23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

42. mál, verðlag

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir mjög leiðinlegt, að hv. 3. landsk. þm. skuli halda hér heila ræðu, sem byggð er á hreinum misskilningi og villu frá honum sjálfum, því að hann talar hér um 4. gr. frv., sem ekkert er minnzt á í mínum brtt. Ég fer fram á að fella niður 3. gr., og í henni er ekkert af því, sem hv. þm. var að minnast á, ekki neitt, því að 3. gr., sem ég legg til að fella niður, er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðgæzlustjóri skal mánaðarlega birta skýrslu, er sýni hæsta og lægsta verð á helztu nauðsynjavörum, sem framfærsluvísitalan byggist á.“

Í þessari grein felst ekkert annað.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég get alveg gengið inn á þá skrifl. brtt. frá hv. 5. þm. Reykv., sem hér hefur verið lögð fram, því að hún gerir skýrara, hvað við er átt, þótt ég ætlaðist auðvitað til þess, að viðkomandi ráðh. réði því, að hve miklu leyti hann birti þær skýrslur, sem hér er gert ráð fyrir í till.