21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

168. mál, ríkisreikningar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér er óhætt að segja, að ég mun að mínu leyti vinna að því að færa til betra horfs ýmislegt af því, sem fjallað er um í aths.

Varðandi endurskoðunina vil ég endurtaka það, að ætlunin er að fá löggilta endurskoðendur til þess að gera upp gömlu reikningana og að aðalendurskoðandinn beiti þá sínu liði að því nýja. Ég hygg, að það gæti orðið kostnaðarsamt, ef kjósa ætti tvo endurskoðendur fyrir hverja stofnun, og að ódýrara verði að fela endurskoðunardeild stjórnarráðsins þetta.

Um öryggið mætti ýmislegt segja. Sjóðþurrð varð hjá tóbakseinkasölunni, þó að þar væri löggiltur endurskoðandi. Skipulag bókhaldsins og innheimtunnar var ekki nógu fullkomið, en þar hafði ekki dregizt að endurskoða. Það er því margt, sem kemur til greina.

Viðvíkjandi því, að reikningurinn komi of seint fram, þá þarf að koma þessu í það horf, að umboðslegu endurskoðuninni verði lokið fyrir mitt ár. Ég teldi gott, ef henni væri lokið fyrir 1. júlí, svo að endurskoðendur landsreikninganna gætu unnið að endurskoðuninni yfir sumarið og hægt væri að leggja reikningana fyrir þingið ekki síðar en 1. desember. En þá verða líka endurskoðendur landsreikninganna að endurskoða á sumrin og ekki fyrst þegar þingið er byrjað.

Varðandi skuldaviðskipti tóbakseinkasölunnar, þá hefur forstjórinn ekki gert till. um það, og það er vegna þess, hvernig ástatt er fyrir viðskiptamönnunum. Það mundi koma sér illa fyrir þá, ef breytt yrði til, einmitt eins og nú er ástatt, en hins vegar hefur okkur komið saman um það, að reyna þyrfti að stefna að því, að hægt væri að láta hönd selja hendi. — Hv. þm. minntist á viðskipti, sem væru óviðkomandi einkasölunni, og að hún ætti ekki að hafa með höndum slík viðskipti.

En um sölu setuliðseigna er það að segja, að þannig var málum fyrir komið, að ákveðið var, að setuliðið seldi til ríkisins allan þann varning og eignir, sem það léti af hendi hér innanlands, en sú hefur orðið raunin, að alltaf er verið að afhenda einhverjar eignir, og þá þarf að ráðstafa sölu á þeim aftur. Hefur fallið undir fjmrn. að gera það, og hefur það framkvæmt það þannig, að það, sem hefur verið keypt, hefur verið selt við sem beztu verði, og hefur verið verulegur hagnaður af þessu undanfarið. Þessu er ekki hægt að hætta, meðan sífellt koma nýjar og nýjar eignir, og ekki eru horfur á, að þetta leggist niður, því að það hefur komið hingað herlið, sem sífellt hefur látið af hendi eignir til sölu.

Um lýsisherzluvélarnar er það að segja, að veríð er að athuga það af atvmrn., hvort áburðarverksmiðjan gæti keypt þessar vélar.

Hv. þm. Barð. minntist að lokum á aths. um skuldir togaraeigenda. Þeir skulda þarna nokkrar millj., — að ég held á fjórðu milljón, — og höfum við verið að reyna að innheimta það, sent þeim hverja tilkynninguna á fætur annarri það 11/2 ár, sem ég hef verið í fjmrn., en fæstir hafa svarað nokkru, og þá hefur rn. farið inn á þá braut að bjóða þeim 5 ára samning, en þeir hafa flestir ekki anzað þessu. Er nú svo komið, að ef þeir taka ekki upp samninga, verðum við að fara að stefna út af þessu, því að ekki er hægt að láta þetta ganga svona, og það munum við gera, ef þeir vilja ekki semja á næstunni.