23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég efa, að það hafi nokkurt þingmál verið tekið til umræðu hér á yfirstandandi þingi, sem sett hefur hæstv. ríkisstj., fylgismenn hennar og andstöðuna í jafnörðuga aðstöðu eins og það mál, sem hér er til umræðu. Er það kannske ekkert óeðlilegt, því að hér er farið inn á nýjar brautir, sem e.t.v. kunna að hafa mjög alvarlegar afleiðingar, ef ekki er spyrnt við fótum þegar í stað. Mál þetta er svo yfirgripsmikið og margþætt, að ég veit raunverulega ekki, hvaða þátt málsins ætti hér helzt að ræða. Hæstv. ríkisstj. hefur mjög óskað þess, að sá þátturinn, sem er kannske alvarlegasti þátturinn í málinu, þegar á allt er litið, að hér er beitt í fyrsta skipti á Alþingi Mossadeqs-aðferðum í stórmáli, verði ekki ræddur svo mjög, vegna þess að það sé alveg þýðingarlaust að ræða það mál, það heyri til liðnum tíma, en það er kannske alvarlegasta atriðið í þessu margþætta og mikla máli.

Það hefur sýnt sig, að hæstv. ríkisstj. hefur talið það af einhverjum ástæðum heppilegast að gera út um þetta stórmál fyrir utan þingsalina og það á meðan allir alþm. eða mestur hluti alþm. sat hér að störfum, og sýnist þó, þegar málið er athugað, að til þess hafi ekki verið nein ástæða. Það sýnist, að það hefði verið ekki einungis sjálfsagt og rétt, heldur hefði og vel verið hægt að koma því fyrir, að eftir að hæstv. ríkisstj. hafði komizt að viðunanlegu samkomulagi að sínu áliti við þær stéttir í þjóðfélaginu, sem deildu um kjör og laun, og hafði lagt þær till. fram, sem hún taldi að báðir aðilar gætu sætt sig við og sáttasemjari bar fram, þá hefði verið nægilegur frestur fyrir hæstv. ríkisstj. til að bera þennan samning eða þessar till. undir sjálft Alþ. til samþykktar eða synjunar, alveg eins og það gafst tími til þess að bera þessar till. undir allsherjaratkvæði hjá stéttarfélögunum. Ég hef séð hér, síðan ég kom á Alþingi, verið tekið fyrir málefni, sem varðað hefur allmiklu fyrir íslenzku þjóðina og hefur verið sett hér á einni nóttu í gegnum báðar deildir með afbrigðum og festu, og ég sé ekki, hvers vegna hæstv. ríkisstj. hefði ekki einnig hér getað fengið samninginn ræddan og staðfestan á þinglegan hátt, áður en hann var undirritaður af viðkomandi aðilum. Um þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að sakast nú orðið, og segi ég það því aðeins, að ég álít, að hér hafi ekki verið farið rétt að og að hér hafi verið farið inn á braut, sem ber að varast í framtíðinni, og að þessi víti, sem hér hafa á orðið, verði að verða til varnaðar framvegis og það í smærri málum en hér um ræðir. — Ég skal svo ekki ræða meira þann þáttinn.

Hitt harma ég engu síður, að tryggingalöggjöfin og tryggingastarfsemin í landinu er í fyrsta skipti hér dregin inn í harðvitugar og harðskeyttar kaupdeilur, verkföll og kaupdeilur á milli atvinnurekenda annars vegar og atvinnuþiggjenda hins vegar, og þegar svo er komið, að hæstv. ríkisstj., sem ég fullkomlega viðurkenni að hefur átt mjög erfitt í málinu, sér enga leið aðra til þess að sætta þessa aðila, heldur en að setja tryggingarnar, sem fólkið á að treysta í framtiðinni og er þegar byrjað að treysta að sé það síðasta, sem það getur horfið til, þegar allt annað bregzt, þá skuli einmitt þessi stofnun vera sett í þá hættu að verða umdeilt atriði í harðskeyttum vinnudeilum til þess að sætta þær. Það er alveg sýnilegt, að ef hér er ekki spyrnt við fótum, þá verður gengið svo á þetta lag, að tryggingamálin á Íslandi verða einskis virði í framtíðinni, og ég tel það skyldu hvers þess manns hér á Alþ., sem vill tryggingamálunum vel, að standa á verði gegn því, að slíkt komi aftur fyrir. Ég segi þetta ekki sem neina ásökun til hæstv. ríkisstj. Ég bendi aðeins á þetta vegna þess, að mér er ljóst, að sú stofnun verður í framtiðinni mulin niður að fullu og öllu, ef á að halda áfram þessari stefnu, eins og atvinnuvegirnir hafa af þessum sömu aðilum verið gerðir óstarfhæfir um alilanga framtíð. Það er alveg sýnilegt, að fram hjá því verður ekki komizt, og þá er illa farið um þessa stofnun, sem sett var hér á stofn með miklum fórnum frá Alþ. og fólkinu sjálfu til þess að skapa hér betra líf einmitt fyrir þá fátækustu í landinu. Ég tel, að það þurfi að hefja hér mjög harða og ákveðna sókn gegn þessum öflum, sem hér eru að verki til eyðileggingar þessu mikla máli.

Að ég ekki gat fylgt hv. meiri hl. í sameiginlegu nál. og till., stafar m.a. af þessari sérstöðu minni í málinu. Ég get ekki undir neinum kringumstæðum fellt mig við, að það sé þannig farið með þingmál — og það jafnstórt mál eins og hér um ræðir, að það sé afgert á slíkan hátt eins og hér hefur verið gert, án þess að hafa um það fullt samstarf við þm. á þinglegan hátt, og ég get ekki heldur fellt mig við, að tryggingalöggjöfin og tryggingamál þjóðarinnar séu dregin inn í vinnudellur til þess að sætta vinnuveitendur og vinnuþiggjendur á þann hátt, sem hér hefur verið gert, og hversu sem ég að öðru leyti styð okkar ágætu ríkisstj., þá get ég ekki á neinn hátt fylgt henni í þessu máli. Ég tel, að það væri fullkomin skerðing á þeim heiðri, sem ég tel að hver þm. eigi að gæta í sínu starfi, og það væru fullkomin svík frá minni hálfu við þau loforð, sem ég hef gefið mínum hv. kjósendum, ef ég fylgdi máli, sem ég hef það álit á, sem ég þegar hef skýrt. Þess vegna gat ég ekki undir neinum kringumstæðum orðið sammála meiri hl. um afgreiðslu málsins.

En þótt litið sé burt frá þessu öllu saman, bæði frá meðferð málsins sjálfs og einnig frá þeim samningum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í sambandi við vinnudeilurnar og snerta þetta mál, þá finnst mér þó, — og það urðu mér mikil vonbrigði, — að hæstv. félm. og forsrh. hafi hvorki sýnt þessari hv. deild né hv. heilbr.- og félmn. þá samvinnu í þessu máli til bóta á því, sem gert hefur verið, svo sem nauðsynlegt var og ég raunverulega veit, að hann hefði viljað gera, miðað við þann kunningsskap, sem ég hef haft af honum og hans afstöðu til þessara mála í gegnum mörg ár. Ég hygg, að það stafi af því, að hann hafi ekki viljað nota sína ágætu greind til þess að athuga hin einstöku atriði þessa máls, því að þær óskir, sem við nú hefðum getað komið okkur saman um, voru sannarlega ekki þess eðlis, að það væri ástæða til fyrir hann að beita meiri þvingun heldur en nauðsynlegt var vegna heiðurs hans sem stjórnarforseta til þess að koma fram þessu máli.

Það hefur verið sagt hér, að meginástæðan fyrir því, að lagt er gegn þeim till., sem ég og hv. 7. landsk. höfum borið fram, sé sú, að það væru talin brigðmæli við þá samninga, sem gerðir hefðu verið. En ég vil nú biðja bæði hæstv. ráðh. og hv. frsm. meiri hl., sem sjálfur er lögfræðingur, að athuga, að hér er haldið fram af þeirra hendi ákaflega röngu máli frá mínu sjónarmiði. Þeir samningar, sem gerðir voru í sambandi við vinnudeiluna, gátu aldrei snert aðra aðila en þá, sem undirrituðu samningana, og ég vildi gjarnan heyra það frá hæstv. ráðh., hvort það er ekki rétt skilið af mér, að aðra aðila gátu samningarnir ekki snert. Þeir gátu þá snert allan verkalýð landsins, og einhvern tíma var það upplýst, að það mundu vera um 20 þús. manns, sem hefðu staðið hér í þessu verkfalli, sem er raunverulega mjög mikill fjöldi, og á hina hliðina gátu þeir þá aðeins snert þá útgerðarmenn, sem stóðu að samningunum og höfðu fulltrúa við samningsgerðina. Aðra menn í landinu gátu þeir ekki snert undir neinum kringumstæðum. (Gripið fram í.) Já, alla þá atvinnurekendur, sem stóðu að því og undirskrifuðu samningana, og aðra ekki. Þeir gátu ekki snert neina aðra. Og ég fullyrði, að það er sáralitill hópur í þeim flokki manna, sem mundi verða að nokkru leyti misboðið eða þeirra réttur skertur, þó að okkar till. væru samþykktar um skerðingu á fjölskyldubótum. Ég fullyrði, að það er svo lítill hópur manna innan þessa hrings, sem hefur yfir 44 þús. kr. í hámarkstekjur á ári á 1. verðlagssvæði og 33 þús. kr. á 2. verðlagssvæði, að það hefði verið leikur einn að komast að samkomulagi við þá aðila, sem eftir voru, til þess að þeir liðu ekki við þessa breytingu á löggjöfinni. En hér er ekki verið að hugsa um það atriði. Hér er einmitt hugsað um það, að samhliða þessari samningsgerð skuli það vera aðrir aðilar í landinu, sem skuli njóta sömu hlunninda, hver einn og einasti aðili og þegn í þjóðfélaginu, sem búi við annaðhvort líkar tekjur eða miklu meiri tekjur, skuli einnig njóta þessara kjarabóta, og við það er hæstv. ríkisstj. ekki skuldbundin samkvæmt samningnum.

Nú er það svo, að hver og einn einasti aðill í landinu, hvort heldur hann er ríkur eða fátækur, hvort heldur hann hefur miklar tekjur eða litlar, nýtur þeirra kjarabóta, sem fengust með ráðstöfunum ríkisstj. um lækkun á olíuverði, lækkun á mjólk, lækkun á frögtum og öðrum lækkunum til lækkunar á dýrtíðinni. Þetta er alveg ljóst. Og fjöldamargir af þessum mönnum höfðu ekki einu sinni óskað eftir þessu, hvað þá að þeir hefðu gert verkfall út af því, en þeir njóta þessara kjarabóta, og ég sé að sjálfsögðu engan veginn eftir því.

En það er líka stór hópur manna, sem með þessum samningum og með þeirri löggjöf, sem hæstv. ríkisstj. er að þvinga hér fram, — ég segi: er að þvinga hér fram, því að mér er það ljóst, að hún fær marga hv. þm. til þess að greiða atkvæði með löggjöfinni vegna þess, að þeir eiga einskis annars úrkosta, en að velja á milli þess, hvort þeir vilji fylgja sannfæringu sinni eða setja hæstv. ríkisstj. í þá óvenjulegu aðstöðu að verða styrkt af stjórnarandstöðunni, þar sem stjórnarstuðningsmennirnir vilja ekki ganga inn á að styðja hana í ákveðnu máli. Þetta er mér alveg ljóst, og það er þess vegna, sem hún fær að sjálfsögðu lögfest þessi ákvæði. En með þessum ákvæðum, sem þannig verða lögfest hér á Íslandi, fær hver einn og einasti maður í þessu landi, sem hefur yfir 1830 kr. á mánuði, 1000 kr. hækkun á sínum launum, og það alveg eins þótt hann hafi 250 þús. kr. í tekjur. Þessir aðilar eiga engan lögfræðilegan rétt eða lögfræðilegar kröfur á hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjölskyldubæturnar, nema þeir séu beinir samningsaðilar að samningnum. Og mér þykir ákaflega merkilegt, að í hv. meiri hl. sitja tveir ágætir lögfræðingar, bæði hv. frsm., hv. 8. þm. Reykv., og hv. þm. Seyðf., sem hafa annaðhvort látið blekkjast af þeim rökum, sem hér hafa verið borin fram, og ekki notið sinnar lögfræðilegu þekkingar eða beinlínis gert það fyrir hæstv. ríkisstj. að breiða blæju yfir sína lögfræðilegu þekkingu og fylgja stjórninni alveg blint í þessu máli. En það þarf engan lögfræðing til þess að skilja og sjá það, að þeir menn, sem ég hef rætt hér um og ekki voru aðilar að þessum samningi, gátu ekki átt neinar lagalegar kröfur á ríkisstj., og þess vegna var engin áhætta að gera þær breytingar, sem við fórum fram á.

Ég skal þá koma að þessu atriði: Er það raunverulega eðlilegt og sanngjarnt, að okkar brtt. séu samþ.? Hæstv. ráðh. lýsti því yfir við n., að hann óskaði ekki eftir því að ræða það mál efnislega. Hann taldi það vera að eyða tíma. Það væri búið að samþykkja þetta, þarna yrði engu breytt, og það vildi hann ekki ræða efnislega. Hann lét nokkuð falla sömu orð hér við 1. umr., en sagði þó hér, að hann teldi það engan veginn óeðlilegt, fyrst væri farið inn á þá leið, sem hér hefur verið farið inn á, að hækka fjölskyldubæturnar. Ég er þar á alveg annarri skoðun. Ég er þeirrar skoðunar, að langsamlega mest aðkallandi þörfin sé að bæta elli- og örorkulífeyrinn.

Ég vil benda bæði hæstv. ríkisstj., hæstv. ráðh. og hv. d. á, að það mun vera hámark nú, að einstaklingar hafi sem ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar um 6 þús. kr. frá tryggingunum. Ef það eru sérstakar ástæður til og þessir viðkomandi aðilar eru sjúkir og enginn getur séð fyrir þeim, þá má þó hækka þetta um 40%. En ég vil nú til samanburðar leyfa mér að benda hæstv. ríkisstj. og hv. d. á, að hér hafa m.a. í dag og undanfarna daga staðið um það allmikil átök, hvort ekki ætti að greiða ekkjum embættismanna, sem þó höfðu haft prýðileg laun og áttu sumir hverjir ágætar eignir, eða embættismönnunum sjálfum, sem hættir eru starfi, en eiga einnig mismunandi eignir, sumir litlar, sumir miklar, a.m.k. þrefalt þessar upphæðir, og það þykir smánarboð frá Alþ. og ríkissjóði að láta sér detta í hug, að þessir menn sætti sig við minna, en þær upphæðir, sem ég hef þegar nefnt, og það alveg sem lágmark. En á sama tíma er farið inn á þá braut hér að skerða svo framlög eða bætur til fátækustu manna þjóðfélagsins, að þeir geta á engan hátt dregið fram lífið með þeim bótum, sem hér um ræðir. Og það er gert á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. hlekkjar menn hér í hópum til þess að setja miklu hærri bætur til þeirra manna, sem hafa mörgum sinnum, ekki þrisvar sinnum, heldur tíu sinnum, kannske tuttugu sinnum og kannske þrjátíu sinnum meiri tekjur heldur en þeir menn, sem hér um ræðir. Ég hefði getað skilið þessa afstöðu frá hæstv. ríkisstj., ef hún hefði ekki séð neinar útgöngudyr. En við höfum einmitt bent á, að hér eru útgöngudyr, sem hvort tveggja í senn opna hæstv. ríkisstj. leið til þess að fara út úr þessu máli með meiri sóma, en hún getur farið, ef hún heldur fast við sínar kröfur, og á sama tíma bæta úr mest aðkallandi þörf þeirra fátækustu manna, sem byggja vonir sínar og framtíð á tryggingalöggjöfinni. Auk þess vil ég leyfa mér að benda á, að einmitt í okkar till. felst ekki það að taka frá þeim mönnum bætur, heldur að flytja til, því að fjöldamargar fjölskyldur í landinu, sem njóta samningsins, fá bæturnar aftur sem bætur með hækkandi framlagi til gamla fólksins. Og það eru þúsundir af gömlu fólki, sem er í þessum fjölskyldum, sem hér um ræðir. Ég er því alveg hárviss um, að ef nokkur vilji er fyrir því hjá hæstv. ríkisstj., þá hefur hún alla möguleika til þess að fara með meiri sóma út úr þessu máli með því að samþ. þá till., sem við höfum borið hér fram.

Ég ætla svo aðeins að leyfa mér að benda á, að almannatryggingarnar í landinu munu verða nú á fjárlögunum um 1/4 af heildarútgjöldunum. Það er sýnilegt, að þegar einhver liður í fjárl. er orðinn slíkur, að hann er orðinn 25% af öllum útgjöldum ríkissjóðs, þá hlýtur sá liður að snerta svo að segja hvern einasta mann í landinu, enda er það orðið svo, að tryggingamálin snerta orðið svo að segja hvert einasta heimili í landinu meira eða minna. Það er því sorgleg tilhugsun og varla hægt að hugsa hana til enda, að það skuli vera möguleiki fyrir því, að þetta stóra mál verði eyðilagt með því að verða gert að knetti til þess að kastast á milli þessara tveggja afla í þjóðfélaginu, vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Og ég veit ekki, hvort nokkur af hv. þm. sér út yfir það tjón, sem slíkt kann að skapa, og þá truflun, sem slíkt hlýtur að skapa í þjóðfélaginu, ef því verður ekki kippt í rétt horf.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að með þeim samningi, sem hér var gerður, er ekki hugsað um fulltrúa þeirra manna, sem sannarlega fengu á sig allmikla byrði við þennan samning. Ég skal viðurkenna, að stéttarfélögin, verkalýðsfélögin, höfðu fullkomlega sina fulltrúa, gátu metið og vegið, hvað þau fengju í bættum kjörum með þessum samningum og hvar þau tóku á sig nýjar byrðar með samningunum. En það hljótum við að viðurkenna, að þetta hlýtur að skapa og skapar allmiklar byrðar á þegna þjóðfélagsins. Sama má segja um atvinnurekendur, sem þó héldu því fram, að þeir gætu ekki bætt á sig neinum bagga í sambandi við lausn dýrtíðarinnar. Þeir hafa þó tekið á sig hér yfir 2 millj. kr. byrði í sambandi við aukin iðgjöld, ef þetta frv. verður að lögum. En ég viðurkenni, að þeir höfðu hér fulltrúa til þess að hafna eða velja í sambandi við þetta mál. En hinir aðilarnir, þeir, sem taka á sig um 6 millj. kr. byrði sem iðgjaldagreiðendur, áttu hér engan fulltrúa, aðrir en þeir, sem voru skráðir í verkalýðsfélögunum og að sjálfsögðu höfðu sína fulltrúa þar, — þeir höfðu enga fulltrúa aðra en alþm. til þess að segja til um það, hvort þeir vildu þessa lausn á málinu eða aðra, en einmitt þessir fulltrúar voru ekki spurðir um þetta mál.

Mér skilst, að samningurinn sjálfur hafi það í för með sér, að Tryggingastofnunin þurfi um 14–15 millj. kr., og vil ég leyfa mér að leiðrétta það, sem kemur hér fram í nál., þar sem það er talað um, að það séu 19 millj., en þar er innifalin hækkun á verðlagsvísitölu frá fyrra ári, svo að það heyrir ekki til í sambandi við þennan samning. En það munu vera um 14–15 millj. kr., sem þessi samningur kostar Tryggingastofnunina eða þá aðila, sem verða að greiða til hennar fé, og þessu mun vera skipt þannig, að ríkissjóður verður að greiða um 5 millj., eða rúmar 5 millj. kr., en um það fengu fulltrúar ríkissjóðs á Alþ. ekki leyfi til að segja eitt orð. Sveitarsjóðirnir munu þurfa að greiða hér nærri 4 millj. Þeir höfðu ekki heldur tækifæri til þess að segja neitt um þetta atriði, og iðgjaldagreiðendurnir munu greiða aðrar 5 millj. kr. Þeir fengu ekki heldur, eins og ég hef skýrt frá, leyfi til þess að segja neitt um þessi mál.

Þegar lögin um almannatryggingar voru sett hér á Alþ., þá átti ég og hef jafnan síðan átt sæti í þeirri n., sem hefur fjallað um þessi mál frá upphafi. Meginátökin milli mín sem fulltrúa Sjálfstfl. þá og enn í þessari n. og hv. 4. þm. Reykv., sem bar fram málið fyrir hönd Alþfl., voru jafnan þau, að ég vildi aldrei fallast á að ganga lengra í tryggingabótum en svo, að unnt væri að halda þau loforð, sem gefin yrðu á hverjum tíma. Mér er það fullkomlega ljóst, að ef farið er að gefa loforð, hvort heldur það er til eins eða annars og ekki hvað sízt til svo mikils hluta þjóðarinnar eins og hér um ræðir, sem á viðskipti við Tryggingastofnunina og kröfu í bótum, þá verður það aldrei vel þegið, að ekki sé hægt að standa við þau loforð eða það þurfi að draga úr þeim bótum síðar meir. Og það hefur sífellt á hverju ári verið gerð sókn á hendur stofnuninni til þess að auka þessar bætur, og það hefur jafnan ríkt sá hugsunarháttur í n., a.m.k. hjá meiri hl. n., að það væri rétt að víkja aldrei frá þessum grundvallaratriðum, að lofa aldrei meiri bótum en hægt var að standa við. Það er því sýnilegt, að ef á að halda þessari stefnu áfram, sem ég vona að verði haldið, þá verður ekki snúið við á þessari braut, eftir að búið er að samþ. þetta frv., heldur verður ríkissjóður og aðrir þeir aðilar, sveitarsjóðirnir og einstaklingarnir, að vera viðbúnir að standa undir þeim kröfum, sem gerðar verða til þeirra, til þess að það sé hægt að standa við þessi loforð. Og það verður að búast við meiru. Það verður ekki þolað undir neinum kringumstæðum, að ekki verði komið fram réttlætingu á þeim hluta tryggingamálanna, sem nú er fyrir borð borinn, eins og í sambandi við ellitryggingarnar, sem ég þegar hef lýst. Þegar á næstu þingum, eða jafnvel næsta þingi, hlýtur að koma fram krafa um það, að réttur verði hlutur þeirra manna, því að það er þó ekki undir neinum kringumstæðum háð neinum samningum, sem ríkisstj. hefur gert utan þingsalanna. Og verði það ekki gert annars vegar að rétta hlut þessara manna og hins vegar að standa við loforðin, sem gefin eru með þessu frv. og gefin hafa verið með lögunum, þá verða tryggingarnar þurrkaðar út, því að þá eru þær búnar að missa alla samúð hjá þjóðinni, af því að þá eru þær ekki lengur réttlátar.

Mér er líka vel kunnugt um, að þegar tryggingarnar fóru að safna sjóðum, þá voru hér ýmsir menn, sem sáu ofsjónum yfir því, alveg eins og það eru ávallt til menn, sem sjá ofsjónum yfir því, að einhverjir aðilar hafi yfirleitt yfir fé að ráða. Þá voru gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að ná þessum sjóðum undir ríkissjóð, þ.e.a.s. að eyða þeim. Því miður var ekki hægt þá að standa á móti því, að þetta yrði gert. Það var að vísu stöðvað, en því miður var ekki staðið nægilega fast á móti því, að nokkur skerðing ætti sér stað. Nú verður að sjálfsögðu að taka upp harðskeytta baráttu fyrir því, að Tryggingastofnunin fái slíkar tekjur, að hún ekki einasta geti staðið undir þessum loforðum, heldur einnig safnað sjóðum til þess að mæta slíkum áföllum eins og ávallt kunna að koma fyrir og m.a. hefur komið fyrir nú.

Ég vil svo einnig leyfa mér að benda á hér, að skerðingin í sambandi við lífeyrisgreiðslurnar, örorkulífeyrinn og ellilaunin, var beinlínis gerð vegna þess, að þeir menn, sem höfðu um þessi mál að fjalla hér og þungi þessara mála hvíldi á, vildu aldrei víkja frá meginatriðinu, að veikja ekki stofnunina of mikið fjárhagslega. Og það var þess vegna, sem þeir og m.a. ég féllst á það við hæstv. ráðh. í desembermánuði að fresta skerðingarákvæðinu til ársloka 1954. Nú sé ég mér ekki fært annað en að bera fram till. um það, að þessi skerðing falli niður í árslok 1953. Og það er beinlínis vegna þess, að það verður ekki hægt að þola það, eins og ég hef þegar lýst, að réttur þessara aðila, sem eiga afkomu sína undir almannatryggingunum, sé fyrir borð borinn lengur en þann allra skemmsta tíma, sem hægt er að hugsa sér, og það er til ársloka 1953. Og ég vil því vænta þess, að það nái fram að ganga, hvernig svo sem fer um þær brtt., sem ég hef borið fram á þskj. 585, um að flytja til bæturnar úr fjölskyldubótunum til ellilaunanna, sem ég nú vænti að bæði hæstv. ráðh. og hv. meiri hl. n. vilji taka enn til athugunar, hvort ekki sé rétt að samþ., vegna þess að þau rök, sem hv. frsm. færði fyrir því, að hann vildi ekki standa að samþykkt þessarar till., eru alveg röng. Ég veit, að eftir því sem hann talaði hérna í n., þá vili hann mjög gjarnan, að þessi breyt. komist á, og ég hef þegar hér í minni ræðu bent á, að það sé engum vandkvæðum bundið að gera það, án þess að hér sé um nokkra sviksemi að ræða í samningum. En þrátt fyrir það að þær till. yrðu felldar fyrir misskilning málsins, beinan misskilning málsins, þá vil ég þó vænta þess, að önnur till. mín, till. undir 2. tölul., um það, að skerðingin sé ekki látin gilda lengur, en til ársloka 1953, verði þó samþykkt. Hún er algerlega óháð því samkomulagi, sem gert hefur verið, og ég held, að ég megi fullyrða það hér, að hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir, að hann út af fyrir sig hefði ekkert á móti því, að sú till. yrði samþ. Hann óskaði að vísu ekki eftir að fá hana, en hins vegar gat ég ekki skilið hans orð öðruvísi en svo, að hann hefði ekkert á móti henni. Það má segja, að það hafi í sjálfu sér, ef til vill ekki mjög mikla þýðingu, því að næsta Alþ. getur að sjálfsögðu strax á fyrsta samkomudegi borið fram breyt. á frv., en þó þætti mér það betra, að borin væru smyrsl á þau sár, sem óverðskuldað hafa verið hér veitt gamla fólkinu í landinu, að það hefði þó tryggingu fyrir því eða einhverja von um það, að þessi mál yrðu leiðrétt áður en næsta ár byrjar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða um þetta mál hér nánar og óska að sjálfsögðu eftir því, að þær till., sem ég hef borið fram, verði samþykktar.