16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki fara að tala langt mál hér, þó að ýmislegt, sem fram hefur komið hér, einkum í ræðu hv. þm. Barð., gæti gefið tilefni til þess. Ég sé þó ekki ástæðu til þess.

Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um það, sem hv. 4. þm. Reykv. tók hér fram. Hann lýsti stuðningi sínum við frv. og tók það fram, að hér væri um mikla endurbót á almannatryggingalöggjöfinni að ræða, og stakk það mjög í stúf við það, sem hv. þm. Barð. lauk máli sínu á, en mér virtist hann telja, að hér væri um tilræði við tryggingalöggjöfina að ræða, sem hlyti að leiða til þess, að hún eiginlega yrði að engu á næstu árum, svo að það er allmikill meiningamunur á milli þessara ágætu þdm. um þetta atriði.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði að vísu, að ef Tryggingastofnunin hefði verið einráð um það, hvernig 14-15 millj. kr. nýjum tekjum fyrir Tryggingastofnunina yrði varið, þá væri hann ekki viss um, að þessi leið hefði verið farin á þennan hátt, sem gert hefði verið. Þetta get ég vel skilið. Það er alltaf meiningamunur um þessa hluti. En Tryggingastofnunin undirbjó nú þetta frv. eins og það liggur fyrir og það án þess að gera nokkrar ákveðnar, sterkar till. um aðra leið í málinu eins og komið var, þó að mér væri ljóst, að forstjóri trygginganna, hv. 4. þm. Reykv., frá upphafi hefði nokkuð aðra skoðun á málinu. Ég veit það, að þessi hækkun fyrir tryggingarnar, hækkun á iðgjöldum, hækkun á framlagi sveitarsjóða og ríkissjóðs, atvinnurekenda o.s.frv. er ekkert gamanmál. En bæði hv. 4. þm. Reykv. og eins hv. þm. Barð. tala um þetta mál eins og hér hafi aðeins af hálfu ríkisstj. verið lögð fram till. um það að eyða í fjölskyldubætur þeirri upphæð, sem hér er um að ræða, og að ekkert annað hefði skeð. En hvað hefði skeð gagnvart tryggingunum, ef það hefði orðið stórfelld grunnkaupshækkun og allar afleiðingar af því? Það er ekki til neins að tala um málið á þessum grundvelli. Það er eins og þessir hv. þdm. hafi hálft í hvoru dottið niður til okkar úr Mars eða einhvers staðar annars staðar að eftir áramótin núna og ekkert áttað sig á því, hvað var að gerast hér síðustu vikurnar fyrir áramótin. Það var þetta, sem ríkisstj. stóð líka frammi fyrir í þessu máli og það gagnvart tryggingunum eins og öðru í sambandi við þetta, að það var alveg greinilegt, að málinu mundi ekki ljúka á annan veg en þann, að þarna yrði um veruleg útgjöld að ræða fyrir tryggingarnar, á hvern hátt sem það kæmi fram. Ég ætla ekki að fara að rökræða það hér, hvort það hefði verið heppilegra fyrir þær, þó að almenn grunnkaupshækkun, með öllum sínum afleiðingum, hefði orðið, heldur en sú leið, sem farin er. Ég held, að það sé ekki rétt að gera það í sambandi við 1. umr. þessa máls núna. Það væri eðlilegra, að það gerðist á annan hátt hér á hinu háa Alþ.

Hv. 4. þm. Reykv. tók það fram, að hann hefði álitið, að þar sem svona mikil aukin gjöld væru lögð á tryggingarnar, þá ætti að breyta því hlutfalli um greiðslur, sem verið hefði. Það hefur verið skoðun núverandi ríkisstj., að það kæmi ekki til mála að breyta því hlutfalli elns og nú er, og það verður að bíða eftir þeirri almennu endurskoðun, sem á að fara fram á tryggingalöggjöfinni lögum samkv. nú eftir skamman tíma, en það er nú mjög farið að styttast til þess tíma, er sú endurskoðun á að fara fram, svo að það er ekki langt að bíða hvað það atriði snertir.

Hv. þm. Barð. lagði hér fram allmargar spurningar. Ég treysti mér nú kannske ekki til að svara þeim öllum, að minnsta kosti ekki á fullnægjandi hátt, en ég vil þó segja nokkur orð út af því.

Hv. þm. talaði um, að með þessum ákvörðunum ríkisstj. og þeim þætti, sem hún hefði átt í þessu máli varðandi launadellurnar milli vinnuþega og atvinnurekenda, þá hefði hún unnið á þann hátt, að hún væri með því að grafa rætur undan þingræðinu. Ég verð nú að játa það, að mig algerlega furðar á þessum ummælum hv. þm. Barð. Ekkert veit ég náttúrlega um það, hvort hann hefur ekkert vitað um þetta mál eða gang þess, meðan á því stóð, þó að ég verði að láta þá skoðun í ljós, að ég er nokkuð undrandi yfir því, ef það hefur algerlega farið fram hjá honum. En ríkisstjórn, hvaða ríkisstjórn sem er, verður oft að taka ákvarðanir fyrir sig, en samkv. þingræðisreglum mun hún standa við þær, og það er ég viss um, að þessi ríkisstj. gerir. Hún mun vissulega taka afleiðingum af því, ef Alþ. fellst ekki á gerðir hennar í þessu máli, og ég get sagt hv. þm. Barð. það, að hvorki hann né aðrir munu þurfa að draga ríkisstj. hér út úr þingsölum eða úr stólunum hérna. Hún mun áreiðanlega taka afleiðingunum af því, ef þingið er á móti henni í þessu máli, og það er elnmitt hið rétta þingræði á hverjum tíma, að ríkisstj. sé ávallt reiðubúin til að taka afleiðingunum, ef hún gerir hluti, sem löggjafarvaldið getur ekki fallizt á. Þess vegna tel ég mjög óviðeigandi af hv. þm. Barð. að tala á þann hátt, að með þessu hafi ríkisstj. verið að grafa rætur undan þingræðinu, og viðhafa önnur stóryrði á svipaðan hátt. Það má náttúrlega alltaf um það deila, hvort rétt hefði verið, að almennar umr. hefðu farið fram um þetta mál hér á Alþ., eins og hv. þm. Barð. sagðist álíta að hefði átt að gera. Það er atriði, sem alltaf má deila um, á hvern hátt slíkt fer fram.

Hv. þm. spurði um það, hvort það væri tilgangurinn, að hér væri um framtíðarlöggjöf að ræða eða ekki. Frv. ber það nú með sér, að það er ætlazt til, að þetta frv. eða þau ákvæði, sem í því eru, gildi á sama hátt og önnur ákvæði í almannatryggingalöggjöfinni, en vitanlega eru þau undirorpin þeim almennu ákvæðum um endurskoðun, sem nú stendur alveg fyrir dyrum, og vitanlega eru þau frekar sett inn, þó að þetta væri athugað dálítið fljótlega, af því að vitað var, að Alþ. sjálft hafði ákveðið, að þessi endurskoðun skyldi fara fram innan skamms. Ég sé nú eiginlega ekki ástæðu til að segja annað um það.

Þá spurði hv. þm., hvernig ríkisstj. ætlaði að tryggja sveitarsjóðum tekjur til að standast þessi útgjöld. Það er í raun og veru ekki ríkisstjórnarinnar að gera það. Það er Alþingis frekar, og Alþ. hefur þegar gert ráðstafanir í þessu efni og í samráði við ríkisstj. með skipun milliþn. í skatta- og tollamálum, ekki einungis ríkisins, heldur sveitarfélaganna líka. Þessi n. hefur nú starfað á s.l. ári, en hefur ekki enn lagt fram till. Og ég veit ekki, á hvern hátt ætti að taka það mál annan en að endurskoða skattalöggjöfina og sveitarstjórnarlöggjöfina, og þessi endurskoðun stendur yfir, eins og við vitum.

Hvaða tryggingu er hægt að veita atvinnurekendum? spyr hv. þm. einnig. Það voru atvinnurekendur, sem samþ. þetta samkomulag, og vildi ég því leyfa mér að óska eftir, að hann legði þessa spurningu fyrir atvinnurekendurna sjálfa, a.m.k. er ég þess ekki umkominn að svara fyrir þá í þessu tilliti. Þessu var ekki neytt upp á neinn aðila af hálfu ríkisstj., síður en svo. Þetta var lagt fram, ef það gæti orðið til þess að leysa það vandræðaástand, sem við öll vitum að var hér ríkjandi meðan verkfallið stóð yfir.

Þá er eitt atriði, sem hefur verið komið hér inn á, — ég man ekki, hvort það var af báðum ræðumönnum, en að minnsta kosti af hv. þm. Barð., út af þessum auknu fjölskyldubótum vegna barna. Hv. þm. tók það fram, að það væri ekki ástæða við svona miklar bætur að láta þær ná til þeirra, sem væru bezt launaðir og hefðu hæstar tekjur. Þetta er vitanlega sjónarmið, sem er mjög athugunarvert og mikið má ræða um út af fyrir sig, en hitt er nú víst, að grundvöllur tryggingalöggjafarinnar alveg frá grunni er sá, að hér sé ekki um beina framfærslu að ræða, þannig að misjafnlega sé skipt á milli manna, þeir séu látnir sitja fyrir, sem versta hafa aðstöðuna, heldur er hér um það að ræða, að það eru einstaklingarnir sjálfir, sem kaupa sér þessa tryggingu og eiga síðan að fá hana óskerta, hvernig svo sem efnahagsástæður þeirra eru. Þetta er sá mikli meginmunur á milli framfærslu og tryggingastarfsemi, og ég vil taka það fram, að ég er að minnsta kosti ekki við því búinn enn að hverfa frá þessum grundvelli. Vitanlega verður þetta eitt af þeim atriðum, sem sjálfsagt verður nákvæmlega að athuga við endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, hvort það eigi að gera einhverjar breyt. á þessu í vissum tilfellum eða ekki, og er langt frá því, að ég segi, að það gæti ekki komið til athugunar, að einhver væru þau svið innan trygginganna, sem það gæti komið til greina að breyta að einhverju leyti frá. Ég álít, að þegar hv. þm. Barð. lætur svo ummælt, að hér sé verið að vega að almannatryggingunum og þessi nýju ákvæði, sem hér er um að ræða, verði til þess að gera löggjöfina að meira eða minna leyti ómögulega, þá sé allt of mikið mælt og hv. þm. trauðla meini þetta, þó að hann slái þessu nú fram þannig.

Hv. 4. þm. Reykv. viðurkenndi það, að eitt það allra nauðsynlegasta í tryggingamálum væri að tryggja barnafjölskyldur, enda virðist mér það ljóst. Og mér hefur alltaf virzt í gegnum alla okkar löggjöf, skattalöggjöf og annað slíkt, að þar hafi verið vegið allt of hart að einmitt barnafjölskyldunum. Það eru þó einmitt barnafjölskyldurnar, sem við mesta erfiðleika hafa alltaf að etja fjárhagslega og nauðsynlegast er að aðstoða í þjóðfélaginu. Við verðum að treysta því, og ekki sízt í okkar stóra landi, að það fólk í landinu, sem við eigum mest að þakka, sé fólkið, sem er að ala upp börnin og fjölga fólkinu. Til hvers værum við að berjast hér í okkar stóra landi, ef við hefðum ekki von um það, að þjóðinni fjölgaði allverulega til þess að byggja þetta stóra land betur en við gerum nú og nytja það betur, og þess vegna álít ég, að einmitt þessi leið sé réttmæt. Það skal viðurkennt, að það er kannske hægt að ganga of langt á þessari leið, samanborið við aðra. Og ég þori ekkert að fullyrða um það, að hér sé algerlega verið á réttum punkti hvað þetta atriði snertir og að það geti ekki verið, að einhverjir aðrir þættir þarna séu nú orðnir of veikir, eins og t.d. það, sem hv. þm. Barð. nefndi og hann sagðist hafa gengið til móts við mig um fyrir áramótin, að skerðingarákvæðið gagnvart gamla fólkinu yrði látið haldast þangað til endurskoðun tryggingalöggjafarinnar færi fram. Ég er honum þakklátur fyrir þá afstöðu, sem hann tók þá. Skal ég viðurkenna, að það eru engin brigðmæli frá hans hendi, þó að hann nú taki upp allt aðra afstöðu gagnvart því ákvæði, því að það var gert með það fyrir augum, að ekki yrðu frekari breyt. gerðar á löggjöfinni. En ég mun nú beita mér á móti því, að farið verði að taka það mál upp, eftir því sem ég get hér á Alþ., þrátt fyrir það atriði.

Ég lofaði því áðan, að ég mundi ekki tala mjög langt mál að þessu sinni um þetta, og sé þá ekki ástæðu til þess að ganga lengra í því. Ég vil taka það fram og beina því til hæstv. forseta, að það stendur nú svo illa á, að ég þarf endilega að vera kominn annað klukkan 3, og ef hv. þdm. hafa hér eitthvað að segja, sem þeir vilja að ég hlusti á, þá mundi ég nú frekar óska eftir því, að umr. yrði frestað. Ég geri ekki ráð fyrir, að það skipti miklu máli, hvort henni er lokið nú eða ekki.