21.01.1952
Efri deild: 67. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

168. mál, ríkisreikningar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi segja hér fáein orð, vegna þess að þær framkvæmdir, sem sá reikningur, sem hér er til umr., gefur tilefni til aths. við, fóru fram meðan ég var í sæti fjmrh.

Ég verð að taka undir það, sem sagt hefur verið, að þegar hv. yfirskoðunarmenn vísa einhverju til aðgerða Alþ., væri viðkunnanlegra að kæmu beinar till. frá þeim um, hvað ætti að gera út af hverju og einu tilfelli.

Þegar ég tók við embætti fjmrh. í ársbyrjun 1947, þá lá fyrst og fremst fyrir, eins og kunnugt er, ákaflega gjaldafrek löggjöf á ýmsum sviðum, sem hafði verið sett á næstu árum þar á undan og gerði tilkall til mikilla fjárframlaga úr ríkissjóði, en á hinn bóginn voru tekjumöguleikar ríkissjóðs þá ekki farnir að rýmkast, sízt af öllu samkvæmt þeim aðgerðum, sem átt höfðu sér stað áður en gengisbreyt. fór fram. Það er hér til dæmi fyrir utan það, sem löggjöfin var þar beint ráðandi. Hér hefur t.d. verið minnzt á lýsisherzluvélar. Því máli var þannig komið, að fyrir þeim var engin fjárhæð til í fjárl., en hins vegar hafði atvmrh. sá, sem sat á tímum nýsköpunarstj., beinlínis látið gera samning við verksmiðju úti í Englandi um kaup á þessum vélum og afhendingu á þeim eftir hendinni, og það sem meira var, að áður en sú stj. tók við 1947, hafði sendiráð Íslands í London beinlínis undirgengizt skuldbindingu í þessum efnum, þannig að ekki voru tök á öðru en greiða, að því leyti sem þessir vélhlutar voru tilbúnir, og á því byggist svo sú 11/2 millj., sem þá er greidd fyrir þessar vélar. Fjmrn. og ríkisstj. í heild áttu engrar undankomu auðið, þar sem fyrir lá gerður samningur í því efni.

Sama er að segja um Tunnuverksmiðjur ríkisins, en í því sambandi höfðu farið fram geysimikil efniskaup, sennilega á árinu 1946, úti í Svíþjóð, og var þar eins ástatt, þannig að við þau kaup varð að standa og finna eitthvert fé til þess. Þar sem engin fjárveiting var fyrir hendi, var horfið að því af neyðarástæðum að leita á náðir þessarar stofnunar ríkisins, þ.e. tóbakseinkasölunnar, sem lánaði tunnuverksmiðjunni 300 þús. kr. í þessu skyni. Já, það má kalla þetta misferli, séð frá sjónarmiði þeirra manna, sem síðar endurskoða þessa reikninga, og lá það, að svona aðferð hafi verið viðhöfð, án þess að nokkur fjárveiting væri fyrir hendi. En ég vil spyrja: Hvað mundu þeir sömu endurskoðendur hafa gert í sporum ríkisstj., þegar standa þurfti við samninga, sem lögleg ríkisstj. landsins hafði verið búin að gera?

Nú, varðandi lán til Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur, 10 þús. kr., lán til Vestmannaeyjakaupstaðar til rafveitu og til Ísafjarðarkaupstaðar til vatnsveitu, þá var þar hlaupið undir bagga með að koma á fót framkvæmdum, sem ríkisábyrgð var fyrir í þessum tilfellum.

Varðandi kaup á vörum frá Keflavíkurflugvelli, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, er það að segja, að þetta var einstakt tilfelli. Annars var það forstjóri tóbakseinkasölunnar, sem með samþykki fjmrn. gerði kaup á þessum tóbaksvörum frá setuliðinu, og taldi ég ekki með því skapað neitt fordæmi fyrir því, að hann ætti að gera það áfram. En á þeim árum gekk svo illa að fá gjaldeyrisleyfi hjá gjaldeyrisyfirvöldum landsins til kaupa á t.d. tóbaksvörum, og þýddi það, að verzlunin og afrakstur af henni beið nokkurt afhroð af vöruskorti. Þess vegna fannst mér, eins og forstjórinn lagði það fyrir, að það væri sjálfsagt, að tóbakseinkasalan festi kaup á þessum vörum, — miklu betra en ef þeim hefði verið ýtt inn á markaðinn á bak við lög og rétt, ef tóbakseinkasalan sjálf hefði ekki viljað við þeim líta. Mér skilst, að niðurstaðan af þessu hafi ekki orðið til skaða, og tel, að fordæmið sé ekki hættulegt, því að ég tel, að þetta sé sérstakt tilfelli, að þarna var um afgang af vörubirgðum að ræða, sem enginn gat notfært sér nema Tóbakseinkasala ríkisins.

Ég vil svo láta þess getið í sambandi við þessar setuliðsvörur að öðru leyti og sölu á þeim, að þann tíma, sem ég átti sæti í fjmrn., bjóst ég alltaf við, að komið væri að leiðarlokum með vörur frá setuliðinu. En það kom í ljós, að með vissu millibili fengu þeir menn, sem þá höfðu með þetta að gera — og hafa enn í dag — fyrir ríkissjóð, tilkynningu frá herliðinn eða þeim, sem sáu um að koma eignum herliðsins í peninga, þess efnis, að þá og þá yrði þetta tilbúið til afhendingar. Það var því aldrei vitað um það fyrir fram, hvað til kynni að falla af þessu, en í öllu falli var þetta varningur eða áhöld, sem landsmenn gátu notað og sölunefnd setuliðseigna seldi og selur enn í dag með góðum árangri fyrir ríkissjóð, svo að séð gegnum gleraugu fjmrn. get ég ekki séð, að neitt sé við þetta að athuga, og sama býst ég við að megi segja nú.

Það hefur nokkuð verið rætt hér um það, að útistandandi skuldir tóbaksverzlunarinnar um árslok 1949–50 væru óhæfilega miklar. Og nú hefur hæstv. fjmrh. gefið á þessu skýringu, sem mér finnst mjög eðlileg, en hún er sú, að einmitt þá er ekki öll desembersalan komin inn, og ég held, satt að segja, að þá væri nokkuð harkalegt að fara að fyrirskipa, að tóbakseinkasalan mætti ekki líða neinn viðskiptamann hæfilegan tíma um greiðslu á þessum vörum. Þær eru dýrt seldar og heldur lítið upp úr þeim að hafa fyrir smásöluverzlanir, og einkum nú væri það til mikilla óþæginda að heimta alltaf staðgreiðslu. Ég er ekki að mæla með neinni óreiðu, en fyndist ekki mikið, þó að þessi stofnun lánaði eins og mánaðartíma slíkum viðskiptavinum. Það er mikið gert að því í tóbaksverzluninni að senda gegn póstkröfu, og verður drátturinn vist sjaldan skemmri en mánuður. Og þó að það sé raunar enginn frestur gefinn á greiðslu, þá fara alltaf nokkrar víkur í það að fá póstkröfur greiddar.

Þó að það væri nú þannig, að t.d. póststjórninni var á árinu 1948 veitt 250 þús. kr. mánaðarlán frá ríkisstofnun, var það beinlínis vegna þess, að ríkissjóður hafði ekki peninga til að lána í því skyni, og sama máli var að gegna með rekstur langferðabifreiðanna, sem póst- og simamálastjórnin hafði þá með höndum, að það var ekki hægt að stöðva þetta allt í einu, og þess vegna var það, að fjmrn. lét til leiðast við samgmrn. að heimila að taka þessa upphæð að láni til þess að halda ferðunum uppi um tíma.

Það var ekki þar fyrir, að það hafi allan tímann, sem ég átti sæti í fjmrn., verið hlustað á allar lánsbeiðnir, sem bárust frá þessum stofnunum, því að ég varð beinlínis sem fjmrh. að taka fyrir lánsbeiðni á áfengisverzlunina, sem var sótt fast að fá og ekki var fallizt á, því að það kom ekki ríkissjóði beint við.

Með öllu þessu er ég ekki að segja, að þetta sé sá rétti gangur málanna, og nú, þegar ríkissjóður hefur fleiri möguleika til þess bæði að standa við skuldbindingar þær, sem þingið bindur honum og ýmsar stofnanir þurfa að uppfylla, þá er auðvitað hægurinn hjá að kippa þessu í lag.

Að því er snertir sjálfa endurskoðunina er það að segja, að allan þann tíma, sem ég var í stjórnarráðinu, var ég mjög óánægður með þau vinnubrögð, og kom ég raunar í verk þeirri breytingu á yfirstjórninni við endurskoðunina innan stjórnarráðsins, sem ég taldi að væri að minnsta kosti það, sem þyrfti að gera til þess, að betur væri stunduð vinna. Ég skipti um yfirmann við endurskoðunina, og hvort sem það var rétt eða rangt, var það gert til þess að fá betri vinnubrögð í endurskoðuninni sjálfri þarna innanhúss.

Hér hefur verið minnzt á það, að sjóðþurrð hafi orðið í tóbakseinkasölunni, þrátt fyrir það að löggiltir endurskoðendur í bænum hafi löngu fyrir þann tíma og meðan það átti sér stað haft endurskoðunina með höndum. slíkt getur alltaf komið fyrir, að einstakir menn misfari þann trúnað, sem þeir eiga að gæta í slíku starfi, og verður seint hægt að fyrirbyggja, að þess háttar geti komið fyrir. En mér virtist þá þegar og virðist enn, að þetta endurskoðunarbákn í stjórnarráðinu sé svo mikið, að full þörf sé á að fjölga þeim greinum, sem væru beinlínis teknar út úr, og fela þekktum, löggiltum endurskoðendum í bænum, en gera aðrar ráðstafanir jafnframt, og gerði ég tilraun til þess að fá betri vinnubrögðum komið á varðandi yfirstjórn endurskoðunarinnar í stjórnarráðinu. Sú breyt. var nýkomin á, þegar ég fór úr stjórnarráðinu, og ég veit ekki, hvernig hún hefur gefizt, en hitt veit ég, að sá maður, sem nú veitir endurskoðunardeildinni forstöðu, var, eftir því sem ég gat bezt séð, ákaflega vinnusamur maður og stundaði vel sitt starf.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, en mér fannst rétt, þar sem hér var verið að ræða um atriði, sem fóru fram meðan ég átti að líta eftir þessu, að ég gæfi þessa skýringu, því að vissulega ber ekki núv. fjmrh. að svara fyrir þetta sem sínar persónulegu aðgerðir, hvort sem þær sýnast réttar eða rangar. En svo mikið er víst, að þegar þingið bindur fjmrn. bagga, eins og gert var mjög mikið á næstu 5 eða 6 eða 10 árum fyrir 1947, og ekki er séð fyrir nægilegum tekjum til ríkissjóðs til þess að standa straum af því, þá hlýtur að fara svo, að ýmsir örðugleikar myndist fyrir þá, sem eiga að fara með framkvæmd þessara mála, eins og raun hefur orðið á. Af þessu hafa nú ekki hlotizt nein stórslys. Þetta, sem lánað var, var sumpart lánað á ábyrgð ríkisins eða sem eign ríkisins sjálfs. Mætti í því sambandi nefna, þegar afhenda þurfti þessa togara, sem byrjuðu að koma árið 1947 og héldu svo áfram að koma, en þá var ríkisstj. sett í þann vanda að gera eitt af tvennu: að sýna útgerðarmönnum og kaupendum og fleirum nokkurn trúnað og leyfa þeim að skrá skipin — sem ég og gerði — í því trausti, að engar refjar yrðu hafðar í frammi, eða þá bara að binda þessi nýju skip við bryggjuna jafnóðum og þau komu og bíða eftir, að hver og einn uppfyllti sína samninga, eftir því sem fyrir lá. Fyrri aðferðin var eiginlega sú einasta, sem hægt var að viðhafa, því að ekki voru tök á því að halda skipunum föstum og láta þau bíða aðgerðalaus, þangað til menn hefðu greitt sinn síðasta pening, og í mörgum tilfellum biðu skipshafnirnar eftir þessum skipum. Ég verð að segja, að það hafði staðið í miklu stímabraki allareiðu þá að fá suma af kaupendunum til þess að standa við sína samninga. Það gilti samt sem áður ekki um alla, því að margir voru mjög viðtalsfúsir og liðugir í þeim efnum, en ég lýsi því yfir, að mér þykir mjög fyrir því, eins og ríkisstj. á þeim tíma lagði sig í líma, þegar skipin voru að koma, til þess að mæta — sanngjörnum, skulum við segja — óskum kaupenda og leyfa þeim að fara að starfa sér til gagns með skipunum, þó að þau vitanlega væru ekki afhent þeim til sölu, — mér þykir mjög fyrir því, ef sú verður raunin á, að þeir sýni mikla tregðu í að uppfylla rétta samninga, en það er einmitt það, sem mér heyrðist á hæstv. ráðh., að hann ætti nú í nokkrum örðugleikum með. Það finnst mér sannast að segja mjög ósmekklegt af þeim, sem hafa notað þessi skip, gagnvart því ríkisvaldi, sem hefur lagt jafnmikið í sölurnar til að afla þessara nýju tækja inn í landið sem raun ber vitni að því er nýsköpunartogarana snertir.