21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

168. mál, ríkisreikningar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að sjá, að hæstv. fjmrh. er við, þar sem ég tel nauðsynlegt að ræða þetta mál dálítið.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að málið var rætt allverulega í n., og það var vilji n., að gerðar yrðu frekari tilraunir til endurbóta í þessu máli, um það var n. sammála. Og ég hygg, að ég megi fullyrða, að allir nm. hafi óskað þess, að við þessa umr. kæmi fram yfirlýsing frá hæstv. fjmrh., sem verkaði á framtíðina, svo að þær misfellur, sem orðið hafa, endurtaki sig ekki.

N. hefur ekki viljað gagnrýna það, sem ekki er hægt að bæta, en hún vill, að þær úrbætur séu gerðar, sem gildi hafa fyrir framtíðina.

Ég vildi þá í fyrsta lagi minnast á endurskoðunina. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki væri rétt, að hvert fyrirtæki hefði sína endurskoðendur. Það er t.d. kunnugt, að vegagerðin hefur það ekki, og þó notar hún 20–25 millj. kr. árlega. Ég held, að það væri heppilegt, að fyrirtækin hefðu ákveðna endurskoðendur og létu reikningana ganga endurskoðaða til ríkisstj. Það er fjöldi fyrirtækja, sem ekki hefur sérstaka endurskoðendur, og það er því meiri ásfæða til að gefa þessu gaum, þar sem það er upplýst, að misfellur hafa orðið hjá að minnsta kosti tveimur stofnunum. Ég gæti ímyndað mér, að rétt væri, að Alþ. kysi endurskoðendur fyrir sumar stofnanir og kannske allar. Það er ekki rétt, að endurskoðunardeild stjórnarráðsins hafi þetta með höndum, þar sem ætla má, að hún verði langt á eftir ríkisreikningunum með endurskoðun margra stofnana. Ég vil beina þessu til hæstv. ráðh. Þó að sérstökum endurskoðendum verði falið að endurskoða reikninga þeirra stofnana, þar sem endurskoðun hefur dregizt í mörg ár, er vert að athuga þetta í framtíðinni.

Ég hef orðið var við, að deyfð þingsins í sambandi við ríkisreikningana, sem vanalega eru samþ. umræðulaust, sljóvgar löngun yfirendurskoðenda til þess að gera verulegar aths. Þeir líta á þetta sem formsatriði og telja, að ekki sé tekið mark á aths. þeirra. Ég hygg, að þær aths., sem nú koma fram, eigi rót sína að rekja til þeirra umr., sem urðu á síðasta þingi um málið, og að þær séu gerðar í trausti þess, að Alþ. láti málið ekki fara fram hjá sér athugasemdalaust.

Í sambandi við aths. nr. 2 skal ég geta þess, að erfitt er fyrir Alþ. að fyrirskipa neitt í þeim efnum annað en það, sem hefur verið gert, um það er ég hæstv. ráðh. sammála og held, að sú viðleitni, sem hann hefur sýnt, sé vel metin. Ég skal því ekki orðlengja frekar um það.

Um nr. 3 vildi ég hins vegar segja nokkur orð, þó að ekki sé hægt að koma fram ábyrgð á hendur þeim aðilum, er að því máli stóðu. Ég vil leyfa mér að benda á það, að ef þetta hefði ekki verið gert, án þess að heimild væri fyrir því frá Alþ., þá hefði ríkissjóður komizt hjá því að greiða rekstrarhalla þessa fyrirtækis. Það var því fyrir velvild hæstv. ráðh., að fyrirtækið var ekki stöðvað. Ég skil hæstv. ráðh., hann var að lána fyrirtæki, sem átti að reka, en það var rekið með slíkum endemum, að millj. kr. þurfti úr orlofssjóði og póstsjóði til þess að halda því á floti. Ef hætt hefði verið að lána fyrirtækinu, hefði orðið að gera það upp og sá sannleikur komið í ljós nokkrum mánuðum fyrr, að ekkert vit var í því að halda því gangandi.

Um útistandandi skuldir tóbakseinkasölunnar er það að segja, að ég held, að þessi lánaviðskipti séu ekki heimil, enda hefur forstjórinn tjáð mér, að hann óskaði að fara inn á bein peningaviðskipti. Ef haldið er áfram lánaviðskiptum, hefur það áhættu í för með sér, þar sem stofnunin getur orðið fyrir töpum. Bein peningaviðskipti mundu heldur ekki leiða til þess, að salan minnkaði, því að hér er um einkasölu að ræða. Spurningin er sú, hvort stofnunin á að vera lánsstofnun fyrir viðskiptavinina. Ég held, að athugandi væri fyrir hæstv. ríkisstj. að stöðva alla slíka lánastarfsemi. Ég vil geta þess, að meira er útistandandi um áramót en kemur fram á reikningunum, því að það er ekki lokað fyrir reikningana fyrr en í febrúar eða marz. Ég held, að það sé óþarfi að hafa þessi lánaviðskipti, þar sem viðskiptavinirnir hafa ekki í annað hús að venda, og tel því, að rétt sé að breyta þessu, enda er það æskilegt, að peningaviðskiptum verði komið á í landinu yfirleitt.

Þá vildi ég minnast á útvarpið og umframgreiðslurnar þar og benda á, að ég get ekki fallizt á skoðanir hæstv. ráðh. Ég veit, að það er erfitt fyrir hæstv. ráðh. að stöðva allar greiðslur til útvarpsins, þegar búið er að eyða öllu, sem veitt hefur verið. En það er líka meiningarlaust, ef fjárveitingavaldið og meiri hluti Alþ. hefur ákveðið að greiða ákveðna upphæð til útvarpsefnis, að þá megi átölulaust taka 1/2 millj. kr. og bæta við hana. Ég veit ekki, til hvers fjvn. á að vera að þvælast gegnum öll þessi gögn, ef menn eiga að geta afsakað sig með því, að fjvn. hafi lækkað áætlanir þeirra, og eytt þeim upphæðum, sem þeir vilja. Ég skil hins vegar vel þann vanda, sem hæstv. ráðh. er settur í, þegar forstjóri útvarpsins kemur til hans og segist vera búinn að eyða peningunum, svo að annaðhvort verði að loka útvarpinu eða láta það hafa meira fé. Forretningsmaður mundi segja við hann: Allt í lagi, en ég vil ekki hafa slíkan ráðsmann, sem eyðir því á 9 mánuðum, sem á að endast honum í 12 mánuði. — Það er óafsakanlegt að bera því við, að áætlun útvarpsins hafi verið skorin niður frá því, sem ráðamenn stofnunarinnar töldu sig geta eytt. Það er ómögulegt að taka við slíkum svörum. Og ofan á þetta gengur svo sá maður, sem ber ábyrgð á þessu, á fullum launum án þess að gera neitt.

Sama gildir um fjárhagsráð. Það urðu hörð átök um það, hvað fjárhagsráð ætti að fá, og niðurstaðan varð sú, að meiri hluti Alþ. ákvað, að meira skyldi ekki notað. Það er því óverjandi, að notuð skuli hafa verið hundruð þúsunda fram yfir og ekkert eftirlít með þessu haft. Ef það er meiningin, að stofnanir geti notað fé eftir því, sem þær halda að þær þurfi, þá má létta störfum af fjvn. í framtíðinni.

Útvarpið er skýrt dæmi um þetta. T.d. hefur útvarpsstjóri notað nokkur þús. til ferðalaga fram yfir það, sem áætlað var til útvarpsins.

Ég vil einnig í sambandi við þá aths., sem gerð er við nr. 6, benda á, að ég tel rétt, að skipað verði fyrir um það, að tóbakseinkasalan og aðrar stofnanir fari ekki inn á annað svið en heimilað er í lögum.. Ég tel, að taka þurfi fyrir það með öllu, að þessar stofnanir fari út fyrir sitt verksvið. Ef einkasölurnar taka að fást við almenna verzlun, er verið að fara inn á nýja braut, og það á að stöðva strax.

Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. ráðh., hvort rekin er á kostnað ríkissjóðs án lagaheimildar ákveðin verzlun í sambandi við kaup og sölu setuliðseigna fyrir fé, sem kom inn fyrir setuliðseignir. Þetta var leyft á sínum tíma, en eigi það að halda áfram, verður að leita heimildar fyrir því.

Ég vil enn fremur í sambandi við nr. 19, sem varðar lýsisherzluverksmiðju, spyrja hæstv. ráðherra, hvort tilraunir hafi verið gerðar til þess að ná samkomulagi við áburðarverksmiðjuna. Mér er sagt, að mikið af þeim vélum, sem keyptar voru fyrir lýsisherzluverksmiðjuna, sé vel til þess fallið að nota í áburðarverksmiðjunni. Af því að hér er um mikla fjárfestingu að ræða, virðist ekki óeðlilegt, að það sé athugað, hvort hægt er að nota þessar vélar í áburðarverksmiðjuna. Annars er nauðsynlegt að fá að vita, hvort enn er ætlunin að reisa lýsisherzluverksmiðjuna og þá hvort gera á það á næstu árum eða mánuðum.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. í sambandi við aths. nr. 22, 23 og 24, sem allar varða nýsköpunartogarana, hvort þessi mál séu ekki komin á hreinan grundvöll. Togaraeigendur áttu að gera þetta upp, og ætti engin tregða að vera á því. (Fjmrh.: Það er á því fullkomin tregða.) Mér er óskiljanlegt, að tregða skuli vera á því. Það er vitað, að þegar útgerðarmenn tóku við samningunum, var t.d. lifrarbræðslan ekki talin með, enda greiddu togaraeigendur fyrir hana sjálfir, því að einn vildi fá þessa tegund og annar hina. Réttur ríkisins er því tvímælalaus. Eigendurnir hafa fengið það mikið fé, — sum skipanna hafa verið seldsíðar fyrir nær tvöfalt verð, eins og „Akurey“ og „Garðar Þorsteinsson“, — og óskiljanlegt er, að tregða skuli vera á því að gera þetta upp.

Ég hef viljað láta þessar aths. fylgja þessu máli. Ég skal ekki ræða málið frekar, en ég vil mælast til þess, að málið verði athugað af hæstv. ríkisstj. og að viðkomandi n. fái nægilegan tíma til þess að athuga það, svo að ekki fari eins nú og í fyrra, að varla verði tími til þess að láta prenta nál. Hér er þó um allan kostnað ríkisins að ræða, svo að æskilegt væri að afgreiðslan hefði a.m.k. annan blæ en verið hefur.