23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af ríkisstj., og það, sem er nýmæli í því, eru ákvæði út af því samkomulagi, sem gert var í vinnudeilu þeirri hinni miklu, er stóð hér yfir í desembermánuði s.l. Í desembermánuði, eða rétt fyrir áramótin, höfðu verið samþykkt hér lög um tryggingamál, nr. 12 29. des. 1952. Það hefur þótt hentugra, sökum þess að þessi lög voru svo nýsamþykkt og ekki staðfest, að fella hinar nýju breytingar inn í þau lög eins og þau voru, og er því ekki allt þetta frv. nýmæli, en nýmælin felast í 3., 5. og 6. gr. frv., og eru það aðeins þau atriði, sem þar er að finna, sem n. sú, heilbr.- og félmn., sem með þetta mál fer, hefur unnið að.

Aðalefni frv. felst í 3. gr., þar sem er ákvæðið um hinar auknu fjölskyldubætur, þ.e., að fjölskyldubætur skuli nú greiðast með 2. og 3. barni, í staðinn fyrir það, að fram að þessu hafa fjölskyldubætur ekki verið greiddar fyrr en með 4. barni. Þessar fjölskyldubætur eru nefndar því nafni, þegar fyrirvinna heimilisins er karlmaður, en það er nákvæmlega það sama sem um er að ræða, þar sem talað er um mæðralaun, en aðeins eru þessar bætur kallaðar mæðralaun, þegar fyrirvinna heimilisins er móðirin ein. Ég vil segja þetta til skýringar, að fjölskyldubætur og mæðralaun er í eðli sínu nákvæmlega það sama, heitir aðeins mismunandi nöfnum, en fjölskyldubætur hafa ekki fram að þessu verið greiddar konum, sem vinna einar fyrir börnum sínum, þar eð þær hafa fengið aðrar tekjur frá Tryggingastofnuninni og ekki talið eðlilegt, að fjölskyldubæturnar væru greiddar einnig til þeirra, m.ö.o. barnalífeyririnn.

N. ræddi mikið nokkra grundvallarbreytingu á frv. elns og það liggur fyrir á þskj. 519, sem var um það að láta ekki hinar nýju fjölskyldubætur ná til allra, þ.e. miða þessar fjölskyldubætur við tekjur. Það mun flestum nm. hafa þótt miklu eðlilegra, að sá háttur væri á hafður, og í rauninni talið það eðli málsins samkvæmt. En það kom í ljós í viðræðum, sem n. átti við forsrh., að ríkisstj. er mjög ákveðin í því sjónarmiði sínu, að hér hafi verið um alveg ákveðið samkomulag af hennar hendi að ræða og samkomulag, sem hún sé skuldbundin til þess að sjá um að nái fram að ganga og hún taldi sig hafa styrk til og vissu fyrir að næði fram að ganga, þegar gengið var að því. Af þessum sökum er það, eins og segir í nál. meiri hl. á þskj. 584, að nm., sem annars hefðu talið þennan greiðslumáta eðlilegri og sjálfsagðari á allan hátt, hafa ekki viljað ganga gegn því samkomulagi, sem gert var, og þar tala ég fyrir sjálfa mig. Alveg sérstaklega er það sökum þess, að það er ekki mögulegt að fá úr því skorið bindandi frá samningsaðilanum, sem hinum megin var, þ.e. frá verkamönnum og vinnuveitendum, hvort þeir sætti sig við það, að þessu samkomulagi sé breytt, þar sem ekki er hægt að líta öðruvísi á en svo, að þegar vinnudeilunni var lokið með atkvæðagreiðslu félaganna, þá hafi þær n., sem að þessum málum unnu fyrir deiluaðila, í raun og veru verið búnar að missa umboð sitt. Um leið og atkvæðagreiðslan fór fram og búið var að ganga að samningunum, þá verður að lita svo á, að þessar n. hafi verið búnar að missa umboð sitt, og það væri þá í hæsta lagi hægt að fá persónulegt álit einhverra manna á þessu atriði, en engan veginn hægt að fá um það neina vissu. Og af því gæti leitt það, að menn, sem óneitanlega er vitað að voru í þessu verkfalli, margir alltekjuháir menn, teldu sig vera svikna og mundu geta borið fram ákveðnar kröfur út af því, að samningar við þá hafi ekki verið haldnir. Ég lýsi því yfir, að ég var eðli málsins samkvæmt alveg eindregið með því, að þessar greiðslur hefðu verið miðaðar við eitthvert hæfilegt tekjumark, en ég taldi eins og á stóð ekki fært að leggja það til, að d. gerði þá breyt. á frv. Þessu sjónarmiði fylgja svo hv. þm. Seyðf. og hv. 4. þm. Reykv., en hann þó með þeim fyrirvara, að hann telur, að nægilegt sé að fá álit sáttanefndar þeirrar, sem starfaði í vinnudeilunni, og þeirra samninganefnda, sem störfuðu, um það, hvort breyt. á þessu samkomulagi yrði talin brigð frá hendi ríkisstj. eða ekki. Ég get ekki fallizt á, að það mundi nægja til, jafnvel þótt það álit lægi fyrir, og hef ég því ekki óskað eftir, að þess væri leitað, eins og hv. 4. þm. Reykv. óskar þess, að slíks álits væri leitað, og mun haga afstöðu sinni til fram kominna brtt. minni hl. samkv, því, sem fram kemur, ef þess álits væri leitað, eða ef þess verður ekki leitað.

N. var öll sammála um brtt. þá, sem borin er hér fram á þskj. 584, og ætla ég að lýsa henni, til þess að hún skýrist, og ég vil geta þess, að hæstv. félmrh. hafði ekkert við þá breytingu að athuga heldur.

Í næstsíðustu málsgr. 3. gr. er talað um ekkjur og ógiftar mæður, sem hafa fleira en eitt barn undir 16 ára aldri á framfæri sínu. Það var litið svo á, þegar þetta samkomulag var gert, — og þessi grein er tekin upp eftir samkomulaginu, — að „ógiftar mæður“ þýddi hér bæði konur, sem eiga barn án þess að vera giftar, og fráskildar konur, sem hafa eignazt börn í hjónabandi, en í tryggingalöggjöfinni er yfirleitt gerður á þessu greinarmunur. Fráskildar konur eru taldar sérstaklega og „ógiftar mæður“ á aðeins við þær konur, sem hafa eignazt barn án þess að vera giftar. N. þótti því rétt að gera þetta ótvírætt, þrátt fyrir það þótt við vissum, að við undirbúning málsins hafði verið gengið út frá því, að þetta næði einnig til fráskilinna kvenna, en n. þótti rétt að taka af tvímæli um þetta og færa það til samræmis. — Þessi breyt. felst í 1. málslið brtt.

Þá höfum við breytt orðalagi áframhaldandi á brtt. Það er talað um, að ekkjur og ógiftar mæður, eins og þar segir, skuli auk barnalífeyris eiga rétt til mæðralauna. N. þótti þetta orðalag geta orkað tvímælis og jafnvel meira en það, því að það felur það í sér raunverulega, að aðeins þær konur, sem njóta barnalífeyris frá Tryggingastofnuninni, skuli eiga rétt til mæðralauna. En vel getur hagað þannig til, að fráskilin kona hafi meðlag með börnum sínum frá eiginmanninum, þannig að hún fái ekki barnalífeyri frá Tryggingastofnuninni, og mundi hún þá samkv. þessu orðalagi ekki eiga rétt til mæðralauna. Þess vegna hefur n. breytt þessu orðalagi þannig, að það tekur af allan vafa, að mæðralaunin greiðast án tillits til þess, hvort konan nýtur jafnframt barnalífeyris eða eigi. Og þetta er gert til þess að tryggja það, að konur, sem fá meðlag með börnum sínum frá eiginmanninum, en taka ekki barnalifeyri gegnum Tryggingastofnunina, eigi einnig þennan rétt, sem sjálfsagt er.

Þá er lagt til, að síðasta málsgr. greinarinnar falli niður, en svo stendur á, að ef þessi grein er látin halda sér, þá mundu þeir menn, sem fá sjúkradagpeninga og örorkudagpeninga, ekki fá fullar fjölskyldubætur jafnframt, og þótti n. réttara að fella þetta niður og láta þetta heldur laust og bundið, og mundi þá ganga um það úrskurður í ráðuneytinu, ef þetta yrði framkvæmt þannig, að menn teldu sig þurfa að kvarta.

Þá er sú viðbót, að bætur samkv. þessari grein greiðist ársfjórðungslega eftir á. Þetta er til vinnusparnaðar, þar sem forstjóri Tryggingastofnunarinnar telur, að það mundi verða mjög erfitt verk að greiða bætur þessar mánaðarlega, og taldi hann jafnvel, að rétt mundi, að þær væru greiddar hálfsárslega, en þó var þetta nú látið standa svona, að það sé ársfjórðungslega.

Ég tel mig svo ekki þurfa að hafa frekari framsögu fyrir þessu máli. Meiri hl. n. leggur til, eins og segir í nál., að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég hér hef lýst.