23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í l. frá 1933 er ákveðið, að frjálst skuli að taka í vexti af skuld allt að 6% á ári, sé skuld tryggð með veði í fasteign eða handveði. Í aprílmánuði s.l. voru innlánsvextir og almennir útlánsvextir Landsbanka Íslands og ýmissa annarra lánsstofnana hækkaðir nokkuð, og hæstv. ríkisstj. taldi þá óhjákvæmilegt að veita heimild til þess, að teknir yrðu nokkru hærri vextir af skuldum, þótt tryggðar væru með veði í fasteign eða handveði, heldur en ákveðið er í l. frá 1933. Gaf því stjórnin út brbl. um þetta efni 20. maí s.l., og eru þau um það, að heimilt sé að taka allt að 7% á ári í vexti af slíkum lánum, ef Landsbanki Íslands áskilur sér svo háa vexti. En hins vegar er engum heimilt að taka hærri vexti af slíkum lánum, heldur en Landsbanki Íslands reiknar sér á hverjum tíma.

Þetta mál hefur verið til athugunar í fjhn. deildarinnar, og hefur meiri hl. n. gefið út álit sitt á þskj. 99. Leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 43. Einn þeirra manna, sem eru í meiri hl., hv. 8. landsk. þm., skrifar þó undir nál. með fyrirvara. Kom það fram í n., að hann virtist telja, að ekki hefði átt að hækka vextina eins og gert var, en lýsti sig þó fylgjandi því, úr því að það hefði verið gert, að þetta frv. yrði samþ.

Það mun m.a. hafa valdið nokkru um það, að hæstv. ríkisstj. gaf út þessi brbl., að það kom í ljós, að sparisjóðir víðs vegar á landinu hefðu lent í fjárhagsvandræðum, ef þeim hefði ekki verið gert mögulegt að taka nokkru hærri vexti, en áður var leyft að taka, þar sem þeir urðu að sjálfsögðu að hækka vexti af innlánsfé eins og bankarnir gerðu á þessu ári.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð af hálfu meiri hl., — ef til vill gerir hv. 8. landsk. grein fyrir sínum fyrirvara, ef hann telur ástæðu til, — en einn nm., hv. 2. þm. Reykv., hefur gefið út sérálit á þskj. 105 og leggur til, að frv. verði fellt. Hann virðist telja auðvelt að lækka alla vexti, jafnvel þó að skortur sé á fjármagni til margra hluta, og hefur um það sínar sérskoðanir, sem hann að líkindum gerir einhverja grein fyrir hér við umr. málsins.