16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

199. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af ummælum hæstv. ráðh. þess efnis, að Tryggingastofnunin eða ég hefði ekki lagt fram neinar ákveðnar, sterkar till. um breyt. á þessum ákvæðum, sem í samningnum eru. Ég vil ekki neita því, að mig furðar á þessum ummælum hæstv. ráðh. Það er rétt, að ég annaðist það að semja þessar nýju greinar ásamt skrifstofustjórum stjórnarráðsins, en mér var tjáð sem bein fyrirmæli frá hæstv. ríkisstj., að okkar verkefni væri ekki annað, en að setja upp í frumvarpsform efnið í þeim samningi, sem hæstv. ríkisstj. var búin að ganga frá, og ekki væri óskað eftir því, að till. til breyt. kæmu fram. Ég skildi það svo, að það þýddi ekki að bera fram neinar breyt., því að þetta væri fastmælum bundið með þeim samningi, sem hæstv. ráðh. gat um. Mig furðaði því á ummælum hæstv. ráðh. um þetta efni.

Hæstv. ráðh. spyr, hvort grunnkaupshækkun hefði verið heppilegri fyrir fjárhagsafkomu trygginganna heldur en þessar breyt. Það vil ég ekki ræða neitt um, það er í sjálfu sér ástæðulaust. Það má taka það á ýmsa vegu. En í sambandi við þau ummæli vil ég segja, að ég verð að harma það, að það skyldi nú þurfa til verkfalls að koma í 19 daga til þess að fá það, sem fram fékkst, þ.e.a.s. breyt. á tryggingalöggjöfinni, sem er hreint löggjafaratriði, og breyt. á verðlaginu, sem er hreint framkvæmdaratriði.

Það var hvort tveggja á valdi hæstv. ríkisstj. að undirbúa, án þess að til verkfalls þyrfti að koma. Ég verð að harma það, að þess þurfti, þó að ég út af fyrir sig telji, að sú niðurstaða, sem fékkst, sé mjög sæmileg, og eins og ég áðan sagði, að þær breyt. í heild sinni, sem gerðar eru á tryggingalöggjöfinni, séu tvímælalaust til hagsbóta fyrir almenning í landinu og aukið svið trygginganna og þær bættar á margan hátt. Úr því skal ekkert dregið.

Þá vil ég einnig geta þess út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um ummæli mín, að ekki væri eðlilegt að hafa sömu reglur um öflun tekna nú eftir þessa breyt. eins og áður, að till. komu engar fram frá mér eða tryggingaráði um breyt. á þessu af sömu ástæðu og ég áðan greindi. Það voru bein fyrirmæli frá hæstv. ríkisstj., að fjárhagsgrundvellinum yrði ekki breytt, þ.e.a.s., að ekki yrði breytt reglunum um, í hvaða hlutfalli kostnaðurinn skyldi borinn af þeim aðilum, sem nú standa undir honum. Eins og hæstv. ráðh. veit, þá lágu fyrir fyrirmæli frá ríkisstj. um það efni.

Hv. þm. Barð. taldi vafasamt, að atvinnurekendur gætu risið undir þeim auknu gjöldum, sem þessi löggjöf legði á þá. Ég vil nú upplýsa í því sambandi, að það er nú tiltölulega litið. Tryggingastofnunin áætlar, að það séu eitthvað rösklega 21/2 millj. kr., sem framlag atvinnurekenda samkv. 112. gr. hækkar með þessu samkomulagi.

Út af ummælunum um skerðingu og fyrirspurn hv. þm. Barð. í því sambandi vil ég segja, að ég er alveg sammála hæstv. ráðh. í því. Ég held, að það væri mjög óheppilegt, ef tekin yrði upp í sambandi við fjölskyldubæturnar bein tekjuviðmiðun. En ekki get ég fellt niður að benda á, að eftir þá hækkun, sem nú er gerð á þessum bótum, þá stingur það mjög í augu að halda óbreyttum eidri skerðingarákvæðum varðandi greiðslu elli- og örorkulífeyris, því að eftir að búið er að gera þær breyt. á greiðslum með börnum, sem í þessu frv. felast, þá er þegar orðið mjótt bilið þar á milli hvað upphæðir snertir, en gamla fólkið er þó búið að búa langan aldur og leggja starf sitt og fjármuni til ríkisheildarinnar og ætti því ekki að hafa lakari aðstöðu hvað þetta snertir en hinir, sem eru að ala börnin upp.

Ég skal svo, þar sem hæstv. ráðh. er tímabundinn og fleiri á mælendaskrá, láta þetta nægja, en aðeins endurtaka það, að það má enginn skilja svo orð mín og ábendingar í sambandi við frv., þó að ég telji, að ég hefði kosið, að fénu væri varið á annan hátt og annan veg, að ég telji ekki að með þessu séu tryggingarnar, skoðað frá sjónarmiði þeirra, sem þeirra njóta, stórum bættar frá því, sem áður var.