03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. var ekki viðstaddur í d., þegar þetta mál var hér til 2. og 3. umr. áður en það fór til Ed. Þá lét ég þess getið, að mig langaði til að fá upplýsingar um, hvað liði framkvæmd þeirra l., sem nú eru í gildi um þetta efni, sem hér er um að ræða. Þetta frv. er staðfesting á brbl. Það eru því gildandi l. um þetta efni, og í þeim l. segir m.a., að verðgæzlustjóra sé heimilt að birta nöfn manna, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu á vörur eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á, og að ráðherra setji nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar heimildar.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. viðskmrh.: Hefur hann sett reglur um framkvæmd þeirrar heimildar, sem nú er meiningin að gera að skyldu? Ef svo er, hverjar eru þá þær reglur? En ef svo er ekki, hvers vegna hafa þær ekki verið settar? Og svo enn fremur: Er von á einhverri birtingu nafna í samræmi við 2. gr. gildandi l. nú á næstunni?