10.10.1952
Neðri deild: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Þetta frv. er hér lagt fram til staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem gefin voru út 30. maí þ. á. Eins og kunnugt er, þá voru hækkaðir útláns- og innlánsvextir Landsbanka Íslands í byrjun aprílmánaðar s.l., og kom þá fljótt í ljós, að sú hækkun innlánsvaxta, sem ákveðin var af bankanum, mundi valda miklum erfiðleikum fyrir sparisjóðina í landinu, þar sem þeir, eins og kunnugt er, lána mjög mikið af sínu fé gegn fasteignaveði og í lögum er ákveðið, að ekki megi taka hærri vexti en 6% af slíkum lánum. Þegar innlánsvextir eru hækkaðir hjá aðallánastofnun landsins, þá er ekki hægt annað fyrir sparisjóðina, en að greiða svipaða innlánsvexti, ef þeir vilja ekki missa spariféð úr höndum sér.

Það komu mjög eindregin tilmæli frá öllum helztu sparisjóðum í landinu, að þessu ákvæði laganna yrði breytt og heimilað yrði að taka hærri vexti af lánum, sem tryggð væru með fasteignaveði, en 6%, eins og ákveðið er í lögum. Talið var, að ekki væri hægt undan því að aka að gera þessa breytingu, ef starfsemi sparisjóðanna átti ekki að verða fyrir miklum hnekki.

Í sambandi við síðustu setningu 1. gr. l., sem hljóðar svo: „Aldrei má samt taka hærri vexti samkvæmt þessari heimild en Landsbanki Íslands reiknar sér á sama tíma“ — þá hefur verið vakið máls á því, að þetta ákvæði gæti reynzt óheppilegt að því leyti, að þá yrðu þeir vextir, sem ákveðnir væru af lánum á hverjum tíma, að fylgjast með útlánsvöxtum Landsbankans og þeim breytingum, sem þeir vextir tækju. Mér finnst, að vel gæti komið til greina að kveða nánar á um þetta efni, ákveða t.d., að lán skuli halda þeim vöxtum áfram, sem þeim upphaflega eru ákveðnir, þó að þau lán, sem veitt eru svo eftir að breyting verður, að sjálfsögðu fylgi ákvæðum laganna um það, að vaxtafóturinn fylgi því, sem er hjá Landsbankanum á þeim tíma, sem lánið er veitt.

Að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.