02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

42. mál, verðlag

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég á hér smábrtt. á þskj. 675, þar sem ég leyfi mér að leggja til, að á eftir 7. gr. frv. komi það bráðabirgðaákvæði, að birting nafna samkv. 3. gr. frv. skuli miðuð við vörusendingar, sem tollafgreiddar eru eftir gildistöku laga þessara. Það hefur ekki fengizt meiri hl. í n. fyrir flutningi þessarar till., og rökstuddi hv. frsm. það með því, að þessi l. tækju við af brbl., sem verið hefðu í gildi. Ég vil benda á það, að þetta ákvæði 3. gr. er ákaflega veigalítið. Það segir að vísu, að verðgæzlustjóri skuli birta nöfn þeirra, sem uppvísir eru að óhóflegri álagningu á vöru eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á, en það gefur enga hugmynd um verðlag vörunnar, heldur eingöngu um álagninguna. Þó að álagning á vöru sé álitin óhófleg, þá getur hún verið ódýrari en annars staðar, vegna þess að sá, sem hefur talið sig geta lagt meira á hana, hefur gert miklu hagkvæmari innkaup: Þar að auki stendur í frv. og eins í brbl., að ráðherra setji nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar skyldu. Ég hef ekki orðið var við, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafi ekki verið sett nein reglugerð um þetta efni eða fyrirmæli um það, og fyrr en eitthvað liggur fyrir um það, hvaða álagning teljist óhæfileg, sýnist mér mjög varhugavert, að birtingarákvæðinu verði beitt. Ég geri ráð fyrir, að það geti verið mikið matsmál, hvað sé hæfileg og óhæfileg álagning, og að það geti bókstaflega leitt til stórfelldrar skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð, ef farið er að birta nöfn manna án þess, að settur sé grundvöllur í reglugerð eða á annan hátt fyrir því, hvað skuli álítast óheimil eða óeðlileg álagning, þannig að ef mat dómstólanna væri annað, þá gæti þar skapazt grundvöllur fyrir skaðabótaábyrgð hjá ríkissjóði.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en þetta er svo viðurhlutamikið fyrir þá menn, sem fá nöfn sín stimpluð á þennan hátt, að það verður að mega gera kröfu til, að það séu einhverjar ákveðnar reglur um, hvað teljist hæfileg og óhæfileg álagning, áður en ákvæðinu verður beitt.