02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

42. mál, verðlag

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. allshn., þá var ég ekki að öllu leyti sammála öðrum nm. um þá brtt., sem n. hefur lagt fram á þskj. 666, þ.e.a.s., ég er samþykkur efni hennar, það sem það nær, en ég tel, að það sé ástæða til þess og liggi full rök fyrir því, að þetta sé gert nokkru víðtækara, en felst í þeirri till. Ég hef þess vegna leyft mér að flytja sérstaka till. á þskj. 663. Munurinn á þeirri till. og till. meiri hl. n. er sá, að samkv. minni till. á að birta mánaðarlega skýrslu, er sýni hæsta og lægsta verð á helztu nauðsynjavörum, sem framfærsluvísitalan byggist á, ekki aðeins í Rvík, heldur og í öllum kaupstöðum landsins. Enn fremur á sú skýrsla um verðiag á byggingarvörum, sem samkv. till. meiri hl. n. er bundin við aðeins Rvík og Hafnarfjörð, samkv. minni till. að ná einnig til allra kaupstaða landsins. Munurinn á till. er enginn annar en þessi. Og ég hef ekki getað fengið skilið, hvaða rök meiri hl. n. hefur á móti því, að birting þessara skýrslna sé látin ná til allra kaupstaðanna, ekki sízt vegna þess, að hæstv. viðskmrh., sem mætti á fundi n., lýsti því þar yfir, að af þessu mundi ekki þurfa að verða neinn aukakostnaður eða nokkur vandkvæði á því að ná í þær upplýsingar, sem til þess þyrfti að birta þessar skýrslur, vegna þess að verðgæzlustjóri hefur sína trúnaðarmenn úti um land og þeir afla þessara upplýsinga hvort sem er, og þyrfti ekki annað til þess að birta skýrslur um þetta heldur, en að þeir gefi sínum yfirmanni, verðgæzlustjóranum, þær upplýsingar, sem þeir hvort sem er afla, og hann lætur síðan birta þær. Hins vegar álít ég, að ef fólk hefur eitthvert gagn af því að fá birtar þessar upplýsingar hér í Rvík eða í Hafnarfirði, að því er varðar byggingarvörurnar, þá komi þær að sama gagni fólki úti um landið. Og á þeim stöðum, svo sem í öllum kaupstöðunum, þar sem ekki eru nein vandkvæði á því að ná í þessar upplýsingar og ekki mundi hafa neinn aukakostnað í för með sér að birta þær jafnhliða hinum, þá sé ég ekki, hvað ætti að vera á móti því að gera það. Ég álít þess vegna, að það þurfi í raun og veru ekki að vera neinn ágreiningur um þetta og sízt af öllu að það þurfi að verða nokkuð til ásteytingar við Nd. eða standa í vegi fyrir því, að samkomulag geti náðst við hana um þessa breyt., — ekki neitt frekar um þá till., sem ég hef hér flutt, heldur en um þá till., sem meiri hl. n. er með. En það er bara um þetta mál eins og um fleiri mál, sem afgr. eru á síðustu dögum þingsins, að afgreiðsla nefnda er æði flaustursleg, og það var svo um þetta mál, eins og kom fram hér í deildinni við afgreiðslu á olíufrv., að það vannst ekki tími til þess í n.afgr. málið í raun og veru. Nefndarfundinum lauk, án þess að málið yrði afgr. Síðan er soðin saman till. af einum nm., sem meiri hl. n. skrifar svo undir. Þegar ég geri svo mínar aths. við hana, þá er náttúrlega ekki hægt að þoka því, af því að menn eru búnir að koma sér saman um eitthvað annað, án þess að það sé gert á nefndarfundi. Þannig er yfirleitt orðin afgreiðsla á þessum málum og þess vegna ekki hægt að ná samkomulagi jafnvel um svo einfalt mál sem hér er fyrir hendi, þar sem ágreiningurinn er þess eðlis, að undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti að vera hægt að ná samkomulagi um það, ef nokkurt tækifæri væri til þess að ræða málið.

Ég hef sem sagt lýst því, að munurinn á þessum tveimur till. er enginn annar en sá, að ég vil láta birtingu þessara skýrslna ná til allra kaupstaðanna, en ekki aðeins til Rvíkur, þ.e.a.s., að það sé mánaðarlega í öllum kaupstöðunum, og hvað snertir byggingarvörurnar, þá nái það ekki aðeins til Rvíkur og Hafnarfjarðar, heldur líka til allra kaupstaðanna. Að öðru leyti eru till. efnislega hinar sömu.