03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

199. mál, almannatryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í tilefni af ummælum hv. 10. landsk. þm. og hv. þm. A-Húnv.

Ég er sammála hv. 10. landsk. þm. um það, að ef Alþ. hefði verið í raun og veru algerlega sjálfrátt um það, hvernig það verði 121/2 millj. kr. auknu framlagi til tryggingastarfsemi í landinu, þá hefði ég talið æskilegra, að sú upphæð hefði gengið til hækkunar á ellilífeyri, en til hækkunar á fjölskyldubótum í því formi, sem hér er gert ráð fyrir. En Alþ. er að þessu sinni ekki algerlega sjálfrátt um það, hvernig það ver þessu fé, því að frv. er fram borið í beinu framhaldi af því samkomulagi, sem varð í vinnudeilu þeirri hinni miklu, sem háð var hér í desember s.l. Þetta frv. er staðfesting á því samkomulagi, sem þar var gert milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda fyrir atbeina sáttanefndar, sem skipuð hafði verið, og ríkisstjórnarinnar. Í þeim samningum er skýrt tekið fram, að lögleiða skuli ákvæði eins og þau, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Því hefur þegar verið lýst yfir af hálfu sáttan., sem starfaði að lausn deilunnar, að það yrði að skoðast sem brigð á því samkomulagi, sem gert var, ef þessi ákvæði yrðu ekki lögtekin. Ég tel mig því að þessu leyti bundinn af því gerða samkomulagi, og ekki frjálsan að því að fylgja því, sem ég annars hefði talið æskilegustu og réttmætustu ráðstöfunina á fénu, því að það væri mjög óheppilegt, ef það yrði sagt á eftir með réttu, að Alþ. hefði að einhverju leyti gengið gegn því samkomulagi, sem lausn vinnudeilunnar byggðist á. Af þessum sökum mun ég ekki treysta mér til þess að greiða till. hv. 10. landsk. þm. atkv., þó að ég hefði gert það undir öðrum kringumstæðum. Ég mun því sitja hjá við atkvgr. um þessar till.

Varðandi það, sem hv. þm. A-Húnv. gagnrýndi fjölskyldubæturnar, að þær væru fyrst og fremst hagsmunamál fastlaunamanna, þá er það hinn mesti misskilningur. Fjölskyldubæturnar koma öllum að gagni, ekki einvörðungu fastlaunamönnum, heldur öllum, hvaða þjóðfélagsaðstöðu sem þeir hafa að öðru leyti. Annars væri líka í sjálfu sér undarlegt, að slík krafa skyldi hafa náð fram í verkfalli, þar sem fastlaunamenn voru ekki beinn aðili, eins og hann tók fram. Það er einmitt sönnunin fyrir því, að hér er ekki um sérstakt hagsmunamál fastlaunamanna að ræða, heldur allra, að vísu fyrst og fremst þeirra, sem hafa tekjur yfir visst mark, samanborið við það ef hin leiðin hefði verið farin, að hækka ellilífeyrinn. Þessi gagnrýni hv. þm. A-Húnv. var því að þessu leyti á misskilningi byggð.