29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

197. mál, tollskrá o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki heldur verja neinum tíma í að ræða brtt. mína. Það mun hafa verið rætt í n., eins og hv. form. minntist á. En ég vil aðeins benda á, að ef hægt er að lækka vöruna í landinu um tilsvarandi upphæð eins og tollurinn er, þá er að sjálfsögðu gert hvort tveggja í senn, hvað sem liður hinni erlendu innfluttu vöru, að það lækkar verðlag í landinu, — og það er eitt af því, sem við erum að stríða við annars vegar, — og það skapar miklu meiri möguleika fyrir viðkomandi aðila til að halda áfram rekstrinum, og það er höfuðatriðið.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við till. um lækkun á tolli, þá vil ég taka það fram hér, vegna þess að það hefur ekki komið fram við umr., að það var upplýst hjá n., að efni í skyrtur væri tollað með 20%, og okkur, sem stóðum að þessari till., fannst, að það væri ekki óeðlileg eða ósanngjörn vernd, sem viðkomandi aðilum væri veitt, að þeim væri leyft að hafa þarna 20% álagningu á innfluttar skyrtur til þess að mæta þeim kostnaði, sem þeir kynnu að hafa hér fram yfir framleiðslu annars staðar á slíkri vöru. Nú hefur einn af þessum aðilum rætt við mig í dag og baldið því fram, að á öllum öðrum fatnaði væri 50% álagning, en hér í frv. stendur á bls. 2, tölul. 29, 9c, að allur fatnaður nema skófatnaður sé tollaður með 7 aura vörumagnstolli og 40% verðtolli. Það mun nokkru hafa ráðið hjá n. að gera hér samræmingu á.

Nú er þess náttúrlega ekki að vænta, að þn. fari svo í gegnum alla tollskrána, að hún hafi fullvissað sig um það, hvort þar kunni að vera einhverjir aðrir liðir en hér standa, en það kom ekki fram hjá tollstjóra eða hjá skrifstofustjóranum við umr. við þá annað, en að þessar upplýsingar, sem hér eru, væru réttar. Ef hins vegar hitt væri réttara, að allur annar fatnaður væri tollaður hærra, þá geri ég ráð fyrir, að hv. frsm. eða hv. form. n. vildi helzt taka þessa till. til baka til 3. umr. til þess að rannsaka það nánar. En sé það rétt, sem við höfum fengið upplýsingar um, að það sé aðeins á manchettskyrtum þetta hærri tollur fram yfir annan fatnað, þá ætti það sízt að vera ósanngjarnt, að þessi till. væri samþ. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram í sambandi við málið að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh.