23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Magnús Jónsson:

Það voru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að fara að blanda mér hér sérstaklega í þær umr., sem hv. 2. þm. Reykv. hafði hér áðan varðandi fjármálastefnu ríkisstj. og vaxtapólitík yfirleitt. Það var nánast fsp. til þeirrar hv. n., sem með þetta mál hafði að gera, sem ég vildi beina til hennar. Það virðist svo, og mun enda vera, að ég hygg, rétt skilið skv. 1. gr. þessara l., að vextir skuli breytast eftir því, sem vextir Landsbankans eru á hverjum tíma, þannig að sé samið um 7% vexti nú, þá skuli þeir breytast til lækkunar eða hækkunar eftir þeim reglum, sem Landsbankinn fylgir á hverjum tíma. Nú vill svo til, að ég hef dálítið fengizt við skuldabréfasölu fyrir opinbera aðila, og það mun öllum hv. þm. ljóst, að það er ekki hvað sízt í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem alltaf er takmarkaður lánamarkaður, að þess er oft mikil þörf og nauðsyn að afla peninga með skuldabréfasölu til ýmiss konar framkvæmda, enda ekki nema æskilegt, að slíkt sé gert. En þá vaknar aftur sú spurning, að ef svo er málum háttað í l., að þeir vextir, sem ákveðnir eru af skuldabréfum, þegar þau eru seld, eiga að vera háðir óvissum ákvörðunum, þannig að þeir kunni að breytast til verulegrar lækkunar einhvern tíma á lánstímanum, þá hlýtur annaðhvort að leiða til þess, að skuldabréf seljist ekki, eða að minnsta kosti það torveldi mjög sölu þeirra, þegar um opinber lánsútboð er að ræða, þar sem ekki er reiknað með afföllum á lánum, og svo aftur á hinn bóginn, þar sem um er að ræða sölu á skuldabréfum, sem einstaklingar annast um og því miður — því er ekki að neita — hafa verið seld með allverulegum afföllum að undanförnu, — að það er að minnsta kosti mjög hætt við því og enda næstum víst, að sú bréfasala hlýtur mjög að torveldast og það hlýtur að auka mjög hættuna á því, að hærri affalla verði krafizt af bréfunum við sölu þeirra, ef kaupandi bréfanna á það á hættu, að þeir vextir, sem ákveðnir eru í bréfinu, kunni að breytast og lækka verulega einhvern tíma á lánstímanum, án þess að hann hafi nokkur tök á að ráða þar neinu um. Sem sagt, samkv. ákvæðum 1. gr. virðist vera gert ráð fyrir því, að samningsréttur manna um vexti af skuldum sé að þessu leyti takmarkaður, að það sé ekki hægt að ákveða endanlega vaxtaupphæðina, þannig að hámarkið kunni að lækka, ef svo fer síðar, að Landsbankinn breytir sínum vöxtum til lækkunar.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu atriði, af því að ég hygg, að það skipti nokkuð miklu máli, og beina þeirri fsp. til hv. nefndar, hvort hún sérstaklega hafi tekið þessa hlið málsins til athugunar og hvort beri að skilja hennar nefndarálit þannig, að hún telji, að það sé ekki neitt við þessa hlið málsins að athuga.