02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

199. mál, almannatryggingar

Kristín Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar frv. um breyt. á l. um almannatryggingar lá hér fyrir Alþ. í desembermánuði, þá lagði ég ásamt hv. 3. landsk. og hv. 10. landsk. þm. fram brtt. á þskj. 505 um það, að inn í 2. gr. frv., sem er um rétt, er íslenzkar konur, sem gifzt hafa erlendum mönnum, er hafa fallið frá eða skilið við þær, eiga til lífeyrisgreiðslu með börnum sínum, bætist ákvæði um það, að greiða skuli barnalífeyrinn frá þeim tíma, sem barn hætti að njóta meðlags frá hendi föður. Till. var felld þá og í umr. talið, að ekki lægju nógu nákvæmar upplýsingar fyrir um það, hvort þessar bætur mundu nema mikilli fjárhæð.

Nú þegar þetta nýja frv. um almannatryggingar er lagt fyrir þingið, þá leyfum við okkur — hinir sömu þm. — að taka aftur upp brtt. okkar, með þeirri breytingu þó, að í stað þess, að í fyrri brtt. er ætlazt til, að barnalífeyririnn sé greiddur fyrir 5 ár aftur í tímann, eða frá 1. jan. 1947, er nú í þessari till. miðað við 1. jan. 1951, sem er 2 ár aftur í tímann. Till. þessi liggur nú fyrir þinginu á þskj. 697.

Ég hef reynt að afla nákvæmra upplýsinga um tölu þeirra kvenna og barna, er um ræðir í till., og fullyrðir félmrn., að þær séu ekki fleiri en 20 á öllu landinu og börn á framfæri þeirra álíka mörg. Fjárframlag til þeirra samkv. l., ef brtt. yrði samþ., gæti aldrei farið fram úr 140 þús. kr., sennilega eitthvað minna, og er það ekki stór upphæð samanborið við aðrar bótagreiðslur almannatrygginganna. Að vísu er þetta nokkru meiri upphæð en ég nefndi, þegar ég talaði fyrir till. hér áður, og stafar það af því, að upplýsingar þær, er ég fékk, voru ekki nógu nákvæmar. Félmrn. segir líka nú, að alveg nákvæmar tölur séu ekki fyrir hendi, því að til þess þurfi að fara í gegnum miklar skýrslur og sé það mikið verk, en víst sé, að tala sú, er ég nú nefndi, sé hámarkið.

Ég ætla ekki að tala meira fyrir till. nú, þar sem ég hef gert það áður og þá fært fram þau rök, er ég kunni. Vona ég, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þessa till. og bæta með því eitthvað hag þeirra kvenna, er hér um ræðir og flestar eiga við þröng kjör að búa.