16.01.1953
Neðri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

197. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv. því, sem hér er tekið til meðferðar, um breytingu á tollskránni, var vísað til fjhn. þessarar hv. deildar fyrir fáum dögum. Breytingar þær, sem um ræðir í frv., eru flestar eða nær allar til stuðnings iðnaðinum í einni eða annarri mynd. Þar er gert ráð fyrir verulegri lagfæringu á aðflutningsgjöldum á hráefnum og vörum til iðnaðarins og í einstöku tilfellum unnið að aukinni vernd iðnaðarins með hækkun á aðflutningsgjöldum af þeim vörum, sem erfitt er fyrir iðnaðinn að keppa við nema með slíkri fyrirgreiðslu. Allar þessar breytingar telur n. spor í rétta átt, því að að sjálfsögðu ber löggjafanum á öllum tímum að styðja að auknum og heilbrigðum iðnaði með þjóðinni og jafnframt að stilla aðflutningsgjöldum í hóf á þeim hráefnum og vörum, sem iðnaðurinn þarfnast á hverjum tíma.

Eins og tekið er fram í athugasemdum um frv., hafa við undirbúning þess verið tekin til ýtarlegrar athugunar öll erindi um breytingar á tollum, sem borizt hafa frá iðnfyrirtækjum og samtökum iðnaðarins og iðnaðarmanna. Einnig hefur verið athugað gaumgæfilega bráðabirgðanál., sem borizt hefur frá milliþn. í iðnaðarmálum, og í samráði við hæstv. iðnmrh. haft samband við Félag íslenzkra iðnrekenda um það, hvaða atriði mest áherzla væri lögð á í þessu sambandi.

Iðnsýningin á s.l. hausti færði okkur heim sanninn um það, hvað iðnaðurinn íslenzki hefur náð gífurlegum framförum á tiltölulega skömmum tíma. Á ýmsum sviðum má telja, að hann standi með iðnaðarvöru sína jafnfætis því bezta, sem til þekkist hjá öðrum þjóðum. Vissulega verðskulda þeir einstaklingar og fyrirtæki, sem forustu hafa haft í þessum efnum, mikið þakklæti og virðingu fyrir framsýni, atorku og áhuga, sem þeir hafa lagt af mörkum til að ná þeim áfanga í iðnaðarmálum þjóðarinnar, sem við njótum nú góðs af á ýmsan hátt og vissulega mun eiga ríkan þátt í því að færa þjóðina fram á leið til manndóms og þroska á næstu áratugum.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, hafa á undanförnum þingum farið fram nokkrar lagfæringar á tollskránni í samræmi við réttmætar óskir í þeim efnum. Í því frv., sem hér er til meðferðar, eru ívilnanirnar þó mestar og margvisleg fyrirgreiðsla til handa iðnaðinum. Eins og ég hef áður tekið fram, telur fjhn. þetta réttmætt, og hefur hún því á þskj. 539 gefið út nál., þar sem hún samhljóða mælir með samþykkt frv.

Að þessum umræðum loknum vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að frv. verði vísað til 3. umr.