16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

199. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að lengja þessar umr., enda þarf ég að fara burt. En út af síðustu ummælum hv. þm. Barð. verð ég þó að endurtaka það, sem ég áðan sagði, að þau ummæli hans eru algerlega órökstudd, að vegið hafi verið að þingræðinu með gerðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hv. þm. ber það saman að gefa út brbl. meðan þing situr, sem allir vita að ekki er leyfilegt samkv. stjórnarskránni, og að ríkisstj. verði að gera einhverja samninga eða leggja fram till. varðandi samninga, eins og hér hefur verið gert, meðan þingið situr. Þetta er náttúrlega sitt hvað, eins og hv. þm. veit. Annað er brot á stjórnarskránni, en hitt er hvergi bannað og væri ekki hægt að banna, því að hvað ætli það séu margir samningar, sem ríkisstj. verður að gera iðulega meðan Alþ. situr? Hitt er allt annað mál, að ég hygg, að ríkisstj. geri aldrei slíka hluti nema hafa samstöðu með þeim flokkum, sem hún styðst við í þinginu, þannig að hún viti nokkurn veginn, að hún hafi þingræðisvald á bak við sig. Og það var það, sem ég sagði við fyrri ummælum hv. þm., að ef ríkisstj. hefði brotið af sér, þá væri hún nú komin hér til þess að standa fyrir gerðum sínum hér á Alþ. og mundi víssulega taka afleiðingum af því, ef Alþ. væri ekki sammála henni, eða meiri hluti Alþingis, hvað þetta snertir. — Það var aðeins þetta, sem ég vildi taka fram.