23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

42. mál, verðlag

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í sambandi við þær aðfinnslur, sem fram komu hjá hv. 3. landsk. um vinnubrögð allshn., hún væri búin að hafa þetta mál svo og svo lengi til meðferðar og hefði ekki spurt ráðh. um framkvæmd þeirrar bráðabirgðalöggjafar, sem þetta frv. er til staðfestingar á, þá vil ég, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, að þetta frv. er flutt upphaflega í Ed. og er búið að vera þar lengi til meðferðar, og það er ekki neitt að sjá á gögnum málsins þar, að nm. þar hafi gert slíkar fyrirspurnir og ekki heldur flokksmaður hv: 3. landsk., hv. 6. landsk., Guðmundur Í. Guðmundsson. Hann skrifar undir nál. meiri hl. þar og mælir með því, að frv. verði samþ., en það er ekki að sjá á gögnunum, að neinar frekari fyrirspurnir hafi verið gerðar. Og ég held, að það sé algerlega ástæðulaust að vera með nokkur svigurmæli í garð allshn. Nd. fyrir það, að hún hafi ekki tekið ráðh. til yfirheyrslu um það, hvernig þessi l. hafi verið framkvæmd.

Mér er persónulega kunnugt um það, þó að n. hafi ekkert um það fjallað, að það er auðvitað fjarri lagi, sem þm. segir, að þessi l. séu ekki enn komin neitt til framkvæmda. Þau hafa verið í öllum aðalatriðum í framkvæmd frá því er þau voru sett. Mér var kunnugt um setningu þessara l., sem voru, eins og fram hefur komið, einn liður í samkomulagi ríkisstj. og launþega á s.l. vori í sambandi við yfirvofandi vinnudeilur þá, og vissulega gerbreyttist aðstaða verðgæzlustjóra og verðgæzlunefndar við þessa löggjöf og það í framkvæmdinni, frá þeim tíma er lögin tóku gildi. Það er þó aðeins um eitt atriði þessa máls, sem spyrja má, af hverju hafi ekki verið birt nöfn manna, sem hafa haft óhóflega álagningu. Út af fyrir sig þarf það, að nöfnin hafa ekki verið birt, ekki að fela í sér neina sönnun fyrir því, að l. hafi ekki verið framkvæmd, og ég held, að það hafi komið fram hér í öðru sambandi á þinginu, að einmitt að þeim málum hefur verið unnið. Og ekkert liggur fyrir enn, sem sanni það, hvort viðskmrh. eða verðgæzlustjóri séu á einn eða annan hátt ámælisverðir fyrir að hafa ekki birt nöfnin. En það liggur fyrir vitneskja hjá þm. í sambandi við önnur atriði hér, þar sem upplýsingar hafa komið fram um það, að verðgæzlustjóri hefur tekið mjög nákvæmar skýrslur um hæstu og lægstu álagningu í fjöldamörgum vöruflokkum, og ég held, að hv. 3. landsk. þm. sé fullkomlega kunnugt um það. Og það er eitthvað farið að ryðga í mér minnið, ef hann hefur ekki beinlínis vitnað til þessarar skýrslugerðar verðgæzlustjóra í öðru sambandi hér á þinginu. Það liggur þannig hreinlega fyrir, að vissulega hafa brbl. verið framkvæmd, þegar þau tóku gildi. Hitt er svo annað mál, hvort í einu eða öðru tilfelli megi deila um, hvort gengið hafi verið of skammt í framkvæmd þeirra.