sem er alveg eins, þá segir hv. þm.: Nú get ég ekki veríð með í því að samþ. þetta. — Og það er mikil spurning, hvort það er yfirleitt hægt fyrir hv. þm. að staðfesta reikninginn, eins og endurskoðendurnir hafa gert, en greiða síðan ekki atkv. með honum á Alþ. — Fyrst hv. þm. er að láta liggja að þessu, þá get ég ekki stillt mig um að minnast á það, að það hefði kannske verið hægt í upphafi að stemma á að ósi í þessu máli, ef hv. þm. hefði þá verið nógu stífur og tekið afstöðu um það að afgr. ekki landsreikninginn nema búið væri að endurskoða alla undirreikninga. Það hefði hann átt að gera strax, en ekki nú fyrst.