29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

197. mál, tollskrá o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, þá boðaði ég í n. sérstaka brtt., sem hefur nú verið útbýtt á þskj. 650. En hún hljóðar svo, að aftan við textann í nr. 85 í 63. kafla bætist: svo og hálfunnar blikkdósir undir niðursuðuvörur. — Ég vil leyfa mér að skýra þetta mál nokkuð fyrir hv. deild.

Eins og tollalöggjöfin er nú, er greitt af þessu hálfunna efni, sem að nokkru leyti er þá hráefni og ekki fullunnin vara, 7% í þungatoll og 30% í verðtoll. Ég held, að það sé bezta lýsingin á því, hversu þungur skattur þetta er fyrir þá iðnrekendur í landinu, sem verða að búa við þetta, til varnar fyrir aðra iðnrekendur í landinu, að ég lesi hér upp bréf í sambandi við innflutninginn á einu vörupartíi á s.l. ári. Þar segir svo:

„Á s.l. ári fluttum við inn fyrir niðursuðuverksmiðjuna á Bíldudal frá Ameríku 250 þús. hálfunnar eins punds dósir, sem voru lakkaðar innan, til þess að verja matvæli þau, er pakka átti í dósirnar, fyrir hugsanlegum skemmdum af tininu. Dósir þessar kostuðu fob. New York 143.564.43 ísl. krónur. Tollur, þar með talinn vörumagnstollur, verðtollur, söluskattur o.fl., öll aðflutningsgjöld, þ.e.a.s. öll aðflutningsgjöld ríkisins, námu samkv. tollreikningi hreppstjórans 71.965.93 kr., eða réttum 50% af fob.-andvirði dósanna. Flutningsgjald dósanna New York via Reykjavik til Bíldudals 20.394 kr. Umskipunarkostnaður og uppskipun á Bíldudal nam 4.603 kr.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að við fórum fram á það við hæstv. fjmrn., að það lækkaði þessi mjög svo ósanngjörnu aðflutningsgjöld af dósunum að minnsta kosti um helming, þar sem hér væri alls ekki um fullunna vöru að ræða, heldur tæplega hálfunna, eins og kom fram á reikningum frá hinu erlenda firma. Og talsverður kostnaður var að fullvinna dósirnar, þannig að þær séu hæfar til niðursuðu. Með bréfi, dags. 14. nóv. s.l., synjaði rn. þessari beiðni vorri, og höfum við því orðið að greiða fullt gjald af dósunum.“

Nú er þessu máli þannig háttað, að hér í Rvík er fullkomin dósaverksmiðja, sem mun vera eina dósaverksmiðjan á landinu, sem vinnur allar tegundir dósa að fullu. Ef keyptar eru dósir fullunnar frá þessari verksmiðju, eða þær tegundir dósa, sem hér um ræðir, þá er flutningskostnaðurinn frá Reykjavík til hafna úti um land svo að segja jafnmikill og við að flytja dósirnar inn frá útlandinu. Nú er það vitað, að þessi verksmiðja vinnur einnig mjög mikið úr hálfunnu efni, á sama hátt og gert er í hinum öðrum niðursuðuverksmiðjum, og hún verður þar af leiðandi einnig að greiða þennan sama toll. Það væri því síður en svo að íþyngja þessu fyrirtæki, þótt tollinum sé létt af, vegna þess að það mundi verða hagur fyrir þetta fyrirtæki að fá tollinum létt af því magni, sem þeir flytja inn hálfunnið. Þess utan er það upplýst í gegnum margra ára reynslu, að hálfunnu dósirnar eru svo að segja ekkert dýrari en efni, sem er algerlega óunnið. Þess vegna á þetta að sjálfsögðu ekki að koma undir annan tollaflokk, heldur en efnið sjálft. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að verksmiðjan hér í Rvík vinnur svo að segja allar dósir fyrir mjólkuriðnaðinn í landinu. Þessi hái tollur er því beinn skattur á bændur landsins, sem framleiða mjólk til niðursuðu. Ég vil einnig í þessu sambandi leyfa mér að upplýsa, að þetta er svo stórkostlegur útgjaldaliður fyrir verksmiðjurnar úti um land, að þær, sem byggja að verulegu leyti á innanlandsmarkaðnum, þola bókstaflega ekki að greiða þennan toll, og reynslan hefur sýnt, að það hefur orðið að hætta starfrækslu, svo sem í Ólafsfirði. Þar hefur alveg orðið að hætta starfrækslu á innlenda markaðnum, m.a. vegna þess, hversu umbúðirnar fyrir innlenda markaðinn eru gífurlega tollaðar.

Ég vil taka það fram, að þessi barátta mín fyrir þessu máli snertir ekki mig persónulega, vegna þess að nú orðið hefur fyrirtækið verið selt. En ég get alveg fullyrt það af minni reynslu, að ef ekki væri hægt að laga þessi mál, þá mundi þetta stórkostlega draga úr þeim verkefnum, sem m.a. verksmiðjan á Bíldudal hefur með höndum. En hún hefur undanfarin ár, allt síðan 1938, veitt bæði kvenfólki, unglingum og börnum atvinnu allt árið í kring og einna mest á þeim tíma ársins, þegar minnst hefur verið að gera við önnur verkefni á staðnum. Það yrði því mjög sorglegt, ef verksmiðjan þyrfti að hætta af þeim ástæðum, að ekki væru sanngjarnir tollar á hráefni til hennar eins og á hráefni til annarra verksmiðja í landinu.

Ég hef einnig hér undir tölulið 2 borið fram aðra till., þ.e. að endurgreiða verðtoll af hálfunnum dósum, sem fluttar hafa verið inn eftir 1. jan. 1952, að svo miklu leyti sem hann er hærri, en ákveðið er í lögum þessum. Þessi síðari till. fellur að sjálfsögðu niður, ef fyrri till. er ekki samþ., en verði fyrri till. samþ., sem ég vænti fastlega að verði, þá er það eðilleg afleiðing, að endurgreiðsla fari fram á þeim tollum, sem hafa verið teknir þannig á s.l. ári.

Ég skal að síðustu leyfa mér að upplýsa, að þessi tollur allur er endurgreiddur, ef um það er að ræða, að umbúðirnar séu fluttar aftur út úr landinu, eins og einnig kom fram í hv. n.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar á þessu stigi, en vænti þess, að þessi till. mín verði samþ., en ég vil hins vegar gjarnan verða við tilmælum hv. form. og þykir ekki nema eðlilegt að taka till. aftur til 3. umr. Þá gefst n. tækifæri til þess að ræða við viðkomandi aðila og nánar við tollstjóra og skrifstofustjórann, þetta hafði nú verið rætt við þá raunverulega, meðan þeir voru hjá n., og lýstu þeir raunverulega því báðir yfir, að þessi tollur væri einkum og sérstaklega settur á til verndar þessu ákveðna fyrirtæki hér í Rvík, en það tel ég alveg rangt að setja tollinn á eingöngu til verndar fyrirtæki, en íþyngja jafnframt stórkostlega öðru iðnaðarfyrirtæki. Ég vil því leita allrar samvinnu við n. um að fá þetta mál upplýst og fá samkomulag um málið og skal því gjarnan verða við tilmælum hv. formanns um að taka till. aftur til 3. umr.