21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

168. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Örfá orð viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Eyf. — Ég er sammála hv. þm., að ef einhverjar athugasemdir eru þannig vaxnar, að yfirskoðunarmenn vísa þeim til Alþ. og vilja þar með gera þær að þingmálum, og þegar þeir jafnframt eru sjálfir þm., þá eiga þeir að beita sér fyrir því hér á hv. Alþ. Væri þá eðlilegast, að svona mál yrðu afgreidd með þáltill. En þetta hefur bara ekki tíðkazt hingað til.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um tóbakseinkasöluna, þá er það yfirleitt venja hennar að lána kaupmönnum og kaupfélögum til eins mánaðar. Það er því engin ástæða til að vísa þessu máli til Alþ., nema því aðeins að það hefði bannað tóbakseinkasölunni að reka lánsviðskipti, en Alþ. hefur aldrei fyrirskipað henni að reka eingöngu kontant viðskipti. Að þessar upphæðir hjá einkasölunni hafa hækkað, stafar eingöngu af hækkuðu verðlagi. (Dómsmrh.: Þetta reyndist nú meir en athugavert á s.l. ári, því að það var gert að dómsmáli.) Já, það er rétt, að það varð sjóðþurrð þar á s.l. ári, en það kemur ekki þessum lið við.

Um fjárhagsráð er það að segja, að því er með lögum sett ákveðið hlutverk, og verður maður að líta svo á, að það sé skylda þess áð framfylgja þessu hlutverki sínu,“ sem því lögum samkvæmt er ætlað, og hlýtur því þá að vera heimilt að ráða það starfsfólk, sem það telur sig með þurfa, þannig að það er vafasamt að taka svo til orða eins og gert er í þessari aths., þar sem sagt er, að óheimilt hafi verið að greiða þetta nema með samþykki Alþ., því að þetta er greitt eftir l. um fjárhagsráð. Svo eru ýmsar aðrar aths. þarna, eins og t.d. um innheimtuna, að hún hafi versnað, en það er líka verið að gera nýjar ráðstafanir til þess að bæta innheimtuna, svo sem með söluskattinn og eins með því að setja aukadráttarvexti á tekju- og eignarskattinn til að herða á innheimtunni.

Um endurskoðunina, sem þarna er aths. um, liggja fyrir þær upplýsingar, að það sé verið að bæta úr því á þann hátt að ráða til endurskoðunarinnar menn til þess að taka að sér aðkoma frá öllu því gamla, sem er óendurskoðað, þannig að endurskoðunardeild rn. geti fengið nýja reikninga. En þetta kostar talsvert fé, en það er ekki forsvaranlegt að láta reikninga yfir stórkostlega fjármuni óendurskoðaða, en við höfum ekki séð aðra leið til þess heldur en þetta, og hvað langan tíma það tekur, skal ég ekki segja.

Svo er ein aths., sem aldrei hefur verið svarað. — Ég vil að lokum segja það varðandi lýsisherzluverksmiðjuna, því að það er spurt um það í aths., að það hefur verið lagt út nokkurt fé til vörukaupa fyrir þessa verksmiðju, en það er aðeins lítill hluti af nauðsynlegum vélakaupum. Ég hef spurzt fyrir um það hjá atvmrn., hverjar séu framtíðarfyrirætlanir um þetta mál, en það vildi ekki svara þessu, vegna þess að rn. er ekki búið að gera það upp við sig, hvað það vilji gera, en ég vil upplýsa það, að þessar vélar, sem hafa verið keyptar, eru geymdar á vegum atvmrn. En atvmrn. vildi ekki svara þessari fyrirspurn og ekki segja til um það, hvað það hygðist leggja til um frambúðarráðstafanir í þessu máli.