21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

168. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar og rætt það allmikið. N. hafði jafnvel tekið það til umræðu, að vísu óformlega, áður en því var til hennar vísað, og er sannleikurinn sá, að n. hefur talið sig í allmiklum vanda stadda við afgreiðslu málsins. Í fyrsta lagi hefur n. borið

frv. saman við niðurstöðutölur landsreikningsins fyrir árið 1949, og eru þær réttar. — Það er út af athugasemdum þeim, sem yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins hafa gert, að n. telur, að athuga hefði þurft málið betur. Af 29 athugasemdum, sem yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins hafa gert, hafa þeir vísað 11 til aðgerða Alþingis. Nú er það vitað mál, að þegar slíkum athugasemdum er vísað til aðgerða Alþingis, hlýtur það að vera meiningin, að Alþingi geri eitthvað í þessum málum, en það hefur nú verið svo og er svo enn, að engar till. hafa komið fram um það, hverra aðgerða Alþ. sé þörf, hér á hv. Alþ. frá yfirskoðunarmönnum, enda þótt þeir séu sjálfir alþm. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að mér finnst, að þeir eigi sjálfir að gefa Alþingi bendingu um, hvað þeir vilja láta gera í þessum málum. Þetta hafa þeir ekki gert, hvorki fyrr né nú, en ég vil með þessari ábendingu minni vonast til þess, að annar háttur yrði upp tekinn í þessu máli.

Eftir þessum athugasemdum virðist misbrestur hafa orðið í ýmsu við landsreikningana fyrir árið 1949. Ég skal aðeins geta um það, sem vísað hefur verið til aðgerða Alþingis. Þá er það fyrsta athugasemdin um það, að endurskoðun á ýmsum ríkisstofnunum hafi dregizt úr hófi fram. ríkisstj. viðurkennir þessa athugasemd rétta og eins aðra athugasemdina, sem einnig er vísað til Alþ. Hún er um það, að allmiklar eftirstöðvar af gjöldum séu enn útistandandi, og er vissulega ástæða til að gera gangskör að því að innheimta þessi gjöld. — 5. og 6. athugasemdunum er einnig vísað til Alþ., en þær fjalla um það, að ýmsar ríkisstofnanir hafi lánað af fé sínu allmikla upphæð, að vísu í þarfir ríkisins, og virðist þetta ekki viðeigandi, nema vel sé um alla hnúta búið. — 7. athugasemd er um það, að vörukaup hafi farið fram hjá tóbakseinkasölunni án þess að hafa verið bókuð fyrr en eftir á. Verður þetta að teljast - svo að ekki sé meira sagt — ákaflega óviðeigandi. Meðal annars geta vaknað ýmsar grunsemdir í sambandi við þessa aðferð. — 8. athugasemdin, sem einnig er vísað til aðgerða Alþ., er út af umframgreiðslum hjá Ríkísútvarpinu, og álíta yfirskoðunarmenn, að ríkisstofnanir eigi að fara betur eftir fyrirmælum Alþ. N. vill taka undir þetta, enda er tilgangslaust að semja fjárlög, nema eftir þeim sé farið að svo miklu leyti sem mögulegt er. —11.–13. athugasemdir eru viðvíkjandi óinnheimtum sektum. Það er vitanlega sjálfsagt að leitast við, að þær séu innheimtar, því að annars verður það að markleysu að dæma menn í sektir. — Um 16. athugasemdina er svipað að segja og um þá 8. Fjallar hún um umframgreiðslur, sem orðið hafa hjá fjárhagsráði, og virðast þær hafa farið fram án samþykkis ráðherra. — 19. athugasemdinni er ósvarað af hæstv. ríkisstj., en hún er viðvíkjandi byggingu lýsisherzlustöðvar, og leyfi ég mér því nú að spyrjast fyrir um, hvað því máli líður. Vil ég spyrja hæstv. ráðh. (EystJ) um þetta.

Ég mun nú ekki ræða þetta nánar. Sumar þær athugasemdir, sem yfirskoðunarmenn hafa gert, eru allathyglisverðar, en þar sem þeim er ekki vísað til aðgerða Alþ., er ekki eðillegt eða að minnsta kosti ekki skylda að fara út í þær hér.

Niðurstaða n. er sú að beina því til hæstv. ríkisstj. að koma sem mest í veg fyrir þær misfellur, sem hér hafa verið raktar, og í trausti þess, að hæstv. stjórn geri eitthvað í þeim efnum, leggur öll n. til, að frv. verði samþ. óbreytt.